2023
Trúargjafir í Gvam
Janúar 2023


„Trúargjafir í Gvam,“ Til styrktar ungmennum, jan. 2023.

Trúargjafir í Gvam

Á eyju í hafinu finnur Franchesca vináttu og huggun með hjálp fagnaðarerindisins.

Ljósmynd
stúlka

Ljósmyndir eftir Cody Bell

Með ströndum, kyrrum vötnum og fornum hellum, hljómar eyjan Gvam eins og draumafrí, en það er venjulegur dagur í lífi hinnar 15 ára Franchesca N.! Hún elskar fallegar strendur. „Það er gaman að fara út og skoða náttúruna.“

Hún er fædd og uppalin í Gvam og elskar að gera eitthvað útivið. „Ég er útiveru manneskja, svo mér líkar ekki að vera innandyra,“ segir hún. Hún elskar að sigla á flotborði á sjónum, kafa og fara í gönguferðir með foreldrum sínum og tveimur systrum. Þau hafa sérstakt dálæti á að ganga á stað með fornum hellum.

Ljósmynd
stúlka og fjölskylda í Gvam

„Ég er mjög náin systrum mínum. Þær eru bestu vinir mínir,“ segir hún. Eldri systir hennar er í skóla á Havaí. „Samfélagsmiðlar eru stór þáttur í samskiptum okkar á milli,“ útskýrir Franchesca. Henni finnst gaman að vera náin og tengd.

Fyrirmynd fyrir aðra

Franchesca er á öðru ári í kaþólskum stúlknaskóla, þar sem hún er eini meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Að vera eini kirkjumeðlimurinn í skólanum hennar var dálítið ógnvekjandi í fyrstu, en hún er vön því að vera séð sem öðruvísi. Auk þess finnst öðrum í kringum hana svolítið flott að hún tilheyri annarri trú.

Vinkonur hennar voru til að mynda að drekka kaffi í hádeginu einn daginn og Franchesca gat útskýrt Vísdómsorðið fyrir þeim.

Franchesca kýs líka að blóta ekki þótt aðrir í skólanum geri það. Hún segir: „Ég lét oft freistast áður, en eitthvað sem heldur mér sterkri er persónulegt samband mitt við himneskan föður með bæn. Hún bætir við: „Ég ætti ekki að gera þessa hluti, vegna þess að það er rangt og vegna þess að ég elska himneskan föður og Jesú Krist.“

Finna vini

Stundum getur verið einmanalegt að vera eini kirkjumeðlimurinn í skólanum hennar. Þegar Franshesca var nýnemi, var hún mjög einmana meðan á heimsfaraldrinum stóð og átti ekki marga vini. Hún var kvíðin að tala við foreldra sína um það, en þegar hún baðst fyrir fann hún sig knúna til að segja þeim hvernig henni liði.

Ljósmynd
faðir og dætur

Sem fjölskylda, ákváðu þau að biðja fyrir því að hún gæti fundið vini sem hún gæti treyst á. Fyrir kraftaverk heyrðu þeir bankað á hurðina um leið og þau höfðu lokið bæn sinni. Þetta reyndist vera ein vinkona hennar frá annarri deild og hún kom með smákökur! Franchesca vissi að himneskur faðir hafði heyrt bæn þeirra.

Í stiku Franchescu eru meðlimir frá Gvam og nokkrum öðrum eyjum. Í deild hennar er aðeins lítill ungmennahópur, en deildin hennar er eins og fjölskylda. Meðlimirnir eru nánir og það hvetur hana til að fara í kirkju á hverjum sunnudegi. Þeir eru miklir áhrifavaldar og fyrirmyndir í lífi hennar.

Franchesca hefur einnig fundið styrk í trúarskólabekknum sínum. „Trúarskólinn er einn af hápunktum vikunnar,“ segir hún. „Þegar ég fer í trúarskólann líður mér eins og allar mínar áhyggjur hverfi.“

Hún elskar að fara í trúarskólann, hvort sem það er á netinu eða í eigin persónu og hún missir aldrei af kennslustund nema hún neyðist til þess. Hún segir vikurnar ganga miklu betur af því að hún velur að vera í trúarskólanum. Ef hún hefur átt streituvaldandi viku, gætir hún þess að fara í trúarskólann, því þar finnur hún frið.

Ungmennin eru líka með félagsstarf um tvisvar til þrisvar í mánuði. Franchesca skipulagði meira að segja einn viðburðinn – spilakvöld með fullt af skemmtilegum borðspilum og ritningarleik. Þau hafa ekki getað hist mikið á meðan á heimsfaraldrinum stóð, svo þegar þau fá að hittast skemmta þau sér vel.

Ljósmynd
stúlkur í félagsstarfi

Stúlkurnar bjuggu meira að segja til tónlistarmyndband af sjálfum sér, þar sem þær hreyfðu varirnar og létust syngja ungmennalag kirkjunnar „Góðan daginn“ og birtu það til að miðla elsku og til að lyfta öðrum. „Samfélagsmiðlar geta raunverulega leitt alla saman, einkum á tímum þegar við getum í raun ekki séð alla.“

Hlakka til musteris

Á aðalráðstefnu í október 2018 var tilkynnt um Yigo-musterið í Gvam. Franchesca segir: „Ungmennin voru svo spennt - við báðum öll fyrir þessu.“ Eftir það fylgdist hún spennt með byggingunni og beið eftir þeirra eigin musteri, sem lokið var við í maí 2022.

Ljósmynd
stúlka og fjölskylda í musterinu í Gvam

Þau hafa alltaf hér áður þurft að fara til Filippseyja í musterisferðir. Til að greiða fyrir ferðirnar, söfnuðu þau peningum með kökubasar og bílaþvotti. Þar sem þetta er langt ferðalag, ráðgerðu þau að það tæki um viku. Franchesca er spennt yfir því að geta farið oftar í musterið og fengið þær blessanir sem fylgja því að vera skírð fyrir áa sína.

Huggun fyrir bæn

Franchesca segir að hún hneigist til þess að hafa miklar áhyggjur, en bænin hefur hjálpað henni. „Bænin er virkilega máttug. Bara það að tala við himneskan föður huggar mig sannlega. Hann hlustar og getur hjálpað.“

„Þegar ég bið, kemur svarið ekki alltaf bara rétt sisvona til mín,“ segir hún. „Það er bara tilfinning leiðsagnar sem hjálpar mér; þessi tilfinning um nærveru og kærleika hans. Það huggar mig og lætur mér líða miklu betur.“

Ábending hennar til annarra ungmenna er: „Biðjið til himnesks föður. Talið við hann. Það hjálpar heilmikið.“

Ljósmynd
stúlka á bæn

Hún segir að mamma hennar hafi líka oft áhyggjur en sé jafnframt mikill styrkur. „Móðir mín er blessun frá himneskum föður og hún hefur leiðbeint mér mikið.“

„Fjölskyldan er mikil blessun,“ segir hún. „Ég held að það sé mikilvægt að opna sig fyrir fjölskyldu sinni eða vini, ef maður er að takast á við eitthvað.“

Franchesca vill að allir sjái hversdagslegar blessanir Drottins. „Daglegar blessanir geta verið svo einfaldar. Að fara í skóla er mikil blessun. Það eru svo mörg æðisleg kraftaverk, ef við gefum okkur tíma til að taka eftir þeim. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fagnaðarerindið í lífi mínu.“

Prenta