Deny amma og litli trúboðinn hennar
Emília Maria Guimarães Correa býr í Federal District, Brasilíu.
„Þegar maðurinn talar með krafti heilags anda, kemur kraftur heilags anda því til skila í hjörtum mannanna barna“ (2 Ne 33:1).
Vítor bjó hjá móður sinni og systur á heimili Deny ömmu. Amma Vítors veiktist og varð rúmliggjandi í margar vikur. Henni leiddist að vera ein í herberginu sínu.
Vítor einsetti sér að verða Deny ömmu félagskapur. Á hverjum degi, þegar hann kom heim úr skólanum, fór hann með eintak af Líahóna inn í herbergi ömmu sinnar og las fyrir hana sögurnar af barnasíðunum.
Þegar hann hafði lesið öll Líahóna tímaritin sem fjölskyldan átti, tók hann að lesa Mormónsbók og Biblíuna fyrir hana. Deny amma var ekki meðlimur kirkjunnar, en hún naut þess að hlusta á Vítor lesa. Hún hafði unun af því að læra um fagnaðarerindið.
Amma spurði margra spurninga. Ef Vítor vissi ekki svarið, spurði hann Barnafélagskennara sinn eða leitaði svarið uppi í ritningunum. Amma kallaði Vítor litla trúboðann sinn.
Deny amma sagði Vítor að hún hefði lært heilmargt af honum. Hún lofaði að fara í kirkju með honum, þegar henni batnaði. Það sem hún lærði vakti hjá henni löngun til að ná heilsu og læra meira um fagnaðarerindið.
Þegar amma komst til heilsunnar, stóð hún við orð sín. Hún fór í kirkju með Vítor, til að læra meira um það sem hann hafði kennt henni. Þess var ekki langt að bíða að amma var skírð og staðfest. Vítor hafði hjálpað henni að vita að fagnaðarerindið er sannleikur.
Þegar Vítor óx úr grasi, varð hann trúboði og fór í Boston trúboðið í Massachusetts. Áður en hann hélt af stað, fór hann í musterið—með Deny ömmu.