Boðskapur Æðsta forsætisráðsins
Hann er upprisinn
Vitnisburður um raunveruleika upprisu Jesú Krists, glæðir bæði von og eflir staðfestu. Þetta á við um öll börn Guðs. Það upplifði ég á sumardegi í júní 1969, þegar móðir mín lést, og þannig hefur það verið alla tíð síðan og mun verða þar til ég sé hana að nýju.
Sorg yfir tímabundnum aðskilnaði hvarf og í hennar stað kom gleði. Í henni fólst meira en aðeins von um gleðilega endurfundi. Þar sem Drottinn hefur opinberað svo margt með spámönnum sínum og heilagur andi hefur staðfest sannleika upprisunnar fyrir mér, fæ ég séð í huga mínum hvernig endurfundir mínir verða við helgaða og upprisna ástvini:
„Þetta eru þeir, sem koma munu fram í upprisu hinna réttvísu. …
Þetta eru þeir, sem eiga nöfn sín skráð á himni, þar sem Guð og Kristur eru dómarar allra.
„Þetta eru þeir, sem eru réttvísir menn, fullkomnir gjörðir fyrir Jesú, meðalgöngumann hins nýja sáttmála, sem leiddi til lykta þessa fullkomnu friðþæginu með því að úthella sínu eigin blóði“ (K&S 76:65, 68–69).
Þar sem Jesús Kristur rauf helsi dauðans, munu öll börn himnesks föður, sem í heiminn fæðast, rísa upp í líkama sem aldrei mun deyja. Þannig mun vitnisburður minn og ykkar, um þennan dýrðlega sannleika, taka burtu sorgina yfir missi ástkærra fjölskyldumeðlima okkar eða vina og í hennar stað kemur eftirvænting og örugg staðfesta.
Drottinn hefur gefið okkur öllum gjöf upprisu, þar sem andar okkar fá búsetu í líkama sem ekki er háður líkamlegum ófullkomleika (sjá Alma 11:42–44). Ég mun sjá móður mína unga og ljómandi, þar sem áhrif aldurs og líkamlegra þjáninga verða ekki sjáanleg. Það verður henni og okkur öllum gjöf.
En þau sem óska að vera ævarandi með henni, þurfa að tileinka sér þá valkosti sem nauðsynlegir eru til að verða hæf fyrir það samband, að dvelja þar sem faðirinn og hans elskaði og upprisni sonur dvelja í dýrð. Aðeins á þeim stað fær fjölskyldulíf haldið eilíflega áfram. Vitnisburður um þennan sannleika hefur aukið mér staðfestu um að gera mig hæfan, og þau sem ég elska, fyrir æðstu dýrðargráðu himneska ríkisins, með því að gera friðþæginguna að virku afli í lífi okkar (sjá K&S 76:70).
Drottinn sér okkur fyrir handleiðslu í þessari leit okkar að eilífu lífi með sakramentisbænunum, sem hjálpa mér og geta hjálpað ykkur. Okkur er boðið að endurnýja skírnarsáttmála okkar á hverri sakramentissamkomu.
Við lofum því að hafa frelsara okkar ávallt í huga. Táknin um fórn hans stuðla að þakklæti okkar fyrir hið dýra gjald sem hann þurfti að reiða af höndum til að rjúfa hlekki dauðans, sjá okkur fyrir miskunn og fyrirgefningu allra okkar synda, ef við viljum iðrast.
Við lofum því að halda boðorð hans. Þegar við lesum ritningarnar og orð lifandi spámanna og hlýðum á innblásna ræðumenn á sakramentissamkomum okkar, erum við minnt á sáttmála okkar um að gera svo. Heilagur andi vekur upp í huga okkar og hjarta þennan dag minningu um þau boðorð sem við þurfum að halda.
Í sakramentisbænunum lofar Guð að senda okkur heilagan anda sem förunaut (sjá Moró 4:3; 5:2; K&S 20:77, 79). Ég hef komist að því á þeirri stundu að Guð getur veitt mér að því að virðist persónulegt viðtal. Hann vekur upp í huga mér það sem ég hef gert honum til velþóknunar, það sem ég þarf að iðrast af og hljóta fyrirgefningu fyrir og nöfn og ásjónur þeirra sem hann óskar að ég þjóni í hans þágu.
Í áranna rás hefur þessi endurtekna reynsla snúið von yfir í kærleikstilfinningar og veitt fullvissu um að miskunn hafi orðið að veruleika fyrir mig með friðþægingu og upprisu frelsarans.
Ég ber vitni um að Jesús er hinn upprisni Kristur, frelsari okkar, og okkar fullkomna fyrirmynd og vegur til eilífs lífs.