Spurningar og svör um musterið
Hvers vegna höfum við musteri?
Musteri Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru helgar byggingar, þar sem við lærum eilífan sannleika og tökum þátt í helgiathöfnum.
Hvernig er musterið að innanverðu?
Musterið er friðsæll, lotningarfullur og fallegur staður. Allt í musterinu er hreint og snyrtilegt. Allir eru hvítklæddir og tala hljóðlega.
Hvað er gert í musterum?
Eiginkona getur innsiglast eiginmanni sínum og börn geta innsiglast foreldrum sínum. Innsiglunin gerir fjölskyldum kleift að vera saman að eilífu. Í musterinu hljóta karlar og konur gjöf andlegra blessana sem nefnist musterisgjöf. Þau geta líka hlotið musterisgjöf og verið innsigluð þeim sem látist hafa án þess að hafa gert musterissáttmála.
Hvað annað er gert í musterum?
Auk innsiglunar og musterisgjafar, eru fleiri helgiathafnir gerðar í musterum. Fólk getur verið skírt og staðfest fyrir þá sem ekki gátu gengið í kirkjuna meðan þeir lifðu. Þegar við náum 12 ára aldri og erum verðug þess að fara í musterið, er hægt að skíra og staðfesta okkur í þágu þeirra sem dáið hafa án fagnaðarerindisins.
Hvað ef fjölskylda mín hefur ekki farið í musterið?
Himneskur faðir þekkir og elskar okkur og fjölskyldu okkar. Hann vill að allir hljóti blessanir helgiathafna musterisins. Verið verðug þess að fara í musterið. Setjið ykkur markmið nú um að hljóta musterisgjöf ykkar og giftast í musterinu þegar að því kemur. Himneskur faðir mun blessa ykkur og fjölskyldu ykkar.