2013
Velja það sem betra er
Apríl 2013


Velja það sem betra er

Stundum þurfum við að gefa eitthvað gott upp á bátinn fyrir eitthvað enn betra.

Dag einn kom Zoltán Szücs frá Szeged, Ungverjalandi, kajakþjálfara sínum á óvart með því að tilkynna honum að hann hyggðist ekki fara til Þýskalands á keppnismót.

„Það var sama dag og ég ætlaði að skírast, svo ég vildi það ekki,“ sagði Zoltán.

Þegar Zoltán var 17 ára hafði hann unnið margar kajakkeppnir. Það er vinsæl íþrótt í Ungverjalandi og Zoltán var góður—nógu góður til að eiga raunverulega möguleika á að verða atvinnumaður. Zoltán hafði ákveðið að verða af einni keppni, og átti brátt eftir að gefa kajaksiglingar algjörlega upp á bátinn. Hann hafði betri hnöppum að hneppa.

Kajaksiglingarnar höfðu reynst Zoltán vel. Í áranna rás hafði hann í samstarfi við þjálfarann sinn lært sjálfsaga, hlýðni og vinnusemi. Zoltán hafði líka lært að forðast efni og ávana sem drægju úr getu hans. Þetta var ekki auðvelt líferni; það var einmanalegt og atvinnumennska tæki enn meiri tíma. Atvinnumenn æfa 12 tíma á dag og verða að keppa á sunnudögum.

„Tími minn fór að mestu í kajaksiglingar,“ sagði Zoltán. „Ég var öfgamaður. Sökum þess lokaði ég á heilmargt í lífi mínu.“

Það var ástæða þess að Zoltán sá að hann gat ekki helgað sig bæði fagnaðareindinu og kajaksiglingum. Árið 2004 tilkynnti hann þjálfara sínum að hann væri hættur að stunda kajaksiglingar.

Fyrr á því ári höfðu trúboðar tekið að kenna móður Zoltán. Hann var ekki með í kennslunni. Hann samþykkti boð móður sinnar með tregðu um að vera viðstaddur skírn hennar. En hann komst við í hjarta þegar hann kom inn í kirkjubygginguna. Zoltán samþykkti að hitta trúboðana, að hluta til vegna þess að hann gat samsamað sig þeim.

„Trúboðarnir vöktu mér áhuga, því þeir voru venjulegir menn sem lifðu eftir æðri staðli,“ sagði hann.

Sökum þessa æðra staðals, sem Zoltán lifði þegar eftir, sem kajaksiglingamaður, meðtók hann auðveldlega kenningar fagnaðarerindisins sem gagnlegar. Hann var skírður tveimur mánuðum síðar.

Í fyrstu hélt hann sig geta haldið kajaksiglingum áfram án þess að keppa á sunnudögum. En sökum þess að hann er sú manngerð sem vill standa sig vel í því sem hann tekur sér fyrir hendur, ákvað hann að gefa kajaksiglingarnar upp á bátinn.

Hann reyndi að hafa kajaksiglingar sem áhugamál eftir skírn sína. Þegar hann gerði það bað þjálfarinn hann um að hjálpa til við að kenna öðrum og skipuleggja ferðir, úr því hann vildi ekki keppa sjálfur. Hann vildi hins vegar ekki skuldbinda sig kajaksiglingum—eða einhverri annarri athafnasemi—sem hefði getað latt hann í lærisveinshlutverkinu.

Zoltán lagði því árar í bát og ákvað að helga sig kirkjuþjónustu, sem var lík ákvörðun og Howard W. Hunter forseti (1907–95) tók þegar hann hafði gift sig. Hunter forseti var leikinn tónlistarmaður, sem gat leikið á fjölda hljóðfæra. Á kvöldin hafði hann leikið með hljómsveit, en líferni þeirra sem hann lék með var ekki í samræmi við reglur fagnaðarerindisins. Hunter forseti lagði því hljóðfærin á hilluna og tók þau aðeins fram endrum og eins til undirleiks fyrir söng fjölskyldunnar.1

Zoltán saknar kajaksiglinganna, en er ljóst að ást hana á kajaksiglingum var nægilega sterk til að togast á við, og hugsanlega yfirvinna, elsku hans til Drottins, ef hann gæfi sig of mikið að íþróttinni.

Sama regla getur átt við alla athafnasemi sem dregur okkur frá því sem Guð ætlar okkur að verða. Það kann að vera betra fyrir hvert okkar að halda okkur fjarri ákveðnum hlutum í lífinu—jafnvel þótt þeir teljist góðir—fremur en að stofna eilífu lífi í hættu til að njóta þeirra.

„Kirkjan varð mitt líf,“ sagði Zoltán. „Mér var ljóst að kajaksiglingar gætu ekki verið lifibrauð mitt, ef ég yrði virkur í kirkjunni, heldur yrðu þær aðeins áhugamál, svo mér reyndist auðvelt að gefa þær upp á bátinn. Ég vildi þess í stað beina athygli minni að himneskum föður.“

Zoltán tók að læra fagnaðarerindið af sama kappi og hann leggur í allt sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann setti sér markmið um að þjóna í trúboði. Hann vildi dvelja í eigin landi og kenna öðrum.

Hann þjónaði í Ungverjalandi og starfar nú sem enskukennari í grunnskóla. Hann hefur fagnaðarerindið áfram í forgangi. „Það er ýmislegt sem við þurfum að gefa upp á bátinn, því það getur fjarlægt okkur Guði,“ sagði hann. „Það er auðvelt að láta af því sem slæmt er, þegar við vitum að okkur ber að gera það. Oft er okkur ekki ljóst hvenær okkur ber að láta af einhverju góðu fyrir það sem betra er. Við teljum að þar sem það er ekki slæmt, getum við haldið því og líka fylgt áætlun Guðs.“ En Zoltán veit að við þurfum að láta af því góða, ef það kemur í veg fyrir að við fylgjum áætlun Guðs fyrir okkur.

Heimildir

  1. Sjá Eleanor Knowles, Howard W. Hunter (1994), 81.

Zoltán Szücs, frá Szeged, Ungverjalandi gaf kajaksiglingar upp á bátinn til að hafa meiri tíma fyrir fagnaðarerindið.

Að ofan: Ljósmynd © Thinkstock; að neðan: Ljósmynd: Adam C. Olson