Minnisbók aprílráðstefnu
Læra saman ráðstefnuræður
Greg Batty býr í Utah, Bandaríkjunum
Við breyttum aðferð okkar við að læra aðalráðstefnuræður og uppskárum miklar framfarir í trúarnámi okkar sem fjölskylda.
Í mörg ár höfum við notið þess að lesa saman aðalráðstefnuræður sem fjölskylda, eina grein í senn. Við byrjuðum einfaldlega á því að koma saman við borðið og skiptast á við að lesa málsgreinar upphátt. En okkur fannst við lesa viðstöðulaust án þess að staldra við og íhuga boðskapinn.
Í þeirri viðleitni að fá meira út úr lestrinum, keyptum við hjónin eitt eintak af tímaritinu um aðalráðstefnuna fyrir hvern í fjölskyldunni og ákváðum hve margar ræður við hugðumst læra í viku hverri, svo við gætum lesið þær allar áður en kæmi að næstu aðalráðstefnu. Sumar vikur lásum við eina ræðu og aðrar tvær, en öll áttum við að læra ræðuna og strika undir það sem okkur fannst höfða til okkar. Á fjölskyldukvöldum kenndum við svo hvert öðru úr því efni sem við höfðum strikað undir.
Oft höfðu börn okkar spurningar sem auðvelduðu umræður eða við hjónin spurðum spurninga úr því efni sem við lærðum. Við mátum mikils að hlýða á unglingana okkar útskýra og svara þessum spurningum, miðla því sem þau lærðu í trúarskólanum, í kirkju eða í einkanámi. Þetta varð góð aðferð til að geta hlýtt óformlega og reglubundið á vitnisburð hvers annars, í afar afslöppuðu og þægilegu umhverfi.
Brátt sáum við að morgunnám okkar í ritningunum varð í þessum sama anda. Suma daga fórum við aðeins í gegnum fáeinar ritningargreinar, því tíminn leið fljótt í umræðu okkar um efni þeirra og hvernig við gátum hagnýtt okkur þær í lífi okkar.
Á morgnana eru nú stöðugar umræður, við hlæjum saman og upplifum sameiningaranda, áður en hvert okkar fer út til að sinna verkefnum dagsins. Við eigum sterkan vitnisburð um leiðsögn spámanns okkar, um að læra og biðja saman daglega. Fjölskylda okkar lærir nú af hvert öðru og styrkir hvert annað. Allt þetta hefur áunnist af þeirri þrá að vilja fá örlítið meira út úr aðalráðstefnu.