Eitthvað var athugavert við flugvélina mína
Craig Willie, Utah, Bandaríkjunum
Kvöld eitt, er ég ók flugvélinni minni, fullri af farþegum til flugtaks, fékk ég á tilfinninguna að eitthvað væri athugavert við stýrikerfi vélarinnar. Til að staðfesta andlegt hugboð mitt, ók ég af flugtaksbrautinni og beygði vélinni í nokkra hringi. Ekkert virtist óvenjulegt.
Ég hugsaði með mér: „Ætti ég að taka á loft og koma farþegunum í tíma á áfangastað sinn eða að fara aftur að hliðinu?“ Mér var ljóst að ef ég sneri við, yrði um mikla seinkun að ræða. Flugtaksbrautir eru einstefna; ég yrði að bíða eftir að flugstjórn kæmi mér fyrir einhversstaðar á milli annarra véla í allri umferðinni. Þá hefðum við orðið að bíða eftir skoðunarteyminu til að prófa flugvélina. Seinkunin gæti skapað flugfélaginu vanda og fólkinu sem hafði mælt sé mót við aðra eða þurfti að skipta um vélar. Ég velti líka fyrir mér hvernig skoðunardeildin myndi bregðast við þeirri athugasemd minni að eitthvað væri athugavert við vélina þegar ég hafði ekkert fyrir mér nema sterka tilfinningu.
Sem flugstjóri vélarinnar, bar ég ábyrgð á öryggi okkar, svo ég ákvað að breyta samkvæmt hugboði mínu og snúa við.
Þegar við komum að hliðinu, greindi ég vélvirkjanum frá því að mér finndist eitthvað vera athugavert, en að ég gerði mér ekki grein fyrir hvað það væri. Hann trúði ekki að eitthvað væri að.
„Það hefur líklega aðeins verið bleytan á brautinni,“ sagði hann. „Vélin getur hafa runnið til á malbikinu.“ Hann samþykkti samt að skoða stýribúnaðinn á framhjólinu. Eftir þá skoðun, bað hann mig að afferma farþegana, svo hann gæti ekið vélinni til prufunar.
Hann snéri aftur um 30 mínútum síðar og var afar áhyggjufullur. Í prófuninni hafði hann heyrt slitrótt nuddhljóð. Þegar hann prófaði bremsurnar, er hann snéri við í átt að hliðinu, missti hann stjórn á vélinni svo hún rann næstum út af brautinni.
Nákvæmari skoðun leiddi í ljós að bremsubúnaðurinn hafði ekki fengið rétt viðhald kvöldinu áður. Ef ég hefði lent vélinni að loknu flugi, hefðu bremsurnar gefið sig og ég hefði misst stjórn á vélinni.
Ég fékk aðra vél til afnota og flaug örugglega með farþegana til áfangastaðar þeirra þremur stundum of seint.
Ég er þakklátur fyrir að hafa hlustað á hljóða rödd andans. Ég veit að andinn veitir okkur handleiðslu, ef við leitum leiðsagnar Drottins og hlustum á innblásturinn sem á eftir kemur.