Hvernig ég veit það
Boð mitt til hjálpræðis
Þegar ég var ungur maður fór ég í marga trúsöfnuði og varð ráðvilltur sökum þess að allir kenndu þeir mismunandi túlkanir á ritningunum. Mér leið ekki vel með virðingarleysið sem ég upplifði í sumum þeirra, svo ég gafst upp á því að velja mér kirkju til að fara í.
Nokkrum árum síðar skírðist vinur minn, Cleiton Lima, í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hann sagði mér ekki frá þessu, jafnvel þótt við værum góðir vinir, en með tímanum fór ég að greina breytingar á honum. Á sunnudögum fór ég yfirleitt heim til hans á morgnana, svo við gætum farið saman í fótbolta, en hann var aldrei heima. Þetta gerðist tvo eða þrjá sunnudaga í röð. Loks greindi Cleiton mér frá því að hann gæti ekki lengur farið í fótbolta á sunnudögum, því hann vildi heiðra dag Drottins. Ég sagði við hann: „Þessi kirkja er að gera þig æran.“
Cleiton bauð mér síðan að koma með sér í kirkju. Ég afsakaði mig, því ég hafði fengið nóg af trúarbrögðum í bili. Í tíu mánuði reyndi Cleiton að fá trúboða til að kenna mér, en ég afsakaði mig alltaf eða sagðist þurfa að gera eitthvað annað. En hann gafst ekki upp.
Dag einn í júní bauð hann mér að koma með sér á kirkjudansleik. Ég sagði stríðnislega: „Verður frítt að borða og fullt af stelpum?“ Hann jánkaði því hlæjandi.
Ég verð að viðurkenna að maginn dró mig þangað. Ég fór í kirkju og hafði unun af því. Allir buðu mig velkominn, ég borðaði heilmikið og ég varð áhugasamur um að sækja samkomur. Þegar ég kom í kirkju á sunnudegi, kynntist ég mörgum og hlustaði á vitnisburði þeirra. Ég var ekki kunnugur Mormónsbók, en skynjaði anda Drottins þegar hinir ýmsu meðlimir kirkjunnar vitnuðu: „Ég veit að Mormónsbók er sönn, að þetta er kirkja Jesú Krists og að Joseph Smith var spámaður kallaður af Guði.“ Mér hafði ekki áður liðið jafn vel. Ég vildi þó enn ekki hitta trúboðana, en vitnisburðarsamkoman snerti við mér.
Næstu viku bauð Cleiton mér aftur að koma með sér í kirkju. Ég gat það ekki út af öðrum kvöðum. Ég sá að hann varð dapur þegar ég sagði honum að ég vissi ekki hvort ég kæmist.
Sunnudagsmorguninn vaknaði ég samt með löngun til að fara í kirkju. Ég vaknaði kl. 6:50, sem reyndist mér ekki auðvelt, tók mig til og beið þess að Cleiton kæmi. Hann undraðist að sjá mig klæddan og bíðandi eftir sér. Þennan sunnudag kenndi biskupinn um prestdæmið. Ég skynjaði andann áþreifanlega og fannst að mér bæri að taka á móti kennslu trúboðanna. Þegar dró að lokum Piltafélagsfundarins, var mér ljóst að ég vildi láta skírast.
Þegar kirkjusamkomunum lauk, sagði ég við Cleiton: „Ég vil láta skírast!“
Hann hélt mig vera að spauga. En sagði síðan: „Værirðu til í að hitta trúboðana, ef ég hringdi í þá?“ Ég svaraði því játandi.
Ég naut kennslu frábærra öldunga. Þegar ég lærði boðskapinn um endurreisnina, hlaut ég jafnvel enn öruggari staðfestingu um að mér bæri að láta skírast. En ég vildi sjálfur fá að vita sannleiksgildi Mormónsbókar. Öldungarnir merktu við Moróní 10:3–5 í Mormónsbókinni minni og buðu mér að biðja til Guðs og spyrja hvort hún væri sönn.
Næsta kvöld mundi ég eftir því að ég hafði ekki enn lesið Mormónsbók. Þegar ég hóf lesturinn, skynjaði ég andann afar áþreifanlega. Ég baðst fyrir og áður en ég lauk bæninni, vissi ég að Mormónsbók var sönn. Ég er Guði þakklátur fyrir að hafa svarað bæn minni. Ég var skírður í júlí 2006.
Síðar þjónaði ég sem trúboði í Cuiabá trúboðinu í Brasilíu og Cleiton, vinur minn, þjónaði í Santa Maria trúboðinu í Brasilíu. Við gerum það sem Cleiton gerði fyrir mig: að bjóða fólki að koma til Krists og hjálpa því að taka á móti hinu endurreista fagnaðarerindi, með því að iðka trú á Jesú Krist, iðrast, láta skírast og taka á móti gjöf heilags anda. Þetta er sannlega vegur sáluhjálpar.
Við ættum ætíð að bjóða vinum okkar og ættmennum að læra um fagnaðarerindi hans, því frelsarinn bauð öllum með því að segja: „Komið til mín“ (Matt 11:28). Ég veit að þetta er kirkja Jesú Krists og nú er tími til að bjóða öllum að koma til hans.