Boðskapur svæðisleiðtoga
Óendanlegt blessunarsvið Drottins
Þýðingarmikið augnablik í persónulegu ferðalagi mínu til Jesú Krists má rekja til boðs frá Henry B. Eyring forseta1, þar sem hann bauð áheyrendum að taka af skarið og framkvæma.
Hann sagði: „Ég blessa ykkur að ef þið spyrjið dag hvern í bæn að ykkur verði sýnt hvernig hönd Guðs greip inn í líf ykkar þann daginn, þá blessa ég ykkur að þið munið sjá það, að það verði opinberað ykkur, að þið munið bera kennsl á að hann leiðir ykkur og lyftir og að hann þekkir ykkur.“
Þetta boð: að „skrásetja meðvitað hönd Drottins í lífi okkar á hverjum degi,“ endurómaði í huga mér.
Ég tók boðinu og fjárfesti í nýrri, pastelblárri stílabók sem átti eftir að verða dýrmæt persónuleg heimild við að fanga þau augnablik að sjá hönd Drottins í lífi mínu. Mig grunaði ekki hversu mikilvæg þessi litla, pastelbláa stílabók átti eftir að reynast í ferð minni í leit að Jesú Kristi.
Þegar ég rifjaði upp þær stundir að hafa séð hönd Drottins í lífi mínu, minntist ég einnar slíkrar þegar ég var ellefu ára. Ég lenti í slysi sem olli því að miltað sprakk. Það krafðist sjúkrahúsvistar og að ég neytti hvorki matar né drykkjar fyrir skurðaðgerðina, sem virtist heil eilífð. Ég man sérstaklega eftir að hafa verið í stóru herbergi snemma morguns og fundist ég varnarlaus og einmana. Ég baðst fyrir í hljóði um hjálp, svo draga mætti úr kvíða mínum og óþægindum. Innan skamms kom hjúkrunarfræðingur og bauð mér klaka vafinn sárabindi til að sjúga. Fróunin og endurnæringin voru eins og lúxusveisla. Mikilvægara var þó að ég bar kennsl á og sá hönd Drottins.
Ritningarvers í Sálmunum rættist á þessu sjúkrabeði. Þessa nótt „leitaði [ég] Drottins og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu sem ég hræddist.“2 Þótt þetta gæti virst ómerkilegt, þá var mér svarað í tilraun minni til að spyrja og sýna trú. Ég hafði ekki einungis fundið líkamlega líkn, ég fann að HANN þekkti mig.
Án þess að endursegja hverja reynslu sem ég hef skráð í pastelbláu stílabókina mína, þá hefur stöðugt mynstur komið í ljós. Þegar ég bið, trúi að mér muni gefast3 og sé hönd hans í lífi mínu, þá styrkist samband mitt við hann.Þetta mynstur hefur leitt mig og gerir það áfram í veikindum, raunum, örvæntingu og þjáningu.
Þema ungmenna 20224 lýsir þessu mynstri fullkomlega. Ég og eiginkona mín, Ailsa, nutum þeirra forréttinda að taka þátt í ungmennaráðstefnunni FSY í Manchester Skotlandi 2022. Við urðum vitni að því að þetta mynstur var ríkjandi í lífi margra þátttakenda. Ein stúlkan á ráðstefnunni kom með margar erfiðar spurningar, án nokkurra væntinga um að þeim yrði öllum svarað. Með gleðitár í augum sagði hún frá því að á þessum kristmiðaða viðburði hefði hverri einustu spurningu verið svarað. Hún vissi að Kristur þekkti hana. Þessi stúlka var nýlega kölluð til að þjóna honum í Frankfurt-trúboðinu í Þýskalandi.
Postulinn Pétur bauð okkur að „[vera] ætíð reiðubúin að svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem [við eigum]“5.
Ég býð ykkur að skrásetja hönd Drottins í lífi ykkar og byrja eins langt aftur og minni ykkar nær. Haldið áfram daglega að bera kennsl á, sjá og leyfa meistara lækningar að ná til ykkar, hinni skínandi morgunstjörnu, honum sem er í öllu, yfir öllu, allt í öllu og umlykur allt.6
Ég elska hann, ég tilbið hann, ég reiði mig á hann, því ég get munað eftir fjölda tilvika þar sem ég öðlaðist persónulega staðfestingu um að hann þekkir og elskar mig.
Í nafni Jesú Krists, amen.