„Trúarturn,“ Barnavinur, júlí 2023, 10–11.
Trúarturn
Dashanel vildi að trú hennar á Krist væri mikil og sterk.
Þessi saga gerðist á Jamaíku.
Dashanel aðstoðaði eldri bróður sinn við að taka hnetubrauðið úr ofninum. Það lyktaði svo vel!
Hún heyrði þá að bankað var á hurðina. „Trúboðarnir eru komnir!“ kallaði systir hennar.
Dashanel hljóp til dyra. Hún fannst svo skemmtilegt þegar trúboðarnir komu. Henni leið alltaf svo vel þegar þeir komu í heimsókn. Stundum höfðu þeir leiki með sér, sem hún og systkini hennar gátu leikið.
„Tyrell bakaði hnetubrauð aftur!“ sagði Dashanel. Bróður hennar fannst gaman að útbúa mat fyrir trúboðana.
„Ég get ekki beðið eftir að smakka,“ sagði öldungur Colas. Hann og öldungur Yusaki komu inn og settust á gólfið. Dashanel, bróðir hennar og systir, ásamt mömmu, sátu andspænis þeim.
„Hvað ætlum við að gera í lexíunni í dag?“ spurði Dashanel.
Öldungur Yusaki dró fram stafla af bollum. „Við ætlum að byggja trúarturn. Hver þessara bolla stendur fyrir eitthvað sem við getum gert til að efla trú okkar á Jesú Krist.“
Öldungur Yusaki byrjaði að stafla upp bollunum í turn. Dashanel sá að bollarnir höfðu orð eins og „bæn,“ „ritningarnám“ og „kirkja“ skrifað á þá.
„Þetta eru allt hlutir sem þið báðuð okkur að gera saman sem fjölskylda,“ sagði hún.
„Það er rétt,“ sagði öldungur Colas. „Þegar þið gerið þetta, þá eflið þið trú ykkar á Jesú Krist.“
Dashanel og systkini hennar skiptust á við að byggja eigin turna úr bollunum, á meðan þau hlustuðu á lexíuna.
Eftir að trúboðarnir voru farnir, íhugaði Dashanel það sem þeir höfðu kennt. Hún vildi að trú hennar á Krist væri mikil og sterk, eins og turninn sem hún hafði byggt.
Með hverjum mánuðinum, lærði Dashanel meira og meira af trúboðunum um fagnaðarerindið. Hún byrjaði að sækja kirkju með fjölskyldu sinni. Hún ímyndaði sér að trúarturninn hennar yxi og yxi.
Einn daginn, eftir að trúboðarnir höfðu farið, ræddi Dashanel við mömmu. „Má ég skírast?“ spurði hún.
„Ertu viss um að þú sért tilbúin?“ spurði mamma.
„Já,“ svaraði Dashanel. „Ég vil fylgja Jesú.“
„Allt í lagi,“ sagði mamma. „Ef þú vilt það, máttu skírast.“
Bróðir og systir Dashanel ákváðu líka að skírast. Mamma sagði að hún væri ekki enn tilbúin til að láta skírast.
Á skírnardegi þeirra voru Dashanel og systkini hennar klædd í hvít föt. Þau biðu þolinmóð eftir að skírast.
Þegar komið var að Dashanel, hjálpaði öldungur Yusaki henni ofan í vatnið. Hann fór síðan með skírnarbænina og dýfði henni ofan í vatnið. Þegar hún kom upp aftur, gat hún ekki hætt að brosa! Hún fann til gleði og hreinleika. Hún vildi aldrei gleyma þessari tilfinningu.
Dashanel hélt áfram að gera hluti sem efldu trú hennar á Jesú Krist. Hún las ritningarnar með fjölskyldu hennar. Hún bað til himnesks föður. Hún gerði öðrum gott. Og hún minntist þess hvernig henni leið þegar hún skírðist. Hún óskaði þess að mamma upplifði þessa tilfinningu líka.
„Mamma, af hverju skírist þú ekki?“ spurði Dashanel dag nokkurn.
Mamma var hljóð í smá stund. „Þú hefur verið mér gott fordæmi. Nú þarf ég að vera þér fordæmi,“ sagði hún. „Ég vil líka skírast.“
Á skírnardegi mömmu var Dashanel afar glöð. Þegar hún kom upp úr vatninu aftur, voru allir brosandi. Nú gat öll fjölskylda Dashanel byggt trúarturna saman.