„Hinn frábæri pabbi Magnoliu,“ Barnavinur, júlí 2023, 40–41.
Hinn frábæri pabbi Magnoliu
„Nokkrir krakkar sögðu að við værum ekki góð fjölskylda af því að pabbi er ekki meðlimur í kirkjunni okkar.“
Þessi saga gerðist í Bandaríkjunum.
„Magnolia! Lily!“ kallaði pabbi. „Tími til að lesa ritningar og fara með bæn!“
Magnolia hlammaði sér á gólfið við hliðina á Raindrop, hundinum þeirra. Lily hjúfraði sig í uppáhalds teppið sitt.
Ritningartími með fjölskyldunni var skemmtilegur. Stundum léku þau ritningarsöguna saman. Það hjálpaði Magnoliu að ímynda sér sögurnar. Þar að auki hjálpaði Raindrop alltaf þegar dýr voru í sögunum!
Pabbi opnaði ritningarnar sínar og las vers. Síðan rétti hann Magnoliu stóra, þunga Biblíuna. Þau skiptust öll á að lesa.
„Verið góðviljuð hvert við annað,“ las Magnolia.*
Hún hnyklaði brýrnar. Fólk var ekki alltaf góðviljað við hana í kirkju.
„Mamma, pabbi, get ég rætt við ykkur um nokkuð?“ spurði hún.
„Auðvitað,“ sagði mamma. „Hvað er að?“
„Nokkrir krakkar sögðu í Barnafélaginu í gær að við værum ekki góð fjölskylda af því að pabbi er ekki meðlimur í kirkjunni okkar.“
Pabbi Magnoliu tilheyrði annarri kirkju. Hann sótti sakramentissamkomu með fjölskyldu sinni á sunnudögum. Hann flutti ræður um heilagan anda í skírn Lily og Magnoliu. Allir sögðu að hann hefði staðið sig frábærlega. Hann var frábær pabbi.
„Það sem þau sögðu fékk mig næstum til að gráta.“ Magnolia saug upp í nefið. „Af hverju þarf fólk að vera svona illkvittið?“
Mamma og pabbi horfðu hvort á annað.
„Takk fyrir að segja okkur hvað gerðist,“ sagði pabbi. „Mamma og ég elskum hvort annað mjög mikið. Og fjölskylda okkar er okkur afar mikilvæg.“
Mamma jánkaði. „Fjölskylda okkar er líka mikilvæg himneskum föður. Hann elskar öll börn sín.“
Raindrop hjúfraði sig upp að Magnoliu. Hún klóraði honum á eyrun.
„Himneskur faðir þekkir okkur og hann veit að við elskum hvert annað,“ sagði pabbi. „Engin fjölskylda er fullkomin, en við getum haldið áfram að gera okkar besta.“
„Það er samt sárt þegar fólk segir eitthvað ljótt um fjölskyldu okkar,“ sagði Magnolia. „Jesús kenndi okkur að vera góðviljuð við alla. Að segja eitthvað ljótt virðist ekki vera að vilja Jesú.“
„Það er rétt hjá þér,“ sagði pabbi. „Kannski getur þú reynt að muna eftir tilfinningunni sem þú fannst þegar aðrir voru vondir við þig, þegar þér líður eins og þú viljir segja eitthvað ljótt við aðra. Þá getur þú sagt eitthvað góðviljað í staðinn.“
Magnolia dró djúpt andann. „Allt í lagi.“ Hún var glöð að geta talað við mömmu og pabba.
„Nú er komið að fjölskyldusamloku!“ Pabbi dró Lily og Magnoliu í stórt og þétt faðmlag. Mamma vafði örmum sínum utan um þau öll þrjú. Raindrop hljóp hringi í kringum alla.
„Ég get ekki andað!“ grínaðist Lily. Magnolia hló.
„Minnið mig nú á það – hverjum er komið að í lestrinum?“ spurði pabbi. Hann sleppti stelpunum og greip ritningarnar sínar.
„Komið að mér!“ sagði Lily. „Og pabbi á að segja bæn.“
Þegar þau luku lestrinum, krupu allir til að biðja. Magnolia fann til friðar þegar hún hlustaði á pabba flytja bænina. Hún vissi að himneskur faðir elskaði fjölskyldu hennar.