2023
Garðhreinsunin
Júlí 2023


„Garðhreinsunin,“ Barnavinur, júlí 2023, 4–5.

Garðhreinsunin

„Hverjum getum við boðið að hjálpa með okkur?“

Þessi saga gerðist í Englandi.

Móðir og drengur í garðyrkjuhönskum með garðklippur

Jonah kláraði síðasta munnbitann og brosti. Kvöldmaturinn var alltaf skemmtilegri þegar trúboðarnir komu í heimsókn.

„Við viljum deila með ykkur boðskap um þjónustu,“ sagði systir Kearl. „Af hverju er mikilvægt að þjóna?“

„Því það gerir Jesú glaðan!“ sagði Eliza, litla systir Jonah.

„Þú hefur rétt fyrir þér! Það gerir hann mjög glaðan. Og þegar við hjálpum öðrum, verðum við líka glöð,“ sagði systir Christensen. „Þekkir þú einhvern sem þarfnast hjálpar?“

Jonah hugsaði sig um í stundarkorn. „Ég man ekki eftir neinum, en skólagarðurinn hefði gott af smá hjálp.“

„Góð hugmynd,“ sagði mamma.

Skóli Jonah var með garð þar sem hægt var að skemmta sér utandyra. Enginn hafði þó annast garðinn í langan tíma. Runnarnir höfðu vaxið úr sér. Þar var líka mikið um illgresi.

„Við viljum gjarnan hjálpa ykkur með hann!“ sagði systir Kearl. „Hverjum getum við boðið að hjálpa að hreinsa hann með okkur?“

„Frændsystkinum okkar!“ sagði Jacob, bróðir Jonah.

„Og Barnafélagsbekknum okkar,“ sagði Jonah.

Næsta dag ræddi mamma við einhvern í skólanum til að fá leyfi. Þau völdu dag til að hreinsa garðinn. Síðan hjálpaði mamma Jonah og systkinum hans að hringja í frændsystkini sín og Barnafélagsbekkinn.

Nokkrum vikum síðar, hittu Jonah og fjölskylda hans trúboðana við skólann. Frændsystkini þeirra og Barnafélagsvinir voru þarna líka. Nú var komið að því að láta hendur standa fram úr ermum!

Jonah setti á sig stóra garðyrkjuhanska úr gúmmíi. „Sjáðu, mamma. Hendurnar á mér eru risastórar!“

Mamma hló. „Þú getur notað þessar risahendur til að snyrta runnana.“

Hún rétti Jonah klippur sem litu út eins og risavaxin skæri. Hún hjálpaði honum síðan að klippa í burtu dauðar greinar.

„Þetta er skemmtilegt,“ sagði Jonah.

Stúlka og systurtrúboði halda á skóflum

Á meðan Jonah snyrti runnana, hjálpaði Eliza til við að grafa í garðinum. Jacob hjálpaði pabba að smíða nýtt fuglahús. Hinir reyttu arfa og söfnuðu saman sprekum. Þeir settu þá í stóra, bláa plastpoka. Jafnvel yngsti bróðir Jonah, Ezra, lagði hönd á plóg með því að tína saman steina.

Brátt var garðurinn hreinn. Jonah taldi pokana sem þau höfðu fyllt. „Pokarnir eru 13!“ sagði hann. „Við hreinsuðum svo mikið rusl.“

Systir Christensen brosti. „Nú þurfum við á öllum stóru vöðvunum ykkar að halda til að bera þá í bílinn.“

Jonah, Jacob og Eliza gripu hvert poka. Jonah var glaður þegar hann lyfti síðasta pokanum í bílinn. Það hafði verið gaman að hjálpa trúboðunum. Hann vildi líka verða trúboði einhvern daginn. Þangað til, voru til fjölmargar leiðir fyrir hann til að þjóna. Hann gat varla beðið eftir að hugsa upp næsta verkefni!

Alt text

Myndskreyting: Samara Hardy