„Gerum hlutina betri-klúbburinn,“ Barnavinur, júlí 2023, 20–21.
Gerum hlutina betri-klúbburinn
Josie vissi hvernig hún gæti fylgt fordæmi Jesú Krists.
Þessi saga gerðist í Bandaríkjunum.
Josie sat með frænku sinni, Ashlyn, undir tré fyrir utan húsið sitt.
„Ég vildi að við gætum gert eitthvað skemmtilegt til að vinna okkur inn peninga,“ sagði Josie.
„Kannski gætum við unnið okkur inn peninga með því að gera eitthvað fyrir fólk,“ sagði Ashlyn.
„Hvað ef við stofnuðum klúbb til þess?“ Josie stökk spennt á fætur. „Eins og gæludýrapössunarklúbb eða hundagöngutúraklúbb.“
„Við gætum gert alls konar hluti,“ sagði Ashlyn. „Fólk þarf alltaf á hjálp að halda. Og það myndi borga okkur.“
Ashlyn hafði rétt fyrir sér. Josie sá fólk á hverjum degi sem þarfnaðist hjálpar.
Skyndilega hafði Josie aðra hugmynd. Hún fann hlýju hið innra. Það minnti hana á skírnina sína á síðasta ári. Hún hafði lofað að minnast ávallt Jesú og fylgja fordæmi hans. Hún þekkti eina leið til að gera það.
„Hvað ef við verðum með klúbb sem hjálpar fólki ókeypis?“ spurði Josie. Hin hlýja tilfinning varð sterkari.
Augu Ashlyn opnuðust upp á gátt. „Það væri mjög skemmtilegt,“ sagði hún. „Við getum hjálpað fólki í skólanum eða í kirkju – nánast alls staðar.“
„Við getum kallað hann Gerum hlutina betri-klúbbinn!“ sagði Josie. „Byrjum á morgun í skólanum.“
Í frímínútum næsta dag, hlupu Ashlyn og Josie út að jaðri leikvallarins.
„Sérðu einhvern sem við getum hjálpað?“ Ashlyn fór upp á tærnar og horfði í áttina að ósléttri regnbogarennibrautinni.
„Ekki enn.“ Josie kannaði klifurgrindirnar og rólurnar. Börn renndu sér og róluðu. Þau skoppuðu boltum og léku sér með sippubönd. Enginn leit út fyrir að þurfa á hjálp að halda. Allir virtust vera í félagsskap vina. En þá sá hún yngri stelpu aleina með sippuband.
Josie hnippti í Ashlyn. „Sjáðu þarna!“
Josie og Ashlyn fundu sippubönd og gengu til stelpunnar.
„Hæ! Ég heiti Josie.“
„Og ég heiti Ashlyn. Hvað heitir þú?“
Stelpan virtist undrandi. „Ég heiti Leslie.“
„Viltu leika við okkur?“ Josie hélt sippubandi á lofti.
Leslie brosti. „Já!“
Ashlyn og Josie kenndu Leslie nýjar leiðir til að sippa. Þegar bjallan hringdi, kvöddu þær. Josie leið vel hið innra. Hún vissi að það var heilagur andi.
Eftir þetta heilsuðu Josie og Ashlyn alltaf Leslie á göngunum þegar þær hittust.
Josie og Ashlyn leituðu að fleira fólki til að hjálpa. Stundum sögðu þær eitthvað fallegt við fólk og reyndu að gleðja það. Stundum buðu þær krökkum að leika við sig.
Einn daginn brosti Josie til drengs fyrir utan skólann. „Mér finnst risaeðlubolurinn þinn flottur,“ sagði hún.
Drengurinn brosti breitt og leit niður á bolinn sinn. „Takk.“
Þegar Josie settist, áttaði hún sig á því að hún hafði ekki einu sinni hugsað um að gera þetta fyrir klúbbinn! Hún gerði það einfaldlega.
Josie hugsaði til allra vinanna sem hún hafði eignast síðan hún og Ashlyn stofnuðu klúbbinn. Josie kunni vel við að hjálpa fólki. Það lét hana vilja gera meira gott fyrir aðra. Gerum hlutina betri-klúbburinn var að gera hana betri. Og það var frábær tilfinning.