„Hugrekki frá heilögum anda,“ Barnavinur, júlí 2023, 29.
Skrifað af ykkur
Hugrekki frá heilögum anda
Þegar ég var lítill, sögðu læknarnir foreldrum mínum að ég hefði kjörþögli. Það er kvíðaröskun sem gerir það mjög erfitt að tala við aðra. Ég gat aðeins talað við nána fjölskyldumeðlimi.
Ég var stöðugt með kvíða, sérstaklega ef einhver yrti á mig. Mér leið alltaf betur og róaðist þegar ég baðst fyrir. Ég hitti líka ráðgjafa í skólanum, sem hjálpaði mér. Mér leið samt eins og mér færi ekkert fram. Ég gafst næstum upp, en hélt í trúna.
Áttundi afmælisdagurinn minn var í vændum. Foreldrar mínir skoruðu á mig að lesa Mormónsbók og biðjast fyrir til að komast að niðurstöðu hvort ég vildi láta skírast. Ég baðst fyrir á hverju kvöldi hvort ég ætti að skírast. Ég fékk alltaf sama svarið – hlýja, rólega tilfinningu í hjarta mér. Ég vissi að heilagur andi var að segja mér að rétt svar væri að skírast.
Þegar ég meðtók gjöf heilags anda eftir skírnina, hlýddi ég á orð vonar, elsku og hvatningar. Ég vissi að heilagur andi myndi hugga mig og veita mér hugrekki.
Ég ákvað að reyna að tala við besta vin minn, Charlie. Ég reyndi alla vikuna, en það var svo erfitt. En einn daginn voru Charlie og ég einir í garði skólans. Ég fór með hljóða bæn í huganum. Himneskur faðir, viltu hjálpa mér að segja að minnsta kosti eitt orð.
Eftir það opnaði ég munninn og sagði „Hæ, Charlie!“ Hann var mjög hissa. Ég var svo glaður!
Eftir þennan dag var auðveldara að ná fleiri markmiðum. Brátt talaði ég við næstum hvern sem er! Ég er þakklátur fyrir hugrekkið sem heilagur andi veitti mér til að tala við Charlie.