„Kartöfluflöguviðvörunin,“ Barnavinur, jan. 2024, 14–15.
Kartöfluflöguviðvörunin
Maya hafði sterka tilfinningu um að skoða innihaldsefnin.
Þessi saga gerðist í Bandaríkjunum.
Maya skar niður jarðarberin og bætti þeim út í ávaxtasalatskálina. Ávextir voru uppáhaldsmaturinn hennar. Hún elskaði alla björtu litina. Og hún þurfti aldrei að hafa áhyggjur af því að borða þá!
Maya hafði ofnæmi fyrir fullt af mat. Hún þurfti að fara varlega, því ef hún borðaði eitthvað sem hún mátti ekki, gæti hún orðið mjög veik. Þegar hún var lítil drakk hún kúamjólk fyrir mistök og átti í erfiðleikum með að anda. Hún varð að fara á sjúkrahúsið. Hún vildi ekki að það gerðist aftur.
Stundum var erfitt að þurfa að borða annað en vinir hennar og fjölskylda. En hún vissi að það væri mikilvægt að vera örugg.
Maya bar ávaxtasalatið að borðinu. „Salatið er tilbúið.“
Pabbi leit upp frá pottinum sem hann var að hræra í. „Frábært! Gestirnir okkar koma bráðum.“
Maya heyrði bankað á hurðina og hljóp til að opna hana. Johnson-fjölskyldan og trúboðarnir brostu til hennar af pallinum. Johnson-fjölskyldan var vinafjölskylda þeirra. Maya var glöð að sjá þau aftur. Hún opnaði hurðina upp á gátt svo allir kæmust inn.
Á meðan þau biðu eftir matnum, sýndi einn trúboðanna Mayu töfrabragð. Hún fattaði ekki hvernig hann dró peninginn úr eyranu á henni!
Brátt var tími kominn til að borða. Bróðir Johnson flutti bæn. Síðan röðuðu þau sér öll upp til að fylla diskana.
Þegar komið var að Mayu, tók hún stóra ausu af ávaxtasalati. Hún sleppti nokkrum réttum sem höfðu mjólk í þeim.
Svo tók hún upp stóran poka af kartöfluflögum og hellti smá á diskinn sinn. Þær litu út fyrir að vera sams konar flögur og hún hafði borðað áður. Hún setti eina upp í sig.
En þegar hún byrjaði að tyggja, fékk hún sterka tilfinningu. Skoðaðu innihaldsefnin, sagði rödd í huga hennar.
Maya hætti að tyggja. Hún skoðaði innihaldslistann á pokanum. Í flögunum var mjólk!
Maya greip servíettu og spýtti út úr sér flögunum eins hratt og hún gat. Augu hennar fylltust tárum. Hún hafði ekki kyngt. En myndi eitthvað slæmt samt gerast?
„Mamma! Pabbi!“ Maya flýtti sér til foreldra sinna. „Ég setti kartöfluflögu með mjólk í munninn!“
„Allt er í lagi,“ sagði mamma. „Við skulum sækja lyf.“ Maya kyngdi pillunni sem mamma rétti henni og dró djúpt andann nokkrum sinnum. Pabbi hélt á Mayu á meðan þau biðu eftir að lyfið tæki að virka.
Eftir nokkrar mínútur spurði mamma: „Hvernig líður þér?“
Maya var enn hrædd. En hún fann ekkert að líkamanum. „Ég held ég sé í lagi. En gæti ég fengið blessun?“
„Auðvitað,“ sagði pabbi. „Við skulum biðja trúboðana um að hjálpa.“
Maya settist í stól og pabbi og trúboðarnir lögðu hendur sínar á höfuð hennar. Þeir blessuðu hana með öryggi. Maya var róleg. Allar slæmu tilfinningarnar voru horfnar.
„Hvernig datt þér í hug að skoða innihaldsefnin í pokanum?“ spurði mamma.
„Ég fann fyrir viðvörun frá heilögum anda!“
Pabbi faðmaði hana þétt að sér. „Ég er svo glaður að þú hafir hlustað.“
Maya kinkaði kolli. Hún vissi að himneskur faðir elskaði hana og lét sig hana varða.