Barnavinur
Lestrarmarkmiðið
Janúar 2024


„Lestrarmarkmiðið,“ Barnavinur, jan. 2024, 36–37.

Lestrarmarkmiðið

Anders kunni ekki við að lesa upphátt.

Þessi saga gerðist í Bandaríkjunum.

alt text

Anders hlustaði á systur sína lesa í ritningarnámi fjölskyldunnar. Hann reyndi að fylgjast með á spjaldtölvunni sinni. En það var erfitt að einbeita sér að orðunum.

Anders átti alltaf erfitt með að lesa. Á síðasta ári komst hann að því að hann var með lesblindu. Lesblinda er námserfiðleiki sem gerir manni erfitt fyrir að lesa. Heilinn ruglar orðum og bókstöfum og augun hoppa þvert yfir blaðsíðuna þegar hann reynir að lesa.

Systir hans kláraði að lesa versið sitt og bróðir hans las næsta. En Anders las ekki. Hann kunni ekki við að lesa upphátt. Það hjálpaði örlítið að stækka orðin á spjaldtölvunni. En hann þoldi ekki hve hægt og vandræðalega hann las. Hann gerði svo mörg mistök! Hann þurfti að leggja svo mikið á sig fyrir eitthvað sem virtist öðrum svo auðvelt.

Þegar þau luku lestrinum, horfði fjölskylda Anders á myndband. Það snerist um áætlun barna og unglinga.

„Setjið persónuleg markmið sem láta á ykkur reyna,“ sagði öldungur Gong í myndbandinu. „Uppgötvið nýja hæfileika, áhugamál og færni.“*

Anders hugsaði um þau markmið sem hann gæti sett. Kannski gæti hann lært að baka smákökur. Eða verða betri í fótbolta!

Þá leit hann á Mormónsbók á borðinu. Að verða betri að lesa hljómaði ekki eins og mjög skemmtilegt markmið. En hann vildi getað lesið ritningarnar með fjölskyldu sinni.

„Ég veit hvaða markmið ég vil setja mér,“ sagði hann við pabba.

„Hvað er það?“ spurði pabbi.

Anders tók upp Mormónsbók. „Ég vil lesa upphátt vers úr Mormónsbók á hverjum degi.“

„Það hljómar eins og frábært markmið,“ sagði pabbi. „Hvenær viltu byrja?“

„Núna!“

Anders fór inn í herbergi og lokaði hurðinni. Hann vildi ekki að neinn heyrði í honum. Svo opnaði hann Mormónsbók. Hann ruglaðist á nokkrum orðum en það tók hann bara mínútu að klára fyrsta versið. Þetta var ekki svo slæmt, hugsaði hann.

Anders las ritningarvers á hverjum degi. Það var erfitt! Honum fannst heldur ekki eins og hann væri að bæta sig. En hann hélt áfram að leggja sig fram.

Síðan sagði kennarinn hans í skólanum einn daginn: „Vá! Ég trúi varla hversu hratt þú ert að læra.“

Anders leit upp úr heimavinnunni sinni. „Í alvöru?“

Hún kinkaði kolli. „Þú ert að taka svo miklum framförum.“

Anders leit niður á orðin á blaðinu. Það var auðveldara að lesa þau en áður. Markmið hans um að æfa sig við ritningarlestur var jafnvel að hjálpa honum í skólanum.

Þegar hann kom heim hljóp hann upp til að lesa ritningarnar. Þegar hann leit á blaðsíðuna snerust orðin enn í hringi. En það var auðveldara að komast að því hvað stóð þar.

Anders var spenntur fyrir ritningarnámi fjölskyldunnar þetta kvöldið.

„Heyrðu, pabbi,“ sagði hann. „Get ég hjálpað við lesturinn í dag?“

Pabbi brosti. „Mér þætti vænt um það!“

Anders fylgdist vandlega með þegar bræður hans og systur lásu eitt vers hvert. Þegar röðin var komin að honum, las hann versið rólega til að ná hverju orði réttu. Eftir að hann kláraði að lesa, leit hann upp. Allir brostu til hans.

Jafnvel þótt Anders væri ekki fullkominn lesari, var hann stoltur af sjálfum sér. Hann vissi að þegar hann legði sig fram, myndi himneskur faðir alltaf vera til staðar til að hjálpa sér.

alt text
PDF-saga

Myndskreyting: Kelly Smith

  • Í návígi með öldungi Gerrit W. Gong (heimslæg útsending, 17. nóv 2019), Gospel Library.