„Ritningar Samis,“ Barnavinur, jan. 2024, 10–11.
Ritningar Samis
Sami vildi lesa líka.
Þessi saga gerðist í Bólivíu.
Papi klappaði saman höndum í lok fjölskyldukvölds. „Ég er með hugmynd um fjölskyldumarkmið,“ sagði hann. „Lesum Mormónsbók saman á hverjum degi.“
Eldri bræður Samis, Andrés og Juan, kinkuðu skælbrosandi kolli við hugmyndinni.
„Allt í lagi,“ sagði Andrés.
Sami var líka spenntur. En þá mundi hann svolítið. Hann rétti upp hönd. „Ég veit ekki hvernig á að lesa. Hvernig get ég orðið að liði?“
Juan yppti öxlum. „Þú getur bara hlustað.“
Bræður Samis kunnu nú þegar að lesa. En Sami var bara fimm ára. Hann hafði enn ekki lært að lesa.
„En ég vil hjálpa líka!“ sagði Sami og yggldi sig.
Mamá faðmaði Sami. „Og það munt þú gera,“ sagði hún. „Það er alltaf leið til að gera það sem Guð hefur boðið okkur.“
Næsta kvöld safnaðist fjölskylda Samis saman til að lesa í Mormónsbók. Allir komu með eigið eintak af ritningunum, nema Sami. Mamá lét hann fá myndasögubók með sögum úr Mormónsbók.
„Þú getur ekki lesið orðin enn. En þú getur lesið myndirnar,“ sagði hún brosandi.
Sami hélt bókinni þétt að sér. Nú gæti hann líka lesið með fjölskyldunni sinni!
Þau skiptust öll á að lesa. Sami skoðaði myndirnar sem sögðu söguna. Þegar röðin var komin að honum, sagði hann hinum frá því sem hann sá á myndunum. Hann sagði frá eins mörgum atriðum og hann gat.
Þegar dagarnir liðu, vildi Sami lesa meira og meira. Mamá kenndi honum hvaða hljóð stafirnir gerðu. Síðan fór hún að sýna honum hvernig væri hægt að nota hljóðin til að búa til orð. Mánuðum seinna þurfti Sami ekki að reiða sig jafn mikið á myndasögubókina. Þess í stað, las hann síðasta orðið í hverju versi sem fjölskyldan las. Mamá las orðið fyrst og Sami endurtók.
Í fyrstu lásu þau hægt. Það tók langan tíma að komast að enda hvers kapítula. Andrés og Juan stundu þegar komið var að Sami. En þau lásu samt saman sem fjölskylda.
Smátt og smátt las Sami meira. Hann las eitt orð í versi, síðan tvö, síðan þrjú. Síðan byrjaði hann að lesa heil vers!
Þegar markmiði þeirra var næstum náð gat Sami lesið nokkur vers aleinn. Hann hafði bætt sig mikið við lesturinn. Elska hans til Mormónsbókar hafði líka aukist.
Að lokum kláraði fjölskylda Samis Mormónsbók. Það hafði tekið tvö ár! Nú var Sami sjö ára og hafði lært að lesa mjög vel.
„Til hamingju!“ sagði Papi. „Okkur tókst það!“
Sami fagnaði með fjölskyldu sinni. Hann hafði hjálpað þeim að klára Mormónsbók!
Juan gaf Sami stórt knús. „Hvað verður markmið þitt fyrir næstu tvö ár?“
Sami brosti. Hann stóð teinréttur og sagði: „Ég ætla að lesa Mormónsbók aftur!“