Barnavinur
Fullkomin veisla afa
Janúar 2024


„Fullkomin veisla afa,“ Barnavinur, jan. 2024, 18–19.

Fullkomin veisla afa

Hvað ef rigningin myndi ekki hætta?

Þessi saga gerðist í Samóa.

alt text
alt text

Dökk og drungaleg ský voru á himninum. Alex gaut augunum á þau.

BÚMM!

Fleiri þrumur drundu. Stórir, þungir regndropar skullu alls staðar niður.

Alex hristi höfuðið. Þetta var ekki gott. Alls ekki gott. Stundum rigndi í marga daga í röð í Samóa. En hann óskaði þess að afmæli afa síns yrði fullkomið!

Alex fór í herbergið sitt og kraup við rúmið.

„Kæri himneski faðir,“ sagði hann. „Viltu vera svo góður að stoppa rigninguna tímanlega fyrir afmæli afa á morgun? Við erum búin að senda út boðskort. Í nafni Jesú Krists, amen.“

Þegar Alex stóð á fætur, sá hann mömmu og pabba standa í dyragættinni. Þau brostu.

„Ég vona að þér sé sama að við heyrðum bænina þína,“ sagði mamma.

Alex brosti. „Það er allt í lagi. Ég vil bara að morgundagurinn verði sérstakur fyrir afa. Hann yrði ekki samur ef við þyrftum að vera inni. Við hefðum ekki pláss til að dansa!“

Pabbi tók í axlir Axels. „Sama hvernig veðrið verður á morgun, þá veit afi hversu mikið þú elskar hann.“

Næsta morgun báðu mamma og pabbi Alex um að segja fjölskyldubænina. Það rigndi enn mikið. Og það leit enn ekki út fyrir að hún myndi hætta.

„Blessaðu okkur með því að rigningin hætti áður en veislan hefst,“ sagði hann. „Og blessaðu okkur svo við skemmtum okkur vel. Sérstaklega afi!“

Alex fylgdist með himninum allan morguninn. Í langan tíma gerðist ekkert. En svo gerðist svolítið ótrúlegt.

„Sjáiði!“ hrópaði Alex. „Það sést í bláan himinn!“ Fjölskylda hans hljóp út í garð. Það rofaði til.

Innan nokkurra klukkustunda voru öll skýin horfin! Jafnvel pollarnir á jörðinni höfðu þornað upp. Alex flýtti sér að skreyta garðinn. Afi og hinir gestirnir kæmu bráðum.

Þegar afi kom var hann gáttaður. Hann leit á ljósin, litskrúðuga borðana og alla gestina. „Allt er svo fallegt,“ sagði hann. „Kærar þakkir!“

Veislan var alveg jafn skemmtileg og Alex hafði vonast eftir. Þau dönsuðu við uppáhaldslög afa. Maturinn var bragðgóður – sérstaklega sætt kókoshnetubrauðið. Alex fékk jafnvel að syngja með afa.

Besti parturinn var samt þegar komið var að Siva Taualuga. Mikilvægasti einstaklingur dagsins dansaði alltaf þennan dans. Og það var auðvitað afi.

Afi stóð á fætur til að dansa en leit svo á Alex. „Komdu og dansaðu með mér, Alex!“ kallaði afi. Alex hoppaði á fætur og dansaði við hliðina á afa. Brátt dönsuðu allir hinir líka.

alt text
alt text

Afi beygði sig til að faðma Alex. „Þú lést mér líða eins og ég væri mjög sérstakur í dag,“ sagði afi. „Þetta var hin fullkomna afmælisveisla.“

Alex leit upp til himins eftir að veislan var á enda. Þykku, svörtu skýin voru komin aftur. Úrhellið kom aftur yfir þau. En í þetta sinn hafði Alex ekkert á móti því. Hann vissi að himneskur faðir hafi haldið veðrinu góðu nógu lengi fyrir veisluna hans afa.

„Takk fyrir góða veðrið,“ bað Alex. „Og þakka þér fyrir svona dásamlegan afa.“

PDF-saga

Myndskreyting: Augusto Zambonato