„Syfjuð á ritningarlestrartíma,“ Barnavinur, jan. 2024, 30–31.
Syfjuð á ritningarlestrartíma
Elvira vissi að ritningarlesturinn væri þess virði, þótt árla væri morguns.
Þessi saga gerðist í Noregi.
Elvira vaknaði við rödd pabba. „Tími til að lesa ritningarnar,“ sagði hann.
Hún settist upp í rúminu og nuddaði stírurnar í augunum. Það var enn dimmt úti. Og það var kalt! Elvira vildi ekki fara úr notalegu rúminu.
Mamma sagði að með ritningarlestri gætu þau kynnst Jesú betur. En það var erfitt að lesa ritningar á hverjum morgni!
Elvira gekk hægt upp tröppurnar og settist við hlið Sigrid, eldri systur sinnar, á sófanum. Hún knúsaði púða og hjúfraði sig í hlýju loðteppisins síns. Bræður hennar voru að byrja trúarskólakennsluna sína á netinu í hinu herberginu.
Sími pabba hringdi. Hann svaraði og fjölskyldumeðlimir birtust á skjánum. Liv frænka var komin í fötin og tilbúin í vinnuna. Frænka þeirra Dorthea var enn í náttfötunum, alveg eins og Elvira.
Elvira veifaði þeim í gegnum myndsímtalið og geispaði. Þau lásu alltaf ritningar með Liv frænku og Dortheu. Þær bjuggu í öðrum landshluta í Noregi, fjóra tíma í burtu. Það var auðveldara fyrir þau öll að lesa ritningar þegar þau höfðu það að markmiði að hringja hvert í annað á hverjum degi. Og Elvira elskaði að sjá frænku sína!
Nokkrum mínútum seinna, bættist mamma við símtalið. „Hæ, stelpur!“ sagði hún. Hún var í vinnuferð í þessari viku en hringdi samt á ritningarlestrartíma fjölskyldunnar.
Þau sögðu bæn. Elvira opnaði síðan ritningarnar sínar. Þau voru að lesa saman í Mormónsbók. Öll skiptust þau á að lesa versin.
Elvira hlustaði þegar hinir lásu en það var erfitt að halda sér vakandi. Sigrid hafði fallið aftur í sófann sofandi. Elvira potaði í hana. En þá fangaði nokkuð í versinu athygli hennar.
„Og ég sá stöng úr járni, sem lá meðfram fljótsbakkanum og að trénu, sem ég stóð hjá,“ las Dorthea.*
„Ég þekki þessa sögu!“ sagði Elvira. „Þetta er draumur Lehís.“ Hún hafði séð ritningarmyndband um hann. Þar var fallegt tré með hvítum ávöxtum og fólkið hélt í stöngina til að hjálpa því að komast að trénu.
„Manstu hvað stöngin stendur fyrir?“ spurði mamma.
„Ritningarnar?“
„Það er rétt!“ sagði pabbi. „Nefí kennir síðar að stöngin sé eins og orð Guðs. Hvernig heldur þú að við getum haldið í stöngina eins og fólkið í draumi Nefís?“
„Við höldum í stöngina einmitt núna!“ Elvira lyfti upp Mormónsbók. „Með því að hafa ritningarlestrartíma.“
Mamma kinkaði kolli. „Þegar við lesum ritningarnar, færumst við nær Jesú Kristi. Alveg eins og fólkið sem nálgaðist lífsins tré þegar það hélt í stöngina.“
Þegar þau héldu áfram að lesa ímyndaði Elvira sér sig grípa í stöngina og ganga að fallega trénu. Hún fann ekki til eins mikillar þreytu og áður.
Brátt var tími kominn til að leggja af stað. Liv frænka og mamma þurftu að fara í vinnuna. Og Elvira, Sigrid og Dorthea þurftu að gera sig klárar fyrir skólann.
„Bless, allir!“ Elvira veifaði fjölskyldu sinni á skjánum. „Elska ykkur!“
Þegar hún hljóp niður til að búa sig undir skólann, fann Elvira hlýju innra með sér. Og það var ekki út af loðteppinu hennar. Hún vissi að þessi hlýja tilfinning væri heilagur andi að segja henni að Mormónsbók væri sönn. Þetta var frábær leið til að hefja daginn!