2022
Musterið og ykkar eilífa ferðalag
Júlí 2022


„Musterið og ykkar eilífa ferðalag,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2022.

Musterið og ykkar eilífa ferðalag

Hve blessuð erum við að hljóta leiðsögn í húsi Drottins.

ungmenni fyrir framan musteri

Ljósmynd eftir Noel Maglaque

Þið eruð á ferðalagi. Það hófst fyrir löngu, þegar þið bjugguð með himneskum föður sem andasynir eða dætur hans. Þið eruð nú hér á jörðu með anda ykkar hýstan í efnislíkama, til að læra allt sem læra þarf til að komast aftur til himnesks föður einhvern daginn og vera verðug allra þeirra blessana sem hann geymir börnum sínum. Sumar mikilvægustu lexíur þessa eilífa ferðalags lærið þið í musterum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Musteri víða um heim

Þegar ég fæddist, árið 1928, voru musterin aðeins sjö. Nú eru dásamleg musteri um allan heim. Þau verða jafnvel fleiri! Musteri færa gleði og þann kraft sem við þurfum á okkar eilífa ferðalagi.

Engar aðrar byggingar á jörðu – jafnvel hinar mikilfenglegustu – hafa það sem musterin hafa. Frelsarinn sagði Pétri að honum yrði veittur kraftur og valdsumboð svo að „hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum“ (Matteus 16:19). Þetta er stór yfirlýsing! Musteri eru vígð og helguð með krafti prestdæmisins sem staður til að framkvæma helgiathafnir. Þessar helgiathafnir eru gildandi beggja vegna hulunnar.

Gleði eilífra fjölskyldna

Eiginkona mín, Barbara, lést fyrir tæpum fjórum árum. Vegna þess að við fórum í hús Drottins og létum innsiglast sem eiginmaður og eiginkona með krafti prestdæmisins, erum við bundin hvort öðru og börnunum okkar sjö, 43 barnabörnum og yfir 100 barnabarnabörnum um alla eilífð. Mikið er musterið dásamlegt! Hjarta mitt er fullt gleði, því fjölskylda mín verður sameinuð að eilífu. Fjölskylda ykkar getur líka verið eilíf.

Þegar þið komist á minn aldur munuð þið ekki hafa áhuga á að eiga mikla peninga eða aka flottum bíl. Það allra verðmætasta í lífi ykkar verður fjölskyldan – ekki einungis fjölskyldan sem þið eigið hér, heldur einnig eilíf fjölskylda ykkar.

Kraftur endurreists sannleika

Þið vitið hver þið eruð – sonur eða dóttir Guðs með ótakmarkaða möguleika. Þið vitið hvaðan þið komuð, af hverju þið eruð hér og hvað tekur við í komandi heimi.

Ég er gagntekinn lotningu yfir að þessi sannindi komu sem merkileg afleiðing bænar ungs pilts sem kraup og baðst fyrir í trjálundi. Faðirinn og sonurinn birtust Joseph Smith og blessanir fagnaðarerindisins voru endurreistar, skref fyrir skref.

Ég finn til mikils þakklætis fyrir Joseph Smith. Endurreistur skilningur okkar á áætlun Guðs, lykilhlutverki friðþægingar Jesú Krists og eilífu mikilvægi fjölskyldna og mustera hófst allt með honum. Við munum áfram byggja og tilkynna ný musteri, þar sem hinn mikli, viðvarandi boðskapur endurreisnarinnar breiðist um jörðina.

Endurreist sannindi, einkum þeirra sem við lærum með helgiathöfnum musterisins, setja lífið í samhengi og veita okkur kraft sem hjálpar okkur á eilífu ferðalagi okkar.

Gerið musterið að hluta af lífi ykkar

Það gæti verið erfitt að hugsa sér að það sem við gerum í dag muni skipta sköpum eftir mörg ár, jafnvel eftir þetta líf. Munið þó eftir hinu eilífa ferðalagi sem þið eruð á. Þegar þið eruð skírð og staðfest, takið þið mikilvæg skref á ferðalaginu.

Þið getið hjálpað hinum látnu áleiðis á þeirra ferðalagi með því að framkvæma skírnir og staðfestingar fyrir þau í musterinu. Þetta gerði ég mörgum sinnum þegar ég var á ykkar aldri. Ég man eftir að hafa verið skírður fyrir meira en 60 manns í eitt skiptið. Ég gat varla náð andanum milli skírna!

Ef þið hafið tækifæri til að fara í musterið, gerið það þá! Farið þangað eins oft og þið getið. Gætið þess að festast ekki í einhverju sem tekur mikinn tíma frá ykkur og leiðir hugann frá því sem er raunverulegt og eilíft. Þótt þið búið fjarri musteri, einblínið þá á musterið og búið ykkur núna undir að vera verðug þess að fara í musterið.

Búið ykkur núna undir musterisblessanir ykkar

Ein fyrsta helgiathöfn musterisins sem þið sjálf hljótið er musterisgjöfin. Hún er gjöf prestdæmiskrafts og stendur öllum börnum Guðs til boða. Við fáum aðgang að þessum krafti með því að taka á móti helgiathöfnunum og halda þá sáttmála sem við gerum í musterinu dag hvern.

Þið getið búið ykkur undir musterisgjöfina og aðrar helgiathafnir musterisins með því að ígrunda, biðja og læra um musterið. Ef foreldrar ykkar eða amma og afi hafa farið í musterið, ræðið þá við þau um hina dásamlegu blessun sem það er. Biskup ykkar og aðrir leiðtogar munu einnig liðsinna ykkur. Ég vona líka að þið finnið góða vini sem styðja við ykkur. Þið verðið þakklát þegar sá dagur kemur að þið farið í musterið og eruð tilbúin að taka á móti öllum þeim dásamlegu fyrirheitum og blessunum sem Drottinn þráir að veita ykkur.

Jesús Kristur kennir lærisveinum sínum

Kristur kennir lærisveinum sínum, eftir Justin Kunz

Ferðin heldur áfram

Tilgangur þessa lífs er að búa okkur undir hið næsta. Hinni miklu áætlun himnesks föður lýkur ekki við dauðann, því andi ykkar deyr aldrei. Hann fer áfram í andaheiminn og heldur þar áfram að læra, þjóna og bíður upprisunnar. Þá mun sérhvert kné beygja sig og sérhver tunga sverja við mig að Jesús er Kristur (sjá Jesaja 45:23). Vegna friðþægingar hans og upprisu, sameinast líkami okkar og andi á ný og ferðalag okkar heldur áfram um eilífð. Hve dýrðleg blessun fyrir okkur öll!

Þegar allt kemur til alls, er líf og þjónusta Jesú Krists þungamiðja alls sem hefur eilífa þýðingu og mikilvægi. Þekking ykkar og trú á hann mun vaxa þegar þið þjónið í musterinu. Þið munið finna fyrir takmarkalausri elsku hans til ykkar og upplifa gleði og andlegan kraft allt lífið á enda.