„Undirbúningur fyrir Dúbaí-musterið,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2022.
Undirbúningur fyrir Dúbaí-musterið
Ungmenni í Dúbaí og í Katar segja frá því hve musterið er þeim kært og eftirvæntingu sinni um að eitt slíkt verði byggt nærri þeim.
Þetta eru bara nokkur einföld orð, en þau breyta lífi manns þegar spámaður Guðs mælir þau. Á aðalráðstefnu hlýða meðlimir kirkjunnar um víða veröld spenntir á það þegar ný musteri eru tilkynnt. Þegar Russell M. Nelson forseti sagði orðin „Dúbaí, Sameinuðu arabísku furstadæmunum“ á aðalráðstefnu í apríl 2020, vissu ungmennin Saajan og Gwen að líf þeirra ætti eftir að taka breytingum.1
Hittið Saajan frá Dúbaí
Hinn tólf ára Saajan hefur aldrei séð musteri í eigin persónu.
„Það hefur alltaf verið markmið móður minnar að fara í musterið,“ sagði Saajan. „Ást hennar á musterinu er smitandi. Nú er það takmark mitt í lífinu að fara í musterið.“
Saajan fæddist á Indlandi, en þegar foreldrar hans skildu flutti hann með móður sinni til Sameinuðu arabísku furstadæmanna. „Mamma leggur hart að sér. Mér finnst hún vera eins og ofurhetja. Jafnvel á erfiðleikatímum gefst hún aldrei upp.“
Móðir Saajans og amma hans gengu í kirkjuna á Indlandi nokkrum árum áður en hann fæddist. Þær lásu Mormónsbók og vissu að hún var svar við bænum þeirra. Saajan ólst upp við það að fara í kirkju með móður sinni og hann skírðist nýlega eftir að hafa beðið eftir leyfi föður síns.
„Að skírast var ein af bestu ákvörðunum sem ég hef nokkurn tíma tekið,“ sagði hann. „Þegar ég hlaut gjöf heilags anda fann ég fyrir hlýju og gleði hið innra.“
Nú útdeilir Saajan sakramentinu í deildinni sinni og býr sig undir að sækja musterið. Hann hlaut musterismeðmæli sín og getur ekki beðið eftir því að fara í Dúbaí-musterið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þegar það er fullklárað.
„Þegar ég frétti að bygging musterisins hefði verið kynnt, fannst mér það vera fyrir mig persónulega,“ sagði Saajan. „Það var svar við bænum okkar. Ég var orðlaus, því það verður byggt einmitt þar sem við búum! Ég get tekið lest beint í musterið og farið þangað eins oft og ég vil. Ég er líka spenntur fyrir Bengaluru-musterinu á Indlandi, sem afi og amma geta sótt.“
Saajan vill líka gera musterisverk fyrir aðra áa sína.
„Ég bý sjálfan mig undir það að vera verðugur þess að fara í musterið. Ég vil gera allt sem ég get til að hjálpa öllum áum mínum. Ég hef fengið svo spennandi tækifæri til að þjóna Drottni og framkvæma hluti sem varða ríki Guðs.“
Hittið Gwen frá Katar
Á fyrstu 18 árum lífs síns, hefur Gwen búið í fimm mismunandi löndum: Skotlandi, Angóla, Englandi, Kasakstan og Katar. Starf föður hennar hefur farið með þau um allan heim, nú síðast til Mið-Austurlanda.
Eldri systkini Gwen hafa öll flutt að heiman, svo hún býr í Katar með móður sinni og föður. Ein af eftirlætis upplifunum hennar var musterisferð með ungmennum í deild hennar til Kíev-musterisins í Úkraínu. Ekkert musteri er nærri, svo hinir heilögu í Mið-Austurlöndum verða að fara í flugferð til að sækja musteri í öðrum löndum.
„Ég var afar spennt fyrir ferðalaginu og vildi koma með nöfn skyldmenna,“ sagði hún. „Á hverjum degi fann ég nöfn skyldmenna í símanum mínum á leið í og úr skólanum. Ég fann um 200 nöfn. Mér fannst ég vera tilbúin til að fara!“
Þó var eitt lítið vandamál sem hún hefði ekki getað búið sig undir.
Heimsfaraldur.
Flugvél Gwen lenti í Úkraínu í mars 2020 – einmitt á þeim tíma sem fréttir um útbreiðslu Kóvid-19 veirunnar tóku að vekja athygli. Með hjálp himins komust þau í musterið og gátu framkvæmt skírnir fyrir þau skyldmenni sem Gwen hafði undirbúið.
„Það var kraftaverk eftir kraftaverk,“ sagði hún. „Þegar við ókum til musterisins hafði ég áhyggjur af faraldrinum, en í musterinu fann ég fyrir svo miklum friði og vellíðan. Við gátum flogið til baka til Katar rétt áður en landamærin lokuðu.“
Móðir Gwen, sem hafði farið í heimsókn til systkinis Gwen í Bandaríkjunum, gat ekki snúið aftur til Katar. Gwen og faðir hennar voru einangruð heima þegar faðir hennar fékk Kóvid. „Hann var afar veikur um tíma og gat ekki hreyft sig mikið,“ sagði Gwen. „Ég var svo einmana. Móðir mín var enn í burtu og ég kunni ekki að elda annað en grillaða ostasamloku.“
Gwen upplifði nokkuð sérstakt þegar hún hélt kirkju heima með föður sínum.
„Mér fannst eins og fólkið sem bar þau nöfn sem ég hafði farið með í musterið væru með mér og föður mínum,“ sagði hún. „Ég var ekki lengur einmana. Þetta var sérstaklega ljúf upplifun. Það var mikil blessun að hafa sótt musterið áður en faraldurinn skall á.
Dúbaí-musterið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum var tilkynnt um mánuði eftir musterisferð hennar til Úkraínu. Gwen var yfir sig glöð! Hún veit hversu mikla þýðingu það mun hafa fyrir fólkið á hennar svæði.
„Ég veit að á mínu svæði er fólk sem hefur ekki efni á að fljúga til annars musteris í Evrópu. Það hefur beðið eftir að innsiglast sem eilífar fjölskyldur. Þetta sýnir mér að samansöfnunin er raunveruleg. Við undirbúum leiðina fyrir endurkomu Krists.“
Blessanir musterisins
Eitt atriði sem Gwen og Saajan eiga sameiginlegt er að musterið er nú þegar blessun í lífi þeirra. Nelson forseti sagði: „Musterin eru kóróna endurreisnar fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists. Af gæsku og örlæti, er hann að færa blessanir musterisins nær börnum sínum hvarvetna.“2