2022
Enginn annar eins og þú
Júlí 2022


„Enginn annar eins og þú,“ Til styrktar ungmennum, júlí 2022.

Kom, fylg mér

Ester

Enginn annar eins og þú

Drottinn bjó Ester undir hennar mikilvæga verk og hann gerir hið sama við ykkur.

Gerið eitthvað handahófskennt núna. Hvað sem er! Veifið höndum fyrir ofan höfuð, snúið ykkur í hring eða hrópið einhver skrýtin orð eins og: „Ég elska bananabrauð!“

Búin? Gott. Þið hafið nú afrekað eitthvað sem hefur aldrei áður verið gert. Eins furðulega og það hljómar, þá hefur það sem þið gerðuð, sama hvað það var – jafnvel ef þið hugsuðuð út í eitthvað en framkvæmduð það ekki – aldrei í sögunni verið gert á nákvæmlega þennan hátt. Ekki þar sem þið eruð, á þessum tíma og ekki af ykkur.

Þessi bjánalega litla æfing leggur áherslu á mikilvægt atriði: Enginn annar er nákvæmlega eins og þið eða í sömu aðstæðum. Ekki einu sinni systkini ykkar. Í öllum heiminum er engan að finna sem hefur nákvæmlega sömu samsetningu og þið af hæfileikum, getu, vináttu, fjölskyldu, andlegum gjöfum og einstaklingsbundinni heildarsýn.

Á sama hátt og Ester í Gamla testamentinu, eruð þið hæf á ykkar einstaka hátt „vegna þessara atburða“ (Esterarbók 4:14), til að hafa jákvæð áhrif til góðs í lífi allra sem þið þekkið.

Þið hafið mikilvæga hluti fyrir höndum!

Úr munaðarleysingja í konungstign

Þegar þið nemið Gamla testamentið þennan mánuðinn í Kom, fylg mér, munuð þið læra um einstaka unga konu af gyðingaættum sem hét Ester. Á ákveðnum tímapunkti í æsku sinni, varð Ester að munaðarleysingja og alin upp af Mordekaí, ættingja sínum. Hún ólst upp á tíma þar sem erlend þjóð hafði svipt Gyðinga frelsinu.

Sem munaðarlaus stúlka í framandi landi, hefði hún líklegast aldrei getið sér til um að hún yrði dag einn drottning. Þetta er þó einmitt það sem gerðist (sjá Esterarbók 2). Hún var útvalin sem brúður Xerxesar konungs.

Dag nokkurn stóð hún frammi fyrir hræðilegri áskorun: Gyðingar, þjóð Esterar, voru í bráðri hættu að vera útrýmt. Eiginmaður hennar, konungurinn, eftir að hafa hlýtt á leiðsögn ráðgjafa sinna, tók í gildi lög um að allir Gyðingar í borginni skyldu vera aflífaðir á þeim ákveðna degi sem hann hafði sett fram.

Þetta var fjölmenn borg. Meðal íbúa hennar voru margir Gyðingar. Þar var þó aðeins ein Ester drottning. Hún var sú eina sem gæti gert nokkuð til að stöðva þessa hörmung.

Alveg eins og á við um Ester drottningu, þá er aðeins til eitt eintak af þér. Þið eruð þau einu sem getið framkvæmt það sem þið getið gert – það sem Drottinn þarfnast af ykkur. Hluti sem geta leitt til sáluhjálpar margra.

Bænasvör

Til allrar hamingju eru líkurnar ekki háar á að þið þurfið að glíma við eitthvað eins hættulegt og ógnvekjandi og Ester. Það þýðir þó ekki að tilgangur ykkar í lífinu sé síður mikilvægur.

Þið hafið verið leidd og undirbúin á sama hátt og Ester til að vera þau sem þið eruð núna. Þessi undirbúningur heldur áfram er þið fylgið Jesú Kristi. Þið getið verið svar við daglegum bænum margra.

Auðvitað er alltaf best að biðja um andlega hjálp á ferðalaginu eins og Ester gerði, þrátt fyrir alla okkar hæfileika og getu.

Trú, sannfæring og þið

Ester vissi að hún yrði að reyna að bjarga þjóð sinni. Hún vissi líka að hún þyrfti aukna trú og stuðning þjóðar sinnar, þegar hún leitaði sér hjálpar hjá Guði. „Farðu og kallaðu saman alla Gyðinga sem nú er að finna í Súsa. Haldið föstu mín vegna,“ sagði Ester við ættingja sinn, „og etið hvorki né drekkið í þrjá sólarhringa, hvorki á nóttu né degi. Eins munum við fasta, ég og þernur mínar. Síðan geng ég fyrir konung enda þótt það sé andstætt lögunum. Ef ég dey þá dey ég“ (Esterarbók 4:16).

Ljósmynd
Ester

Ester, eftir James L. Johnson

Þegar lífið er erfitt, snúa hinir trúföstu sér enn innilegar til Guðs. Ester þurfti á allri þeirri hjálp að halda sem hún gat fengið. Hún þurfti ekki aðeins hjálp til að sannfæra eiginmann sinn um að draga ákvörðun sína til baka, heldur þurfti hún einnig að hætta lífi sínu með því að fara á fund konungs án þess að vera boðuð þangað (sem var andstætt lögunum, jafnvel fyrir drottningu).

Sjáið þið sannfæringu hennar og trú? Þetta er þessi virði að lesa aftur: „Ef ég dey þá dey ég,“ sagði Ester. Slík áhrifamikil orð voru endurtekin þegar Sadrak, Mesak og Abed-Negó neituðu að tilbiðja gulllíkneski Nebúkadnesar konungs.

Jafnvel þegar hann hótaði að henda þeim í eldsofninn fyrir að óhlýðnast, sögðu þeir djarflega: „Vilji Guð okkar, sá sem við dýrkum, frelsa okkur getur hann frelsað okkur jafnt úr glóandi eldsofni sem úr þínum höndum, konungur.

Og þótt hann láti það ógert skaltu samt vita að við munum hvorki dýrka þína guði, konungur, né tilbiðja gulllíkneskið sem þú hefur látið reisa“ (Daníel 3:17–18, leturbreyting hér).

„Þótt hann láti það ógert“ og „ef ég dey þá dey ég“ eru ótrúlegar trúaryfirlýsingar. Þessi máttuga trú er til staðar, hver svo sem árangurinn verður. Hugrekki Esterar bjargaði þjóð hennar að lokum. Þrátt fyrir það vissi hún í upphafi, eins og Sadrak, Mesak og Abed-Negó, að þótt árangurinn af því að velja að trúa sé ekki alltaf vís, þá er það alltaf rétt ákvörðun að gera það rétta.

Á stundum í lífi ykkar mun eflaust verða erfitt að velja rétt. Ekkert okkar sleppur við ofsafengnar raunir jarðlífsins. Þið getið þó valið að vera eins og Ester. Veljið réttlætið; leyfið afleiðingunum að fylgja.

Þrátt fyrir allt, þá er og verður enginn eins og þú – og núna er þinn tími til að betrumbæta heiminn.

Prenta