Aðalráðstefna
Trúarbæn
Aðalráðstefna apríl 2020


2:3

Trúarbæn

Þegar við biðjum í trú, verðum við mikilvægur þáttur í verki Drottins, er hann býr heiminn undir síðari komu sína.

Bæn öldungs Maynes í upphafi þessa aðalráðstefnuhluta er þegar verið að svara. Við höfum hlotið innblástur af dásamlegum boðskap og fallegri tónlist. Loforð Nelsons forseta um að þessi ráðstefna verði eftirminnileg er þegar að uppfyllast.

Nelson forseti hefur helgað þetta ár „til minningar um að 200 ár séu liðin frá því að Guð faðirinn og hans elskaði sonur, Jesús Kristur, birtust Joseph Smith í sýn.“ Nelson forseti bauð að við byggjum okkur persónulega undir þessa sögulegu ráðstefnu, sem hann sagði vera minningarhátið er yrði „hápunktur í sögu kirkjunnar og að hlutverk ykkar væri mikilvægt.“ 1

Þið heyrðuð kannski boðskap hans, eins og ég gerði, og spurðuð ykkur sjálf: „Hvernig er hlutverk mitt mikilvægt?“ Ef til vill hafið þið lesið um atburði endurreisnarinnar og beðist fyrir vegna þeirra. Ef til vill lásuð þið frásagnirnar oftar en nokkru sinni áður um þau fáu skipti sem Guð faðirinn kynnti sinn elskaða son. Ef til vill lásuð þið um tilvikin þar sem frelsarinn talaði til barna okkar himneska föður. Ég veit að ég gerði þetta allt og meira til.

Ég fann tilvísanir í lestri mínum sem vísuðu til prestdæmis Guðs og innleiðingu ráðstöfunartíma. Ég fann til auðmýktar þegar mér varð ljóst að undirbúningur minn fyrir þessa ráðstefnu var hápunktur í minni eigin sögu. Ég fann breytingu í hjarta. Ég fann aukið þakklæti. Mér fannst ég fyllast gleði yfir að hafa verið boðið að taka þátt í þessari afmælishátíð viðvarandi endurreisnar.

Ég get ímyndað mér að aðrir upplifi, sökum vandlegs undirbúnings, aukna gleði, bjartsýni og staðfestu til að þjóna hvernig sem Drottinn þarf á að halda.

Þeir einstöku atburðir sem við heiðrum, voru upphafið að síðustu ráðstöfuninni sem spáð var um, þar sem Drottinn býr kirkju sína og fólk sitt, þá sem bera nafn hans, undir að taka á móti sér. Sem hluti af undirbúningi okkar fyrir komu hans, mun hann lyfta okkur öllum, svo við fáum risið undir þeim andlegu áskorunum og tækifærum, ólíkt öllu sem sést hefur í sögu þessa heims.

Í september 1840 lýstu spámaðurinn Joseph Smith og ráðgjafar hans í Æðsta forsætisráðinu yfir eftirfarandi: „Verk Drottins á þessum síðustu tímum er eitt hið umfangsmesta og næstum ofar skilningi hins dauðlega. Dýrð þess er ólýsanleg og mikilfengleiki þess óviðjafnanlegur. Það er þemað sem lífgað hefur hjörtu spámannanna, og réttlátra manna, allt frá sköpun heimsins, allt frá fyrstu kynslóðum fram til okkar kynslóðar; og það er sannlega svo að í ráðstöfuninni í fyllingu tímanna, mun allt það sem er i Kristi Jesú, hvort heldur á himni eða jörðu, verða safnað saman í honum, og allt verður endurreist, líkt og hinir heilögu spámenn hafa rætt um allt frá upphafi heimsins. Því í henni mun hið dýrðlega fyrirheit, sem feður okkar hlutu, uppfyllast og vitranir hins hæsta verða undursamlegar, dýrðlegar og himneskar.“

Þeir sögðu ennfremur: „Við finnum okkur knúna til að takast á við verkið og sameina krafta okkar við að byggja upp ríkið, og koma prestdæminu á fót í fyllingu og dýrð. Það verk sem vinna verður á þessum síðustu tímum, er eitt hið mikilvægasta, og krefst orku, einbeitingar og hæfileika hinna heilögu, svo það megi fylla alla jörðina þeirri dýrð og hátign sem [spámaðurinn Daníel hefur] greint frá [sjá Daníel 2:34‒35, 44‒45]; og til þess að fá áorkað þessu umfangsmikla og mikilfenglega verki verða hinir heilögu að helga sig því.“ 2

Margt af því sértæka sem við munum gera og hvenær við munum gera það í þróun endurreisnarinnar hefur enn ekki verið opinberað. Æðsta forsætisráðið þekkti þó jafnvel á þessum fyrstu dögum nokkuð af vídd og dýpt þess verks sem Drottinn hefur falið okkur. Hér eru fáein dæmi um það sem við vitum að mun gerast:

Fyrir meðalgöngu sinna heilögu mun Drottinn bjóða „öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum“ gjöf fagnaðarerindis síns. 3 Tækni og kraftaverk munu áfram skipa þar hlutverki – sem og munu einstakir „menn veiða,“ 4 og þjóna af krafti og aukinni trú.

Við, sem fólk, munum verða samheldnari mitt í sívaxandi erjum. Við munum koma saman í andlegum styrk hópa og fjölskyldna, fyllt ljósi fagnaðarerindisins.

Hinn vantrúaði heimur mun jafnvel þekkja Kirkju Jesú Krist hinna Síðari daga heilögu og átta sig á krafti Guðs yfir henni. Trúfastir og hugdjarfir lærisveinar munu óttlausir, auðmjúkir og opinskátt taka á sig nafn Krists í sínu daglega lífi.

Hvernig getur þá hvert okkar tekið þátt í þessu verki, af slíku umfangi og mikilfengleika? Nelson forseti hefur kennt okkur hvernig vaxa á að andlegum krafti. Þegar við lítum á iðrun sem gleðiefni, sökum vaxandi trúar okkar á að Jesús er Kristur, þegar við skiljum og trúum að himneskur faðir heyri sérhverja bæn okkar, þegar við reynum að hlýða og lifa eftir boðorðunum, þá vöxum við að krafti til að hljóta stöðugt opinberun. Heilagur andi getur verið okkur stöðugur förunautur. Tilfinning ljóss dvelur með okkur, jafnvel þegar veröldin umhverfis verður myrkari.

Joseph Smith er dæmi um hvernig vaxa má að slíkum andlegum krafti. Hann sýndi okkur að trúarbæn er lykill að opinberun frá Guði. Hann bað í trú á að Guð faðirinn myndi svara bænum hans. Hann bað í trú á að einungis fyrir Jesú Krist gæti hann losnað undan sektarkennd synda sinna. Hann bað í trú á að hann þyrfti að finna hina sönnu kirkju Jesú Krists, til að hljóta þessa fyrirgefningu.

Joseph Smith notaði trúarbæn í gegnum spámannstíð sína, til að hljóta stöðugt opinberun. Í áskorunum okkar tíma og þeim sem enn eiga eftir að koma, þurfum við að fara að þessari sömu fyrirmynd. Brigham Young forseti sagði: „Ég þekki enga aðra leið fyrir Síðari daga heilaga en að hver andardráttur sé í raun bæn til Guðs um að leiða fólk hans.“ 5

Þessi orð sakramentisbænarinnar ættu því að vera lýsandi fyrir daglegt líf okkar: „Hafa hann ávallt í huga.“ „Hann“ vísar til Jesú Krists. Þar á eftir koma orðin „og halda boðorð hans,“ sem sýna hvað í því felst fyrir okkur að hafa hann í huga. 6 Þegar við höfum Jesú Krist ávallt í huga, gætum við spurt í hljóðri bæn: „Hvað myndi hann vilja að ég gerði.“

Slík bæn, flutt í trú á Jesú Krist, varð til að innleiða þessa síðustu ráðstöfun. Hún mun skipa megin hlutverki í þessari viðvarandi þróun. Ég hef, líkt og þið, fundið dásamleg dæmi um slíkar bænir.

Fyrst er að nefna Joseph Smith. Hann bað í barnslegri trú um hvað Drottinn vildi að hann gerði. Svar hans breytti sögu heimsins.

Mér finnst mikilvæg lexía felast í því hvernig Joseph brást við árás Satans, krjúpandi í bæn.

Ég veit af eigin reynslu að Satan og þjónar hans reyna að láta okkur finnast við ekki eiga að biðja. Þegar Joseph Smith beitti öllum sínum kröftum til að ákalla Guð um að bjarga sér undan þeim krafti sem reyndi að binda hann, var bæn hans um líkn svarað og himneskur faðir og Jesús Kristur birtust.

Tilraun Satans til að koma í veg fyrir innleiðingu endurreisnarinnar var svo ofsaleg, því bæn Josephs var svo mikilvæg. Þið og ég munum skipa minna hlutverki í hinni viðvarandi endurreisn. Óvinur endurreisnarinnar mun samt reyna að aftra okkur frá því að biðja. Fordæmi Josephs um trú og staðfestu getur hjálpað okkur að vera staðfastari. Þetta er ein margra ástæða þess að ég þakka himneskum föður fyrir spámanninn Joseph í bænum mínum.

Enos í Mormónsbók er önnur fyrirmynd að trúarbæn minni, er ég reyni að framfylgja hlutverki mínu í hinni viðvarandi endurreisn. Hvert sem hlutverk ykkar verður, þá gætuð þið haft hann sem fyrirmynd.

Líkt og Joseph, þá bað Enos í trú. Hann lýsti reynslu sinni þannig:

„Sál mína hungraði, og ég kraup niður frammi fyrir skapara mínum og ákallaði hann í máttugri og auðmjúkri bæn fyrir sálu minni, og allan liðlangan daginn ákallaði ég hann. Já, og þegar kvölda tók, hrópaði ég enn hátt, svo að rödd mín næði himnum.

Og rödd kom til mín og sagði: Enos, syndir þínar eru fyrirgefnar, og þú munt blessaður verða.

Ég, Enos, vissi, að Guð gat ekki farið með lygi, og því var sekt minni sópað burtu.

Og ég spurði: Drottinn, hvernig má það vera?

Og hann svaraði mér: Vegna trúar þinnar á Krist, sem þú hefur aldrei fyrr heyrt eða séð. Og mörg ár munu líða, þar til hann opinberar sig í holdinu. Far því nú, trú þín hefur gjört þig heilan.“ 7

Þessi orð hafa verið mér blessunarrík lexía: „Vegna trúar þinnar á Krist, sem þú hefur aldrei fyrr heyrt eða séð.“

Joseph trúði nægilega á Krist til að fara í lundinn og líka til að biðja lausnar undan krafti Satans. Hann hafði ekki enn séð föðurinn og soninn, en hann bað í trú af öllum mætti sálar sinnar.

Reynsla Enosar hefur kennt mér sömu dýrmætu lexíu. Þegar ég bið í trú, hef ég frelsarann sem málsvara minn hjá föðurnum og finn að bænir mínar ná til himins. Svörin berast. Blessanir hljótast. Það er friður og gleði, jafnvel á erfiðum tímum.

Ég man eftir að hafa kropið í bæn, sem nýjasti meðlimur Tólfpostulasveitarinnar, með öldungi David B. Haight. Hann var um það bil á sama aldri og ég er nú, með áskoranir sem ég upplifi nú sjálfur. Ég man eftir rödd hans er hann baðst fyrir. Ég lauk ekki upp augunum til að sjá, en hann hljómaði líkt og hann væri brosandi. Hann talaði við himneskan föður með gleðiröddu.

Ég fæ skynjað hamingju hans í huga mínum er hann sagði: „Í nafni Jesú Krists.“ Mér fannst sem öldungur Haight finndi frelsarann staðfesta á þessari stundu bænarefni hans til himnesks föður. Ég var viss um að við því væri tekið með brosi.

Geta okkar til að inna af hendi mikilvægt framlag okkar til hinnar dásamlegu endurreisnar, mun eflast er við vöxum í trú á Jesú Krist sem frelsara okkar og himneskan föður sem kærleiksríkan föður okkar. Þegar við biðjum í trú, verðum við mikilvægur þáttur í verki Drottins, er hann býr heiminn undir síðari komu sína. Ég bið þess að við öll megum finna gleði í því að vinna að því verki sem hann býður hverju okkar að gera.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur lifir. Þetta er kirkja hans og ríki á jörðu. Joseph Smith er spámaður endurreisnarinnar. Nelson forseti er spámaður Drottins á jörðu á okkar tíma. Hann hefur alla lykla prestdæmisins í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Í nafni Jesú Krists, amen.