Sækja fram í trú
Ég blessa ykkur með friði og aukinni trú á Drottin.
Kæru bræður og systur, er dregur að lokum þessarar sögulegu ráðstefnu, færum við Drottni þakkir. Tónlistin hefur verið dásamleg og boðskapurinn innblásinn.
Á þessari ráðstefnu höfum við upplifað margt mikilvægt. Á þessu tvö hundruð ára afmæli höfum við kynnt yfirlýsingu til heimsins um raunveruleika endurreisnar fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists.
Við minntumst endurreisnarinnar með hósannahrópi.
Við afhjúpuðum nýtt auðkenni, táknrænt fyrir trú okkar á Drottin Jesú Krist og til sjónræns auðkennis á opinberum upplýsingum og efni kirkjunnar.
Við höfum kallað eftir heimslægum degi föstu og bænar, svo ná megi stjórn á ríkjandi faraldri, að hjúkrunarfólk megi njóta verndar, efnahagur eflast og lífið verði eðlilegt. Þessi fasta verður höfð á föstudaginn langa, 10. apríl. Hve dásamlegur föstudagur það mun verða!
Páskar eru á komandi sunnudegi, þar sem við munum aftur minnast friðþægingar og upprisu Drottins og frelsara okkar, Jesú Krists. Sökum friðþægingar hans, munu allir sem einhvern tíma hafa lifað njóta upprisugjafar hans. Allir sem uppfylla sett skilyrði með tryggð við helgiathafnir og sáttmála gerða í musterinu, munu hljóta gjöf eilífs lífs.
Draga mætti saman hina mörgu innblásnu þætti þessarar aðalráðstefnu, apríl 2020 – og hina helgu viku sem nú er hafin – í trúarjátningu fjögurra orða: „hlýð þú á hann.“ 1 Af öllu sem gerst hefur, biðjum við þess að að áhersla ykkar á himneskan föður, sem mælti þessi orð, og á elskaðan son hans, Jesú Krist, vari lengst í minningu ykkar. Við biðjum þess að þið megið einsetja ykkur að nýju að hlýða á, ígrunda og tileinka ykkur orð frelsarans. 2 Ég lofa að ótti mun hörfa og trú eflast í kjölfarið.
Þakka ykkur fyrir þrá ykkar til að gera heimili ykkar að sönnum griðarstað trúar, þar sem andi Drottins fær dvalið. Hið trúarlega námsefni okkar, Kom, fylg mér, mun áfram blessa líf ykkar. Stöðugt framlag ykkar hvað þetta varðar – jafnvel þegar ykkur finnst þið ekki sérlega farsæl – mun breyta lífi ykkar, fjölskyldu ykkar og heiminum. Við munum hljóta styrk þegar við verðum jafnvel enn dyggari lærisveinar Drottins, stöndum upp og tölum hans máli, hvar sem við erum.
Við skulum nú ræða um musterin. Við höfum 168 vígð musteri víða um heim. Fleiri eru á ýmsum stigum undirbúnings eða byggingar. Þegar áætlanir eru kynntar um byggingu nýs musteris, verður það hluti af helgri sögu okkar.
Það kann að virðast einkennilegt að tilkynna ný musteri þegar öll musteri eru lokuð um hríð.
Fyrir meira en öld, sá Willford Woodruff forseti fyrir ástand sem okkar, líkt og skráð er í vígslubæn Salt Lake musterisins, fluttri 1893. Sum ykkar hafið ef til vill nýlega séð útdrátt úr þessari merkilegu bæn á samfélagsmiðlum.
Hlustið á þetta ákall máttugs spámanns Guðs: „Þegar fólk þitt mun ekki eiga kost á að koma í þetta heilaga hús … og er undirokað og að því þrengt, umlukið erfiðleikum … og mun snúa augliti sínu að þessu helga húsi þínu, og biðja þig um lausn, um liðsinni, að þú ljáir þeim mátt þinn, þá sárbænum við þig að líta niður frá þínum helgu híbýlum í miskunn … og heyra ákall þess. Eða þegar börn þjóðar þinnar verða, á komandi árum, aðskilin, af einhverjum sökum, frá þessum stað, … og þau munu hrópa til þín frá djúpi eymdar sinni og sorgar, um að veita sér líkn og lausn, þá biðjum við þig auðmjúk að … hlusta á bæn þeirra og veita þeim þær blessanir sem þau æskja af þinni hendi.“ 3
Bræður og systur, á ógæfutíma okkar, þegar musteri eru lokuð, getið þið áfram fært ykkur í nyt kraft musterissáttmála ykkar og musterisgjafar, ef þið heiðrið sáttmála ykkar. Notið þennan tíma, meðan musterin eru lokuð, til að lifa áfram musterisverðugu lífi eða verða musterisverðug.
Ræðið við vini og fjölskyldu um musterið. Þar sem Jesús Kristur er þungamiðja alls sem við gerum í musterinu, munið þið hugsa meira um hann, ef þið hugsið meira um musterið. Ígrundið og biðjið til að læra meira um kraftinn og þekkinguna sem ykkur hefur veist – eða sem ykkur mun veitast.
Í dag njótum við þeirrar ánægju að tilkynna áætlun um byggingu átta mustera á eftirtöldum stöðum: Bahía Blanca, Argentínu; Tallahassee, Flórída; Lubumbashi, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó; Pittsburgh, Pennsylvaníu; Benin City, Nígeríu; Syracuse, Utah; Dubai, Sameinuðu arabísku furstadæmunum; og Shanghai, Alþýðulýðveldinu Kína.
Á öllum þessum átta stöðum, munu arkítektar starfa með embættismönnum þeirra svæða, svo musterin falli að hverju samfélagi og auki fegurð þess.
Áætlunin um byggingu musteris í Dubai, kemur til af kærleiksríku boði þeirra um það, sem við þökkum innilega fyrir.
Samhengið í þessari áætlun fyrir Shanghai er afar mikilvægt. Í yfir tvo áratugi hafa musterisverðugir meðlimir í Alþýðulýðveldinu Kína sótt heim Hong Kong musterið í Kína. En í júlí 2019 var musterinu lokað vegna löngu fyrirhugaðrar og nauðsynlegrar endurnýjunar.
Í Shanghai mun látlaus fjölnotafundarstaður gera kínverskum meðlimum kleift að taka áfram þátt í helgiathöfnum musterisins – í Alþýðulýðveldinu Kína - fyrir sig sjálfa og áa þeirra. 4
Í hverju landi kennir þessi kirkja meðlimum sínum að virða, hlíta og styðja lög þess. 5 Við kennum mikilvægi þess að í fjölskyldu séu góðir foreldrar og fyrirmyndar borgarar. Þar sem við virðum lög og reglur Alþýðulýðveldisins Kína, þá sendir kirkjan ekki trúboða þangað; og við munum ekki gera það núna.
Útlendingar og kínverskir söfnuðir munu áfram koma saman aðskildir. Lagaleg staða kirkjunnar verður áfram óbreytt. Í fyrsta notkunaráfanga húsnæðis, verða heimsóknir einvörðungu samkvæmt tímapöntun. Hús Drottins í Shanghai mun ekki vera ákvörðunarstaður ferðamanna frá öðrum löndum.
Þessi átta musteri munu blessa líf margra, beggja vegna hulu dauðans. Musterin eru kóróna endurreisnar fyllingar fagnaðarerindisins Jesús Krists. Af gæsku og örlæti, er hann að færa blessanir musterisins nær börnum sínum hvarvetna.
Eftir því sem endurreisninni miðar áfram, þá veit ég að Guð mun opinbera marga og mikilvæga hluti varðandi ríki sitt hér á jörðu. 6 Það ríki er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Kæru bræður og systur, ég tjái ykkur elsku mína. Á þessum tíma togstreitu og óvissu, myndi ég vilja veita ykkur postullega blessun, með því valdi sem í mér býr.
Ég blessa ykkur með friði og aukinni trú á Drottin. 7
Ég blessa ykkur með þrá til að iðrast og verða örlítið líkari honum með hverjum líðandi degi. 8
Ég blessa ykkur til að vita að spámaðurinn Joseph Smith er spámaður endurreisnar fagnaðarerindis Jesú Krists í fyllingu sinni.
Séu einhverjir sjúkir meðal ykkar eða ástvina ykkar, þá veiti ég þeim blessun lækningar, í samræmi við vilja Drottins.
Ég blessa ykkur svo, og tjái aftur hverju ykkar elsku mína, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.