Aðalráðstefna
Standast daginn í Kristi
Aðalráðstefna október 2023


10:33

Standast daginn í Kristi

Jesús Kristur gerir okkur kleift að „standast daginn“.

Þetta var dagur fullur af skýrum og skorinorðum dæmisögum, flóknum spurningum og djúpstæðum kenningum. Eftir að Jesús hafði ávítað þá sem líktust „hvítum kölkuðum gröfum sem sýnast fagrar utan en innan eru þær fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra,“1 kenndi hann þrjár fleiri dæmisögur um andlegan viðbúnað og lærisveinshlutverkið. Ein þessara dæmisagna var um meyjarnar tíu.

„Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína.

Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar.

Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér

en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.

Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.

Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann.

Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.

En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gef oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.

Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.

Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.

„Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.“2

„En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.“3

„Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina [er mannssonurinn kemur aftur].“4

Dallin H. Oaks forseti setti fram eftirfarandi hugvekjandi spurningar í tengslum við komu brúðgumans:5 „Hvað ef dagur komu hans væri á morgun? Ef við vissum að við myndum mæta Drottni á morgun – með ótímabærum dauða okkar eða óvæntri komu hans – hvað myndum við gera í dag?“6

Ég hef lært af eigin reynslu að andlegur undirbúningur fyrir komu Drottins er ekki aðeins nauðsynlegur, heldur eina leiðin til að finna sannan frið og hamingju.

Það var svalur haustdagur þegar ég heyrði fyrst orðin: „Þú ert með krabbamein.“ Ég og eiginmaður minn urðum agndofa! Þegar við ókum hljóð heim og meltum fréttirnar, varð mér hugsað um synina okkar þrjá.

Í huganum spurði ég himneskan föður: „Mun ég deyja?“

Heilagur andi hvíslaði: „Allt verður í lagi.“

Ég spurði þá: „Mun ég lifa?“

Aftur kom svarið: „Allt verður í lagi.“

Ég varð ráðvillt. Af hverju fékk ég nákvæmlega sama svarið við að spyrja hvort ég lifði eða dæi?

Skyndilega fylltist hver einasta fruma sálar minnar fullkomnum friði er ég var áminnt: Við þurftum ekki að flýta okkur heim til að kenna börnunum okkar að biðja. Þau kunnu að fá svör og huggun með bæn. Við þurftum ekki að flýta okkur heim og kenna þeim um ritningarnar eða orð lifandi spámanna. Þau orð voru þeim þegar kunnug uppspretta styrks og skilnings. Við þurftum ekki að flýta okkur heim og kenna þeim um iðrun, upprisuna, endurreisnina, sáluhjálparáætlunina, eilífar fjölskyldur eða sjálfa kenningu Jesú Krists.

Á þessari stundu skipti máli hver stund varin við fjölskyldukvöld, ritningarnám, trúarbæn, að gefa blessun, miðla vitnisburði, gera og halda sáttmála, fara í hús Drottins og halda hvíldardaginn heilagan – ó, hve þetta skipti miklu máli! Það var of seint að setja olíu á lampana okkar. Við þurftum hvern einasta dropa og við þurftum hann núna!

Ef ég dæi, myndi fjölskylda mín verða hugguð, styrkt og einn daginn endurreist, vegna Jesú Krists og hins endurreista fagnaðarerindis hans. Ef ég lifði, myndi ég hafa aðgang að æðsta krafti á þessari jörðu, mér til hjálpar, liðsinnis og lækningar. Allt getur farið vel að lokum vegna Jesú Krists.

Við lærum af vandlegum lestri í Kenningu og sáttmálum hvernig „allt í lagi“ lítur út:

„Og á þeim degi, sem ég kem í dýrð minni, mun dæmisagan uppfyllast, er ég sagði um meyjarnar tíu.

Því að þeir sem vitrir eru og hafa tekið á móti sannleikanum og haft hinn heilaga anda sér til leiðsagnar, og ekki látið blekkjast – sannlega segi ég yður, að þeir munu ekki upp höggnir og þeim eigi á eld kastað, heldur munu þeir standast daginn.“7

Jesús Kristur gerir okkur kleift að „standast daginn“. Að standast daginn þýðir ekki að við bætum sífellt við verkefnalistann. Hugsið um stækkunargler. Það hefur ekki þann eina tilgang að láta hluti virðast stærri. Það getur líka magnað upp og skerpt ljós til að gera það öflugra. Við þurfum að einfalda hlutina, beita kröftum okkar að því að vera ljósberar Jesú Krists. Við þörfnumst fleiri helgra og upplýsandi upplifana.

Í norðvesturhluta Ísraels er fallegur fjallgarður sem oft er nefndur „sígræna fjallið.“ Karmelfjall8 er að mestu grænt allt árið um kring vegna örlítils magns af döggfalli. Endurnæring á sér stað daglega. Eins og á við um döggfallið á Karmelfjalli,9 ef við leitumst við að næra sálir okkar „á öllu, sem réttlætið snertir,”10 „[hinu] smáa og einfalda,“11 munu vitnisburðir okkar og vitnisburðir barna okkar lifa!

Nú gætuð þið verið að hugsa: „En systir Wright, þú þekkir ekki fjölskylduna mína. Við eigum í miklum erfiðleikum og erum ekki neitt lík þessu.“ Þið hafið rétt fyrir ykkur. Ég þekki ekki fjölskylduna ykkar. En Guð með óendanlegan kærleika, miskunn, mátt, þekkingu og dýrð gerir það.

Spurningarnar sem þið gætuð verið að spyrja eru sárar spurningar hjartans sem rista djúpt í sál ykkar. Álíka spurningar má finna í heilögum ritningum:

„Meistari, hirðir þú ekki um að við förumst?“12

„Hvar er [von] að finna?“13

„Hvað [get ég] gjört, svo að þessum skýsorta verði bægt frá [mér]?“14

„Hvar er [speki] að finna, og hvar á viskan heima?“15

„Hvernig er yður mögulegt að höndla allt, sem gott er?“16

„[Drottinn,] hvað [á ég] að gera?“17

Síðan koma hin hughreystandi andsvör:

„Trúir þú á kraft Jesú Krists til sáluhjálpar?“18

„Hefur Drottinn meinað nokkrum manni að njóta gæsku sinnar?“19

„Trúið þið að [hann] geti gert þetta?“20

„Trúir þú … spámönnunum?“21

„Iðkið þér trú á endurlausn hans, er skóp yður?“22

„Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“23

Kæru vinir, við getum ekki gefið af olíunni okkar, en við getum gefið af ljósi hans. Olían í lömpum okkar mun ekki aðeins gera okkur mögulegt að „standast daginn,“ heldur getur hún líka lýst veginn sem leiðir þau sem við elskum til frelsarans, sem stendur reiðubúinn „með opinn faðm til að taka á móti“ þeim.24

„Svo segir Drottinn: Hættu að gráta, haltu aftur af tárum þínum því að þú færð umbun erfiðis þíns …: Þeir snúa aftur heim úr landi fjandmannanna.

Niðjar þínir eiga von, segir Drottinn, því að börn þín koma aftur heim til lands síns.“25

Jesús Kristur er vonin okkar. Ekkert sem við höfum gert, eða höfum ekki gert, er handan hinnar óendanlegu og eilífu fórnar hans. Hann er ástæða þess að það er enginn endir á sögu okkar.26 Þess vegna „verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf.”27

Eilíft líf er eilíf gleði Gleði í þessu lífi, einmitt núna– ekki þrátt fyrir áskoranir okkar tíma, heldur vegna liðsinnis Drottins við að læra af þeim og að lokum sigrast á þeim –og ómælda gleði í komandi lífi. Tár munu þorna, brostin hjörtu grædd, hið týnda mun finnast, áhyggjumál leysast, fjölskyldur verða endurreistar og allt sem faðirinn á mun vera okkar.28

Lítið til Jesú Krists og lifið29 er vitnisburður minn í hinu ástkæra, heilaga nafni þess sem er „hirðir og biskup sálna [okkar],“30 Jesú Krists, amen.