Í þágu afkomenda ykkar
Verið ekki veiki hlekkurinn í þessari fallegu trúarkeðju sem þið hófuð eða fenguð sem arfleifð. Verið sá sterki.
Fyrir nokkrum árum, þegar ég þjónaði á norðvestursvæði Suður-Ameríku og bjó í Líma, Perú, hlaut ég dásamlega reynslu sem mig langar að deila með ykkur.
Hún gerðist þegar ég var að koma heim eftir annasama helgi úthlutaðra verkefna. Eftir að hafa loks lokið því að fara í gegnum komuferlið á flugvellinum, fann ég vingjarnlegan leigubílstjóra sem beið mín frá hinni venjubundnu leigubílaþjónustu okkar. Hann fylgdi mér að bílnum og ég settist í aftursætið tilbúinn til að slaka á og njóta rólegrar heimferðar. Eftir að hafa ekið nokkrar húsaraðir, fékk bílstjórinn símtal frá yfirmanni sínum þar sem honum var sagt að ég hefði tekið rangan leigubíl. Annar bíll hefði verið frátekinn fyrir mig og yfirmaðurinn bað þess að hann færi aftur á flugvöllinn ef ég vildi skipta um bíl. Ég sagði það ekki vera nauðsynlegt og við gætum haldið áfram. Eftir nokkurra mínútna þögn horfði hann á mig í baksýnisspeglinum og spurði: „Þú ert mormóni, er það ekki?“
Eftir þessa bjóðandi spurningu, vissi ég að rólegheitin væru fyrir bý. Ég fékk ekki staðist að kanna hvert spurning hans myndi leiða okkur.
Ég komst að því að hann hét Omar, eiginkona hans hét Maria Teresa og að þau ættu tvö börn – Carolinu, 14 ára, og Rodrigo, 10 ára. Omar hafði verið meðlimur kirkjunnar frá því hann var barn. Fjölskylda hans var virk, en á einhverjum tímapunkti hættu foreldrar hans að fara í kirkju. Omar varð algjörlega óvirkur þegar hann var 15 ára. Hann var þarna 40 ára gamall.
Á því augnabliki áttaði ég mig á að ég hafði ekki tekið rangan leigubíl. Þetta var ekki tilviljun! Ég sagði honum hver ég var og að ég væri í leigubílnum hans af því að Drottinn væri að kalla hann aftur til sín.
Við ræddum síðan um tímann sem hann og fjölskylda hans höfðu verið virkir meðlimir kirkjunnar. Hann átti kærar minningar um ljúfar fjölskyldukvöldstundir og nokkur Barnafélagslög. Síðan söng hann ljúflega nokkur orð í „Guðs barnið eitt ég er“.1
Eftir að hafa fengið heimilisfang hans, símanúmer og leyfi til að deila því með biskupi hans, sagðist ég ætla að finna leið til að vera í kapellunni á fyrsta degi hans aftur í kirkju. Við lukum ferð okkar frá flugvellinum að heimili mínu, sem og stutta ferðalagi okkar til fortíðar hans, og fórum hvor í sína áttina.
Nokkrum vikum síðar hringdi biskup hans í mig og sagði mér að Omar hugðist koma í kirkju á tilteknum sunnudegi. Ég sagði honum að ég myndi vera þar. Þann sunnudag var Omar þar með syni sínum. Eiginkona hans og dóttir höfðu enn ekki áhuga. Nokkrum mánuðum síðar hringdi biskup hans í mig aftur, í þetta skiptið til að segja að Omar myndi skíra eiginkonu sína og tvö börn sín, og bauð mér að vera vera þar. Hér er mynd af þeim sunnudaginn sem þau voru staðfest sem meðlimir kirkjunnar.
Sama sunnudag sagði ég við Omar og fjölskyldu hans að ef þau væru undirbúin að einu ári liðnu, yrði mér heiður að því að innsigla þau í Límamusterinu. Hér er mynd af þeirri eftirminnilegu stund fyrir okkur öll, tekin einu ári síðar.
Af hverju er ég að miðla ykkur þessari reynslu? Ég miðla henni af tveimur ástæðum.
Í fyrsta lagi, til að ná til hinna góðu meðlima sem af einhverjum ástæðum hafa fallið frá hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Í öðru lagi, að ná til þeirra sem taka þátt í dag og eru ef til vill ekki eins trúir sáttmálum sínum og þeir ættu að vera. Í báðum tilfellum hefur það áhrif á kynslóðir sem á eftir þeim koma og blessanir og loforð eru í hættu sem þeim eru geymdar.
Byrjum á fyrri hópnum: góðum meðlimum sem hafa horfið frá sáttmálsveginum, eins og gerðist með vin minn, Omar, frá Perú. Þegar ég spurði hann um ástæðu þess að hann hefði snúið aftur, sagði hann það vera vegna þess að hann og eiginkona hans teldu að börn þeirra yrðu hamingjusamari í lífinu með fagnaðarerindi Jesú Krists. Honum fannst tími til kominn að fara aftur í kirkjuna vegna barna sinna.
Það er svo sorglegt þegar við hittum óvirka meðlimi eða þá sem ekki eru meðlimir kirkjunnar, sem eitt sinn höfðu fagnaðarerindið í fjölskyldu sinni og glötuðu því vegna þeirrar ákvörðunar foreldra eða afa og ömmu að draga sig í hlé frá kirkjunni. Slík ákvörðun getur haft áhrif á afkomendur þeirra að eilífu!
Börn þeirra og barnabörn hafa verið tekin frá vernd og blessunum fagnaðarerindis Jesú Krists í lífi sínu. Það sem jafnvel er enn sorglegra, er að þau hafa glatað loforðum um eilífa fjölskyldu sem eitt sinn voru þar. Ákvörðun eins hefur áhrif á heila keðju afkomenda. Arfleifð trúar hefur verið rofin.
Eins og við vitum, er aftur á móti hægt að lagfæra allt sem brotið er með liðsinni Jesú Krists. Af þessari ástæðu skuluð þið íhuga þetta boð Russells M. Nelson forseta: „Ef þið hafið farið af þeim vegi, þá hvet ég ykkur af allri hjartans von, að snúa aftur á hann. Hverjar sem áhyggjur ykkar eru eða áskoranir, þá er staður fyrir ykkur hér í kirkju Drottins. Þið sjálf og komandi kynslóðir munu hljóta blessun af viðleitni ykkar nú til að fara aftur á sáttmálsveginn.“2
Við skulum nú ræða um síðari hópinn: meðlimi sem taka þátt í dag en eru ef til vill ekki eins trúir og þeir ættu að vera. Á sama hátt og ákvarðanir gærdagsins hafa áhrif á veruleika líðandi dags, munu ákvarðanir hins líðandi dags hafa áhrif á framtíð okkar og framtíð fjölskyldumeðlima okkar.
Dallin H. Oaks forseti kenndi:
„Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists hvetur okkur til að huga að framtíðinni. … Það kennir stórfenglegar hugmyndir um framtíðina til að verk okkar nú falli að þeim.
Öll þekkjum við þó einhvern sem aðeins lifir fyrir augnablikið: eyðir í dag, nýtur þess í dag og hugar ekki að framtíðinni.
… Þegar við tökum ákvarðanir, ættum við alltaf að spyrja: ‚Hver verður útkoman?‘“3 Munu ákvarðanir teknar í dag færa okkur gleði nú og í eilífðinni eða munu þær leiða til sorgar og tára?
Sumir hugsa kannski: „Við þurfum ekki að mæta í kirkju á hverjum sunnudegi“ eða „Við munum borga tíund þegar hagur batnar“ eða „Ég mun ekki styðja kirkjuleiðtoga í þessu máli.“
„En,“ segja þau síðan, „við vitum að kirkjan er sönn og við munum aldrei yfirgefa fagnaðarerindi Jesú Krists.“
Þau sem hafa slíkt viðhorf átt sig ekki á þeim neikvæðu áhrifum sem þessi „volga“ aðildartegund mun hafa á líf þeirra og afkomenda þeirra. Foreldrarnir geta verið virkir, en hættan á að missa börnin frá sér er mikil – í þessu lífi og í eilífðinni.
Um þá sem munu ekki erfa himneska dýrð með fjölskyldum sínum, segir Drottinn: „Þetta eru þeir, sem ekki eru hugdjarfir í vitnisburðinum um Jesú. Þess vegna hljóta þeir ekki kórónu Guðs ríkis.“4 Er þetta það sem við óskum okkur sjálfum eða börnum okkar? Ættum við ekki að vera hugdjarfari og ekki eins volg og við erum, fyrir okkar eigin sakir og afkomenda okkar?
M. Russell Ballard ræddi líka um álíka mál:
„Sumum finnst boð Krists um að trúa og vera kyrr, vera torvelt. … Sumir lærisveinar eiga erfitt með að skilja einhverja ákveðna reglu eða kenningu kirkjunnar. Aðrir finna eitthvað sem nagar þá í sögu kirkjunnar eða einblína á ófullkomleika sumra meðlima og leiðtoga, lifandi eða látinna. …
Ákvörðunin um að ‚vera ekki framar með‘ kirkjumeðlimum og kjörnum leiðtogum Drottins, mun hafa varanleg áhrif, sem ekki er auðvelt að sjá fyrir.“5
Þvílík sorgararfleifð að miðla áfram – og af hvaða ástæðu? Hver sem hún er, þá er hún ekki nógu góð til að hunsa neikvæð andleg áhrif sem hún mun skapa fyrir komandi kynslóðir.
Kæru bræður mínir og systur, ef þið búið við eina af þessum tveimur aðstæðum sem ég tilgreini í boðskap mínum, endurskoðið þá endilega stefnu ykkar. Þið vitið að það er áætlun fyrir okkur í þessu lífi. Þið vitið að fjölskyldur geta verið eilífar. Af hverju að setja ykkur í hættu? Verið ekki veiki hlekkurinn í þessari fallegu trúarkeðju sem þið hófuð eða fenguð sem arfleifð. Verið sá sterki. Það er komið að ykkur að gera það og Drottinn getur hjálpað ykkur.
Frá innstu hjartarótum býð ég ykkur að hugsa um þetta, horfa fram á veginn og meta „til hvers þetta mun leiða“ og, ef nauðsyn krefur, að vera nægilega hugdjörf til að endurstilla stefnu ykkar í þágu afkomenda ykkar. Í nafni Jesú Krists, amen.