Herra, okkur langar að sjá Jesú
Okkur langar að sjá Jesú fyrir þann sem hann er og skynja elsku hans.
Andlitsblinda
Einn vordag árið 1945 vaknaði ungur maður á hersjúkrahúsi. Hann var lánsamur að vera á lífi – hann hafði verið skotinn rétt fyrir aftan eyrað en læknarnir höfðu gert aðgerð og gat hann nú gengið og talað eðlilega.
Það sem var sorglegt var að kúlan hafði skaðað þann hluta heilans sem þekkti andlit. Hann horfði nú á eiginkonu sína án þess að þekkja hana, hann þekkti ekki einu sinni móður sína. Andlitið í speglinum var honum líka ókunnugt – hann gat ekki greint hvort það væri karl eða kona.1
Hann var orðin andlitsblindur – sem er ástand sem hrjáir milljónir manna.2
Fólk sem er með alvarlega andlitsblindu reynir að bera kennsl á aðra með því að leggja reglur á minnið – reglu til að þekkja dóttur eftir mynstrinu á freknunum eða vin á heltinni.
Uppvöxtur
Hér er önnur saga, mér nær. Þegar ég var ungur drengur sá ég móður mína oft sem þá sem setti reglurnar. Hún ákvað hvenær ég mætti leika og hvenær ég ætti að fara að sofa eða það sem verra var, reita arfann í garðinum.
Hún elskaði mig greinilega. En of oft, mér til skammar, sá ég hana bara sem „hana sem varð að hlýða.“
Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að ég sá hana sem raunverulega persónu. Ég skammast mín fyrir að ég tók raunverulega ekki eftir fórn hennar eða velti því fyrir mér af hverju hún var í mörg ár, alltaf í sömu tveimur gömlu pilsunum (þó að ég fengi ný skólaföt) eða hvers vegna, í lok dagsins, hún væri svo þreytt og lagði svo mkið kapp á að ég færi snemma að sofa.
Við kunnum að hafa andlitsblindu
Kannski hafið þið tekið eftir því að þessar tvær sögur eru í raun bara ein saga – í allt of mörg ár þjáðist ég í raun af andlitsblindu. Ég sá móður mína ekki sem raunverulega persónu. Ég sá reglurnar hennar en sá ekki kærleika hennar í þeim.
Ég segi ykkur þessar tvær sögur til að benda á eitt: Mig grunar að þið þekkið einhvern (kannski eruð þið einhver) sem þjáist af nokkurs konar andlegri andlitsblindu.
Þið gætuð átt erfitt með að sjá Guð sem ástkæran föður. Þið gætuð litið til himna og séð, ekki andlit kærleika og miskunnar, en þykkt þyrnigerði reglna sem þið verðið að komast í gegnum. Kannski trúið þið að Guð stjórni í himnaríki sínu, tali í gegnum spámenn sína og elskar systur ykkar, en veltið því fyrir ykkur undir niðri hvort hann elski ykkur.3 Kannski hafið þið fundið fyrir járnstönginni í hönd ykkar en ekki enn skynjað elsku Guðs sem leiðir að henni.4
Mig grunar að þið þekkið slíka einstaklinga, því í langan tíma var ég slík persóna – ég var með andlega andlitsblindu.
Ég hélt að líf mitt snérist um að fylgja reglum og uppfylla kröfur fyrir fræðilega staðla. Ég vissi að Guð elskaði ykkur fullkomlega en ég skynjaði það bara ekki sjálfur. Ég er hræddur um að ég hafi hugsað meira um að komast til himna en að vera með himneskum föður mínum.
Ef þið, eins og ég, getið stundum hreyft varirnar með söng en ekki „sungið söng hinnar endurleysandi elsku,“5 hvað getum við gert?
Svarið, eins og Russell M. Nelson forseti minnir okkur á, er ávallt Jesús.6 Það eru mjög góð tíðindi.
Herra, okkur langar að sjá Jesú
Hér er stutt vers úr Jóhannesi sem mér þykir vænt um. Það segir af hópi utanaðkomandi manna sem fóru til lærisveins með mikilvæga bón. „Herra,“ sögðu þeir „okkur langar að sjá Jesú.“7
Það er það sem okkur langar öll – okkur langar að sjá Jesú fyrir þann sem hann er og skynja elsku hans. Það ætti að vera ástæðan fyrir flestu því sem við gerum í kirkjunni og svo sannarlega á hverri sakramentissamkomu. Ef þið eruð einhvern tíma að velta því fyrir ykkur hvernig lexíu skuli kenna, hverskonar fund skuli skipuleggja og hvort gefast skuli bara upp á djáknunum og spila brennibolta, þá gætuð þið tekið þetta vers ykkur til fyrirmyndar: Mun þetta duga til þess að hjálpa fólki að sjá og elska Jesú? Ef ekki, reynið kannski eitthvað annað.
Þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég væri með andlega andlitsblindu, að ég sá reglur en ekki andlit miskunnar föðurins, vissi ég að það væri ekki kirkjunni að kenna. Það var ekki Guðs og það þýddi ekki að allt væri vonlaust, það er nokkuð sem við verðum öll að læra. Jafnvel fyrstu vitnin að upprisunni stóðu ítrekað frammi fyrir hinum upprisna Drottni og þekktu hann ekki. Allt frá gröfinni að ströndum Galíleuvatns sáu fyrstu fylgjendur hans „Jesú standa þar. En … [vissu] ekki að það var Jesús.“8 Þeir urðu að læra að þekkja hann og það verðum við einnig að gera.9
Kærleikur
Þegar ég gerði mér grein fyrir að ég væri með andlega andlitsblindu hóf ég að fylgja ráði Mormóns um að biðja „af hjartans mætti“ til að vera uppfylltur þeirri elsku sem lærisveinum hans er lofað – elsku minni til hans og elsku hans til mín – og að „sjá hann eins og hann er … [og] eiga þessa von;.“10 Ég bað þess í mörg ár að geta fylgt æðsta boðorðinu um að elska Guð og skynja „[æðsta sannleik ] allrar eilífðar, … að Guð elskar okkur af öllu sínu hjarta, mætti, huga og styrk.“11
Guðspjöllin
Ég las einnig og endurlas og endurlas guðspjöllin fjögur, í þetta sinn ekki til að draga fram reglur, heldur til að sjá hver hann er og hvað hann elskar. Og með tímanum var ég hrifinn burtu af fljóti kærleikans sem flæddi frá honum.
Í upphafi tilkynnti Jesú að hann hafi verið sendur til að „flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn.“12
Þetta var ekki bara gátlisti eða góð kynningarstarfsemi, þetta er birtingamynd kærleika hans.
Opnið guðspjöllinn af handahófi og á nærri hverri blaðsíðu sjáum við hann annast um fólk sem þjáist – félagslega, andlega og líkamlega. Hann snertir fólkið sem þótti mengað og óhreint13 og nærir þá hungruðu.14
Hver er eftirlætis sagan þín um Jesú? Mig grunar að hún sýni son Guðs umfaðma einhvern á jaðrinum eða veita honum von – hinn holdsveika,15 hinn fyrirlitna Samverja,16 hinn ásakaða og hneykslanlega syndara,17 eða hinn almenna óvin.18 Þess konar náð er undraverð.
Reynið að skrifa niður hvert skipti sem hann lofar, læknar eða borðar með utangarðsmanni og þið verðið bleklaus áður en þið klárið Lúkas.
Þegar ég sá þetta tók hjarta mitt kipp í kærleiksríkri viðurkenningu og ég fór að finna að hann kynni að elska mig. Eins og Nelson forseti kenndi: „Því meira sem þið lærið um frelsarann, því auðveldar reynist ykkur að treysta á miskunn hans, óendanlega elsku.“19 Því meira munið þið líka treysta og elska himneskan föður ykkar.
Öldungur Jeffrey R. Holland kenndi okkur að Jesús kom til að „sýna okkur … hver og hvað Guð okkar eilífi faðir er, hversu fullkomin tryggð hans er gagnvart börnum sínum á öllum öldum og í hverri þjóð.“20
Páll segir að Guð sé „faðir [allra] miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar.“21
Ef þið sjáið hann í öðru ljósi, haldið endilega áfram að reyna.
Sáttmálar og faðmur Guðs
Spámenn bjóða okkur að leita andlits hans.22 Ég tek þessu sem áminningu um að við tilbiðjum föður okkar, ekki einhverja uppskrift, og að við erum ekki búin fyrr en við sjáum Jesú sem andlit elsku föður okkar;23 og fylgjum honum, ekki bara reglum hans.24
Þegar spámenn og postular tala um sáttmála eru þeir ekki eins og þjálfarar að hrópa á okkur úr áhorfendastúkunum, að segja okkur að „gera betur!“ Þeir vilja að við sjáum að sáttmálar okkar fjalla í grunnatriðum um sambönd25 og geta verið lækning fyrir andlega andlitsblindu.26 Þeir eru ekki reglur til að vinna sér inn elsku hans, hann elskar ykkur þegar fullkomlega. Áskorun okkar er að skilja og laga líf okkar að þeirri elsku.27
Við reynum að horfa í gegnum sáttmála okkar eins og í gegnum glugga, að andliti miskunnar föðurins hinum megin.
Sáttmálar eru birtingamynd faðmlags hans.
Fljót elsku Guðs
Að lokum getum við lært að sjá hann með því að þjóna honum. „Hvernig á maður að þekkja húsbónda, sem hann hefur ekki þjónað?“28
Fyrir nokkrum árum fékk ég köllun sem ég treysti mér ekki í. Ég vaknaði órólegur – en með setningu í huganum sem ég hafði ekki heyrt áður; að þjóna í þessari kirkju er að standa í fljóti fylltri Guðs elsku til barna hans. Þessi kirkja er vinnuhópur fólks með haka og skóflur, að reyna að hjálpa til við að hreinsa rásina fyrir kærleiksfljót Guðs, svo það komist til barna hans í enda raðarinnar.
Hver sem þið eruð, hver sem fortíð ykkar er þá er pláss fyrir ykkur í þessari kirkju.29
Grípið haka og skóflu og gangið í lið okkar. Hjálpið til við að bera elsku hans til barna hans og eitthvað af henni mun skvettast á ykkur.30
Leitum ástríks andlits hans, sáttmálsfaðmlags hans og tökumst í hendur með börnum hans og saman munum við syngja „Nú Ísraels lausnari“:
Sem börnum í Síon
góð fregn er oss færð,
er fyllingu tímans oss ber.
Þar gleðjist sem eruð
af anda Guðs nærð,
að endurlausn brátt verður hér.31
Megum við leita ástríks andlits hans og vera síðan ker fyrir miskunn hans til barna hans.32 Í nafni Jesú Krists, amen.