Aðalráðstefna
Kraftur Jesú Krists í lífi okkar á hverjum degi
Aðalráðstefna október 2023


Kraftur Jesú Krists í lífi okkar á hverjum degi

Uppspretta styrks okkar er trú á Jesú Krist er við leitumst vísvitandi við að nálgast hann á hverjum einasta degi.

Kæru bræður og systur, þetta er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari dag heilögu. Hve dásamlegt það er að vera samansöfnuð sem kirkja hans. Ég er þakklátur fyrir áminningu Russells M. Nelson um að nota rétt nafn kirkju Drottins oft, svo að við megum muna hvers kirkja þetta er og kenningum hvers við fylgjum.

Nelson forseti sagði: „Á komandi tíð, munum við sjá stærstu birtingarmyndir um kraft frelsarans, sem heimurinn hefur nokkru sinni séð. … Hann [mun] úthella yfir hina heilögu óteljandi forréttindum, blessunum og kraftaverkum.“1

Einhver mestu forréttindi sem ég og eiginkona mín Renee eigum, eru að hitta hina heilögu þar sem við þjónum. Við heyrum sögur þeirra, verðum vitni að missi, syrgjum með þeim og gleðjumst yfir árangri þeirra. Við höfum orðið vitni að mörgum þeim blessunum og kraftaverkum sem frelsarinn hefur veitt hinum trúföstu. Við höfum hitt fólk sem hefur upplifað hið ómögulega, sem hefur þolað óhugsandi hluti.

Ljósmynd
José Batalla forseta og eiginkonu hans, systur Valeriu Batalla.
Ljósmynd
Flaviu Cruzado og föður hennar.

Við höfum séð birtingarmynd krafts frelsarans í ekkju sem missti eiginmann sinn þegar þau gengu erinda Drottins í Bólivíu.2 Við höfum séð hana í stúlku frá Argentínu sem datt fyrir lest og missti fótlegg, eingöngu vegna þess að einhver ætlaði að stela farsímanum hennar.3 Og í einstæðum föður hennar, sem þarf nú að taka upp þráðinn og styrkja dóttur sína eftir óútskýranlegt grimmdarverk sem þetta. Við höfum séð hana í fjölskyldunum sem misstu heimili sín og allar eigur í eldum í Síle aðeins tveimur dögum fyrir jólin árið 2022.4 Við höfum séð hana í þeim sem finna til eftir erfiðan skilnað og í þeim sem eru saklaus fórnarlömb ofbeldis.

Ljósmynd
Eldar í Síle.

Hvað gefur þeim kraftinn til að þrauka erfiða atburði? Hvað veitir þeim annað lag af styrk til að halda áfram þegar allt virðist glatað?

Ég hef komist að því að uppspretta þess styrks er trú á Jesú Krist er við leitumst vísvitandi við að nálgast hann á hverjum einasta degi.

Spámaðurinn Jakob kenndi: „Og hann kemur í heiminn til að frelsa alla menn, vilji þeir hlýða á rödd hans. Því að sjá, hann ber þjáningar allra manna, já, þjáningar hverrar lifandi veru, bæði karla, kvenna og barna, sem tilheyra fjölskyldu Adams.“5

Stundum gæti virst sem trú á Jesú Krist sé eitthvað ómögulegt, næstum ekki hægt að öðlast hana. Við gætum haldið að koma til Krists krefjist styrks, krafts og fullkomnunar sem við búum ekki yfir og að við getum hreinlega ekki fundið orku til að sinna öllu sem til þarf. En það sem ég hef lært af öllu þessu fólki er að trú á Jesú Krist er það sem veitir okkur orkuna til að hefja þessa vegferð. Stundum hugsum við ef til vill „ég þarf að laga líf mitt áður en ég kem til Jesú“ en sannleikurinn er sá að við komum til Jesú til að laga líf okkar með honum.

Við komum ekki til Jesú vegna þess að við erum fullkomin. Við komum til hans vegna þess að við erum ófullkomin og getum „fullkomnast“6 í honum.

Hvernig byrjum við að iðka örlitla trú á hverjum degi? Í mínu tilfelli, þá byrja ég að morgni dags: Þegar ég vakna, fer ég með bæn í stað þess að kíkja á símann. Jafnvel einfalda bæn. Svo les ég ritningarvers. Þetta hjálpar mér við að halda vikulegan sáttmála minn um að „hafa hann ávallt í huga“7 er ég meðtek sakramentið. Þegar ég hef daginn á bæn og ritningarversi, get ég „haft hann í huga“ þegar ég svo lít á símann minn. Ég get „haft hann í huga“ þegar ég á í vanda og ágreiningi og ég reyni að höndla málin eins og Jesús myndi gera.

Þegar ég „hef hann í huga“, finn ég þrá til að breytast, til þess að iðrast. Ég finn orkuuppsprettu til að halda sáttmála mína og ég finn áhrif heilags anda í lífi mínu „og held boðorð hans, sem hann hefur gefið [mér], svo að andi hans sé ætíð með [mér]“.8 Hún hjálpar mér að standa stöðugur allt til enda.9 Eða í það minnsta daginn á enda! Þá daga sem mér mistekst að hafa hann í huga allan daginn, er hann til staðar þrátt fyrir það, elskar mig og segir mér: „Allt er í lagi, þú getur reynt aftur á morgun.“

Þótt við séum ófullkomin í viðleitni okkar við að hafa hann í huga, þá mistekst ástríkum himneskum föður okkar aldrei að hafa okkur í huga.

Ein mistök sem við gerum oft er að halda að það að halda sáttmála, eða þau loforð sem við gefum Guði, séu einhvers konar viðskipti sem við eigum við hann: Ég hlýði og hann verndar mig frá því að nokkuð slæmt komi fyrir mig. Ég greiði tíund og mun aldrei missa starf eða að heimili mitt verði ekki eldi að bráð. En þegar hlutirnir gerast á óvæntan hátt, þá hrópum við til Drottins: „Hirðir þú ekki um að ég farist?“10

Sáttmálar okkar eru meira en viðskiptalegs eðlis; þeir eru umbreytandi.11 Sáttmála minna vegna, hlýt ég helgun, styrkjandi kraft Jesú Krists, sem gerir mér kleift að verða nýr einstaklingur, að fyrirgefa það sem virðist ófyrirgefanlegt, að sigrast á hinu ómögulega. Það að minnast Jesú Krists vísvitandi er alltaf kraftmikið; það veitir mér aukinn styrk að „halda boðorð hans, sem hann hefur gefið [mér]“.12 Það hjálpar mér að vera vingjarnlegri, að brosa að ástæðulausu, að vera friðflytjandi,13 að forðast ágreining, að láta Guð ríkja í lífi mínu.14

Þegar sársauki okkar eða sársauki einhvers sem við elskum er svo mikill að við getum ekki þolað hann, getur það að hafa Jesú Krist í huga og nálgast hann létt á byrðinni, mýkt hjartað og linað sársaukann. Þetta er krafturinn sem gerði föður mögulegt, umfram hans náttúrlegu getu, að styðja dóttur sína í gegnum þann líkamlega og andlega sársauka að missa fótlegginn.

Ljósmynd
Flavia Cruzado með öldungi Ulisses Soares.

Þegar öldungur Soares heimsótti Argentínu síðasta júní og spurði Flaviu út í slysið hrikalega, svaraði hún trúfastlega: „Ég var í uppnámi, fann fyrir biturð, reiði og hatri þegar [þetta gerðist]. Það hjálpaði mér að spyrja ekki ‚af hverju ég?‘ heldur ‚til hvers?‘ … Þetta var nokkuð sem færði mig nær öðrum og Drottni. … Í stað þess að fjarlægja mig frá honum varð ég að ríghalda í hann.“15

Nelson forseti kenndi: „Umbun þess að halda sáttmála við Guð, eru himneskur kraftur – kraftur sem styrkir okkur til að standast betur prófraunir okkar, freistingar og sorgir. … Þannig eiga þeir sem halda sáttmála, rétt á sérstakri hvíld.“16 Þetta er þess háttar hvíld og friður sem ég sá í augum ekkjunnar, þrátt fyrir sorgina sem fylgdi því að sakna eiginmanns síns á hverjum degi.

Ljósmynd
Stormur á Galíleuvatni

Nýja testamentið segir frá því þegar Jesús og lærisveinar hans voru á skipi:

„Þá brast á stormhrina mikil og féllu öldurnar inn í bátinn svo við lá að hann fyllti. …

Jesús … svaf á kodda. Þeir vöktu hann og sögðu við hann: ‚Meistari, hirðir þú ekki um að við förumst?‘

Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: ‚Þegi þú, haf hljótt um þig!‘ …

Og hann sagði við þá: ‚Hví eruð þið hræddir, hafið þið enn enga trú?‘“17

Þessi saga hefur alltaf heillað mig. Bjóst Drottinn við því að þeir notuðu trú sína til að draga úr storminum? Að ávíta vindinn? Trú á Jesú Krist er friðartilfinning til að standast storminn, vitandi að við munum ekki farast því hann er í bátnum með okkur.

Þetta er sú trú sem við sáum þegar við heimsóttum fjölskyldurnar eftir eldana í Síle. Heimili þeirra höfðu verið brennd til grunna; þau höfðu tapað öllu. Þegar við gengum um það sem hafði eitt sinn verið heimili þeirra og þau sögðu okkur frá upplifun sinni, skynjuðum við að við gengjum um á heilagri jörðu. Ein systirin sagði við eiginkonu mína: „Þegar ég sá að hús í nágrenninu brynnu, hafði ég það á tilfinningunni að húsið okkar myndi brenna, að við myndum tapa öllu. Í stað örvæntingar, fann ég fyrir óútskýranlegum friði. Á einhvern hátt, fann ég að allt myndi verða í lagi.“ Það að treysta Guði og halda sáttmála okkar við hann, færir okkur kraft í veikleikum okkar og huggun í sorg.

Ég er þakklátur fyrir tækifærið sem Renee og ég áttum að hitta þessa sérstöku heilögu, fyrir fjölmörg dæmi þeirra um trú, styrk og þrautseigju. Fyrir harmsögur og vonbrigði sem munu aldrei komast á forsíðu dagblaðanna eða dreifast á netinu. Fyrir myndirnar sem ekki eru teknar af þeim tárum sem er úthellt og bænum sem fluttar eru eftir missi eða erfiðan skilnað; fyrir innleggin sem eru aldrei búin til um óttann, sorgina og sársaukann sem verða þolanleg, þökk sé trú á Jesú Krist og friðþægingu hans. Þetta fólk styrkti mína eigin trú og ég er innilega þakklátur fyrir það.

Ég veit að þetta er kirkja Jesú Krists. Ég veit að hann er reiðubúinn að gæða okkur krafti sínum ef við nálgumst hann hvern einasta dag. Í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta