Aðalráðstefna
Auðmjúk að meðtaka og fylgja
Aðalráðstefna október 2023


10:40

Auðmjúk að meðtaka og fylgja

Auðmýkt er óumflýjanlegt skilyrði þess að vera reiðubúin að snúa aftur í návist Guðs.

Í fimmta kafla Alma er spurning lögð fram sem kallar á sjálfskoðun: „Gætuð þér sagt með sjálfum yður, ef dauðinn berði að dyrum á þessari stundu, að þér hafið verið nægilega auðmjúkir?“1 Þessi spurning gefur í skyn að auðmýkt sé óumflýjanlegt skilyrði fyrir okkur til að vera reiðubúin að snúa aftur í návist Guðs.

Við myndum öll vilja trúa því að við séum nægilega auðmjúk, en af sumri lífsreynslu verður okkur ljóst að hinn hrokafulli náttúrlegi karl eða kona er oft sprelllifandi innra með okkur.

Fyrir mörgum árum síðan, þegar dætur okkar tvær bjuggu enn heima, ákvað ég að sýna þeim og eiginkonu minni vinnueiningu þá sem ég bar ábyrgð á í fyrirtækinu sem ég vann fyrir.

Megin tilgangurin var samt að sýna þeim stað þar sem allir, ólíkt heimavið, myndu gera nákvæmlega það sem ég bað þá um að gera án þess að spyrja neins. Þegar við komum að aðalhliðinu, sem opnaðist vanalega sjálfkrafa þegar bíllinn minn nálgaðist, kom það mér á óvart að það opnaðist ekki. Í stað þess kom öryggisvörður, sem ég hafði aldrei áður séð í lífi mínu, að bílnum og bað mig um vinnuskilríki mín.

Ég sagði honum að ég þarfnaðist aldrei skilríkjanna til að keyra inná svæðið á bílnum mínum og spurði hann síðan þessarar dæmigerðu spurningar hrokafullrar manneskju: „Veistu hvern þú ert að tala við?“

Hann svaraði því: „Jaa, þar sem þú ert ekki með vinnuskilríkin þín get ég ekki vitað hver þú ert og á meðan ég er í þessu hliði færðu ekki leyfi til að fara inn á svæðið án tilhlýðilegra skilríkja.“

Ég hugsaði um að kíkja í baksýnisspegilinn til að athuga viðbrögð dætra minna en ég vissi að þær nutu hverrar sekúndu! Eiginkona mín við hlið mér hristi höfuðið í vanþóknun yfir hegðun minni. Síðasta hálmstrá mitt var þá að biðja öryggisvörðinn afsökunar á því hve illa ég hefði komið fram við hann. „Þér er fyrirgefið,“ sagði hann „en án vinnuskilríkja kemur þú ekki inn hér í dag!“

Ég keyrði mjög rólega heim til að ná í skilríkin, hafandi kannski lært dýrmæta lexíu: Þegar við veljum að vera ekki auðmjúk endum við á að vera auðmýkt.

Í Orðskviðunum lesum við: „Hroki mannsins lægir hann en sæmd bíður hins hógværa.“2 Til að þroska með okkur auðmýkt verðum við að skilja hvað það þýðir raunverulega í tengslum við fagnaðarerindið.

Sumt fólk ruglar því að vera auðmjúkur saman við hluti eins og til dæmis að vera fátækur. Það eru hins vegar margir sem eru fátækir og hrokafullir og margir sem eru ríkir og samt auðmjúkir. Aðrir sem eru mjög feimnir eða með lágt sjálfsmat kunna að líta út fyrir að vera auðmjúkir en eru stundum mjög hrokafullir hið innra.

Hvað er þá auðmýkt? Samkvæmt Boða fagnaðarerindi mitt, þá er það að „vera fús til að beygja sig undir vilja Drottins. … Það er að vera kennsluhæfur. … [Það] er mikilvægur hvati fyrir andlegan vöxt.“3

Það eru sannarlega mörg tækifæri fyrir okkur til að bæta okkur í þessum kristilega eiginleika. Mig langar fyrst að kanna hve auðmjúk við höfum verið, eða ættum að vera, við að fylgja leiðsögn spámanns okkar. Persónulegt skyndipróf fyrir okkur gæti verið:

  • Nefnum við fullt nafn kirkjunnar í öllum samskiptum okkar? Russell M. Nelson forseti sagði: „Að fjarlægja nafn Drottins úr kirkju Drottins, er mikill sigur fyrir Satan.“4

  • Erum við að leyfa Guði að ríkja í lífi okkar með því að meðtaka þetta einstaklega ákveðna boð spámanns okkar? „Í dag býð ég meðlimum okkar hvarvetna að vera leiðandi í því að láta af fordómafullri afstöðu og athöfnum.“5

  • Erum við sigrast á heiminum, að treysta kenningu Krists fram yfir heimspeki manna, eins og spámaður okkar kenndi?6

  • Höfum við orðið friðflytjendur, segjandi jákvæða hluti við og um fólk? Nelson forseti kenndi okkur á síðust aðalráðstefnu: „Sé eitthvað dyggðugt, fagurt, háleitt eða lofsvert“ sem við getum sagt um aðra manneskju – hvort heldur við hana sjálfa eða að baki hennar – þá ætti það að vera fyrirmynd okkar að samskiptum.“7

Þetta eru einfaldar en kraftmiklar leiðbeiningar. Munið að allt sem fólk Móse þurfti að gera til að læknast var að líta á eirorminn sem hann hafði lyft upp.8 En „vegna þess, hversu einfalt það var og auðvelt, fórust margir.“9

Á þessari ráðstefnu höfum við heyrt og munum enn heyra hin óþrjótandi ráð spámanna okkar og postula. Það er fullkomið tilefni til að þroska með okkur auðmýkt og leyfa að sterkar skoðanir okkar lúti fyrir jafnvel enn sterkari sannfæringu, um að Drottinn tali í gegnum þessa útvöldu leiðtoga.

Ofar öllu verðum við einnig að skilja og samþykkja að við getum ekki sigrast á áskorunum okkar eða uppfyllt möguleika okkar einungis af eigin rammleik. Hvataræðumenn, rithöfundar, þjálfarar og áhrifavaldar um allan heim, sérstaklega á hinum rafræna vettvangi, munu segja að allt byggist alfarið á okkur og gjörðum okkar. Heimurinn trúir á arm holdsins.

Í gegnum hið endurreista fagnaðarerindi höfum við hins vegar lært að við erum mjög háð góðvilja himnesks föður og friðþægingu frelsara okkar Jesú Krists því „vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört.“10 Þess vegna er það svo mikilvægt að gera og halda sáttmála við Guð, því með því fáum við fullan aðgang að lækningu, virkjun og fullkomnandi krafti Jesú Krists fyrir friðþægingu hans.

Vikulegar sakramentissamkomur og regluleg tilbeiðsla í musterinu til að taka þátt í helgiathöfnum og meðtaka og endurnýja sáttmála er tákn þess að við viðurkennum að við erum háð himneskum föður og frelsara okkar Jesú Kristi. Það mun bjóða krafti þeirra inn í líf okkar til að hjálpa okkur að takast á við öll okkar vandamál og að lokum uppfylla mæli sköpunar okkar.

Fyrir ekki löngu síðan var aftur reynt á auðmýkt mína og skilning á því hve háður ég er Drottni. Ég var í leigubíl á leiðinni út á flugvöll í stutt flug til staðar þar sem beið mín erfitt vandamál að leysa. Leigubílsstjórinn, sem ekki var meðlimur kirkjunnar, leit á mig í speglinum og sagði: „Ég get séð að þér líður ekki vel í dag!“

„Gastu séð það?“ spurði ég.

„Auðvitað,“ sagði hann. Þá sagði hann eitthvað í líkindum við: „Þú ert í raun með mjög neikvæða áru í kringum þig!“

Ég útskýrði fyrir honum að ég stæði frammi fyrir mjög erfiðu máli að leysa og þá spurði hann: „Hefðurðu gert allt sem í þínu valdi stendur til að leysa þetta?“

Ég svaraði að ég hefði gert allt sem ég gæti.

Hann sagði þá nokkuð sem ég hef aldrei gleymt: „Settu það þá í hendur Guðs og allt mun fara vel.“

Ég viðurkenni að ég freistaðist til að spyrja hann: „Veistu við hvern þú ert að tala?“ Það gerði ég samt ekki! Það sem ég gerði var að sýna auðmýkt frammi fyrir Drottni allan þann klukkutíma sem flugið tók og bað um guðlega aðstoð. Eftir að ég yfirgaf flugvélina komst ég að því að þessi erfiða staða var komin í lag og að nærvera mín var í raun ekki lengur nauðsynleg.

Bræður og systur, fyrirmæli, boð og loforð Drottins eru skýr og hughreystandi: „Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum.“11

Megum við vera nægilega auðmjúk til að fylgja leiðsögn spámanna okkar og samþykkja að einungis Guð og Jesús Kristur geta umbreytt okkur – í gegnum helgiathafnir og sáttmála sem við hljótum í kirkju hans – í bestu útgáfu af okkur sjálfum og dag einn gera okkur fullkomin í Kristi. Í nafni Jesú Krists, amen.