Aðalráðstefna
Guð þekkir og elskar ykkur
Aðalráðstefna október 2023


12:36

Guð þekkir og elskar ykkur

Hamingjuáætlun Guðs snýst alfarið um ykkur. Þið eruð ástkær börn hans og mikils virði.

Fyrir sex árum síðan var fjölskylda okkar á ferð um nótt fyrir utan Oxford. Eins of svo oft með börn þurftum við að stoppa, svo við fundum þjónustusvæði með fjölda búða og veitingastaða. Með nákvæmni fórum við út úr bílnum, nýttum þjónustuna og flykktumst inn aftur til að halda ferð okkar áfram.

Fimmtán mínútum síðar spurði elsti sonur okkar markverðrar spurningar: „Hvað er Jasper?“ Jasper situr einn aftast í bílnum. Við höfðum reiknað með því að hann hefði sofnað eða væri að fela sig eða stríða okkur.

Þegar bróðir hans kannaði aftasta hluta bílsins vandlega, uppgötvuðum við að fimm ára sonur okkar var ekki þar. Hjörtu okkar fylltust ótta. Þegar við snérum til baka til þjónustusvæðisins báðum við himneskan föður að tryggja öryggi hans. Við hringdum í lögregluna og uppfræddum þá um stöðuna.

Þegar við komum áhyggjufull á staðinn, nærri 40 mínútum seinna, komum við að tveimur lögreglubílum á bílastæðinu, með ljósin blikkandi. Inni í öðrum þeirra var Jasper að leika sér við takkana. Ég mun aldrei gleyma gleðinni sem við upplifðum við endurfundina.

Margar af dæmisögum frelsarans beina athygli sinni að samansöfnun, endurreisn eða vinnu að því að finna það sem hefur dreifst eða týnst. Meðal þessara eru dæmisögurnar um týnda sauðinn, týndu drökmuna og týnda soninn.1

Þegar þessi viðburður með Jasper hefur spilað í huga mínum í gegnum árin, hef ég hugleitt hið guðlega auðkenni og mikilvægi barna Guðs, hinn endurleysandi kraft Jesú Krists og fullkomna elsku föður á himnum sem þekkir ykkur og mig. Ég vonast til að bera vitni um þennan sannleik í dag.

I. Börn Guðs

Lífið er krefjandi. Margir upplifa það að vera yfirbugaðir, aleinir, einangraðir og uppgefnir. Þegar aðstæður eru erfiðar finnst okkur kannski að við séum týnd eða höfum orðið eftir. Að vita að við erum öll börn Guðs og meðlimir í eilífri fjölskyldu hans, mun endurreisa tilfinningu þess að tilheyra og hafa tilgang.2

M. Russell Ballard forseti miðlaði: „Það er eitt mikilvægt auðkenni sem við eigum sameiginlegt nú og að eilífu. … Það er að þið eruð og hafið ávallt verið synir og dætur Guðs. … Skilningur á þessum sannleika – að virkilega skilja og fagna því – breytir lífi okkar.“3

Ekki misskilja eða vanmeta hve mikilvæg þið eruð himneskum föður ykkar. Þið eruð ekki tilviljunarkennd aukaafurð náttúrunnar, alheims-munaðarleysingjar eða afleiðing efnis plús tíma plús tilviljunar. Þar sem er hönnun, er hönnuður.

Líf ykkar hefur þýðingu og tilgang. Áframhaldandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists færir ljós og skilning varðandi guðlega sjálfsmynd ykkar. Þið eruð ástkær börn himnesks föður. Þið eruð viðfangsefni allra þessara dæmisagna og kenninga. Guð elskar ykkur það mikið að hann sendi son sinn til að lækna, bjarga og endurleysa ykkur.4

Jesús bar kennsl á guðlegt eðli og eilíft gildi sérhvers einstaklings.5 Hann útskýrði hvernig þessi tvö miklu boðorð um að elska Guð og náunga okkar eru grundvöllur allra borðorða Guðs.6 Ein af okkar guðlegu ábyrgðum er að annast hina þurfandi.7 Þetta er ástæða þess að við, sem lærisveinar Jesú Krists, „[berum] hver annars byrðar, … [syrgjum] með syrgjendum … og [huggum] þá, sem huggunar þarfnast“.8

Trúarbrögð eru ekki aðeins um samband okkar við Guð, þau eru einnig um samband okkar við hvert annað. Öldungur Jeffrey R. Holland útskýrði að enska orðið religion [trúarbrögð] kemur úr latneska orðinu religare, sem þýðir „að binda“ eða frekar „að endur-binda“. Þar af leiðandi eru „sönn trúarbrögð bandið sem bindur okkur Guði og hvert öðru“.9

Það sem skiptir virkilega máli er hvernig við komum fram við hvert annað. Russell M. Nelson forseti kennir: „Boðskapur frelsarans er skýr: Sannir lærisveinar hans byggja upp, lyfta, uppörva, sannfæra og innblása.“10 Þetta er jafnvel enn mikilvægara þegar samferðamenn okkar upplifa sig týnda, eina, gleymda eða fjarlægða.

Við þurfum ekki að líta langt til að finna fólk sem á í erfiðleikum. Við getum byrjað með því að hjálpa einhverjum í eigin fjölskyldu, söfnuði eða samfélagi. Við getum einnig leitast við að létta þjáningar hinna 700 milljón manna sem búa við örbirgð11 eða 100 milljón manna sem neyðast til að yfirgefa heimili sín vegna ofsókna, átaka og ofbeldis byggt á auðkenni.12 Jesús Kristur er hið fullkomna fordæmi þess að annast hina þurfandi – hina hungruðu, hinn ókunnuga, sjúka, fátæka eða þann sem er í fangelsi. Verk hans er okkar verk.

Öldungur Gerrit W. Gong kennir að „við finnum oft veginn til Guðs saman“.13 Sem slíkar ættu deildir okkar að vera athvarf fyrir öll börn Guðs. Erum við óvirk í starfsemi okkar í kirkjunni eða erum við virk í að skapa samfélög sem eiga þann tilgang að tilbiðja, minnast Krists og þjóna hvert öðru?14 Við getum hlýtt ráðum Nelsons forseta um að dæma minna, elska meira og sýna öðrum hinn hreina kærleika Jesú Krists með orðum okkar og gjörðum.15

II. Endurleysandi kraftur Jesú Krists

Friðþæging Jesú Krists er æðsta tjáning elsku himnesks föður okkar til barna hans.16 Enska orðið atonement [gera eitt] lýsir því að „sameina“ þann sem sem hefur verið fráhverfur eða aðskilinn.

Hlutverk frelsarans var að veita bæði leið til að snúa aftur til himnesks föður og huggun á leiðinni. Vegna reynslu sinnar veit frelsarinn hvernig best að styrkja okkur í gegnum áskoranir lífsins.17 Gerið ykkur grein fyrir því að Kristur er bjargvættur okkar og sá sem græðir sálir okkar.

Þegar við iðkum trú, þá hjálpar hann okkur að sækja fram í gegnum erfiðleika. Hann heldur áfram að leggja fram ástrík og miskunnarrík boð sín:

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér … og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“18

Myndhverfingin um okið er kröftug. Eins og Howard W. Hunter forseti útskýrði: „Okið var verkfæri … sem leyfði styrkleika annars dýrs að tengjast og parast við framlag staks dýrs, sem deildi og létti hinu mikla erfiði [verksins sem verið var að vinna]. Byrði sem var yfirþyrmandi eða jafnvel vonlaus fyrir einn að bera, gat verið borin af tveimur dýrum bundnum saman með sameinginlegu oki á jafnan og þægilegan hátt.“19

Nelson forseti kenndi: „Þið komið til Krists til að tengja ok ykkar honum og mætti hans, svo þið dragið ekki byrðar lífsins einsömul. Þið eruð að draga ok lífsins með frelsara og lausnara heimsins.“20

Hvernig leggjum við ok á okkur með frelsaranum eða bindumst honum? Öldungur David A. Bednar útskýrir:

„Að gera og halda sáttmála, er að leggja okið á okkur með Drottni Jesú Kristi við hlið okkar. Mergur málsins er sá að frelsarinn er að gefa okkur boð um að treysta sér og draga með sér. …

Við erum ekki ein og þurfum aldrei að verða ein.“21

Til þeirra sem hlaðin eru þunga, týnd, ráðvillt: Þið þurfið ekki að gera þetta ein.22 Fyrir friðþægingu Krists og helgiathafnir hans getið þið verið í tengd í eyki með honum. Hann mun á kærleiksríkan máta veita styrkinn og lækninguna sem þið þarfnist til að takast á við ferðalagið sem fram undan er. Hann er athvarfið frá stormum okkar.23

III. Elska himnesks föður

Svo þið vitið það, þá er Jasper hnyttinn, ástúðlegur, vel gefinn og fjörkálfur. Lykillinn að þessari sögu er samt að hann er minn. Hann er sonur minn og ég elska hann meira en hann mun nokkru sinni vita. Ef ófullkominn, jarðneskur faðir hefur slíkar tilfinningar til barns síns, getið þið þá ímyndað ykkur hve fullkomlega, dýrðlega, ástúðlega himneskur faðir elskar ykkur?

Til minna kæru vina í upprennandi kynslóðum, Z-kynslóðinni og Alfa-kynslóðinni, verið meðvituð um að trú krefst verka.24 Við lifum á tímum þar sem margir telja að „sjón sé sögu ríkari“. Trú getur verið áskorun og krefst vals. En bænum er svarað.25 Hægt er að skynja svörin.26 Sumt af því sem er raunverulegast í lífinu er ekki sjáanlegt, það er skynjað, vitað og upplifað. Það er líka raunverulegt.

Jesús Kristur vill að þið þekkið og hafið samband við himneskan föður ykkar.27 Hann kenndi: „Hver á meðal ykkar, á son, sem úti er og segir: Faðir, opna hús þitt svo ég megi koma inn og eta með þér. Mun svarið ekki vera: Kom inn sonur minn, því mitt er þitt og þitt er mitt?“28 Getið þið hugsað ykkur persónulegri og ástúðlegri ímynd af Guði, eilífum föður?

Þið eruð börn hans. Ef ykkur finnst þið vera týnd, ef þið hafið spurningar eða skortir visku, ef þið eigið erfitt með aðstæður ykkar eða glímið við andlegan ósamhljóm, snúið ykkur til hans. Biðjið til hans fyrir huggun, elsku, svör og leiðsögn. Hver sem þörfin er og hvar sem þið eruð, úthellið úr hjörtum ykkar til himnesks föður ykkar. Sum ykkar gætu viljað fylgja boði Nelsons forseta og spurt „hvort hann sé í raun til – hvort hann kannist við ykkur. Spyrjið hvað honum finnist um ykkur. Leggið síðan við hlustir“.29

Kæru bræður og systur:

  • Þekkið föður ykkar á himnum. Hann er fullkominn og ástríkur.

  • Verið kunnug því hver Jesús Kristur er.30 Hann er frelsari okkar og lausnari. Tengið ykkur sjálf og ástvini ykkar honum.

  • Þekkið líka hver þið eruð. Þekkið ykkar raunverulega auðkenni. Hamingjuáætlun Guðs snýst alfarið um ykkur. Þið eruð ástkær börn hans og mikils virði. Hann þekkir og elskar ykkur.

Um þennan einfalda en grundvallarsannleika vitna ég, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Lúkas 15:4–32.

  2. Sjá Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023), 1.

  3. M. Russell Ballard, „Children of Heavenly Father“ (Trúarsamkoma í Brigham Young-háskóla, 3. mars 2020), speeches.byu.edu.

  4. Sjá Jóhannes 3:16; Mósía 15:1; 3. Nefí 17:6–10.

  5. Sjá Boða fagnaðarerindi mitt, 3. kafla.

  6. Sjá Matteus 22:36–40.

  7. Sjá Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 1.2, Gospel Library.

  8. Mósía 18:8, 9.

  9. Jeffrey R. Holland, „Religion: Bound by Loving Ties“ (Trúarsamkoma í Brigham Young-háskóla, 16. ágúst 2016), speeches.byu.edu.

  10. Sjá Russell M. Nelson, „Þörf er á friðflytjendum,“ aðalráðstefna, apríl 2023.

  11. „Fjöldi fólks sem býr við örbirgð jókst frá 70 milljónum í rúmlega 700 milljónir manna“ („Poverty,“ 30. nóv. 2022, Alþjóðabankinn, worldbank.org).

  12. „Fleiri en 100 milljónir manna hafa verið hraktir frá heimilum sínum með valdi“ („Refugee Data Finder,“ 23. maí 2022, Flóttamannastofunun Sameinuðu þjóðanna, unhcr.org).

  13. Gerrit W. Gong, „Rúm í gistihúsinu,“ aðalráðstefna, apríl 2021.

  14. Sjá Almenn handbók, 1.3.7, Gospel Library.

  15. Sjá Russell M. Nelson, „Þörf er á friðflytjendum.“

  16. Sjá Jóhannes 3:16.

  17. Sjá Alma 7:11–12; Kenning og sáttmálar 122:8.

  18. Matteus 11:28–29.

  19. Howard W. Hunter, „Come unto Me,“ Ensign, nóv. 1990, 18.

  20. The Mission and Ministry of the Savior: A Discussion with Elder Russell M. Nelson,“ Ensign, júní 2005, 18.

  21. David A. Bednar, „Bera byrðar þeirra léttilega,“ aðalráðstefna, apríl 2014.

  22. Camille N. Johnson forseti sagði: „Bræður og systur, ég get ekki gert þetta alein og ég þarf þess ekki og ég mun ekki gera það. Ég vel að vera bundin frelsara mínum Jesú Kristi með sáttmálum sem ég hef gert við Guð, ‚fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir‘ [Filippíbréfið 4:13]“ („Jesús Kristur er líkn,“ aðalráðstefna, apríl 2023).

  23. Sjá Sálmarnir 62:7–9.

  24. Sjá Jakobsbréfið 2:17.

  25. Sjá Matteus 7:7–8; Jakobsbréfið 1:5.

  26. „Hjálparinn, andinn heilagi (Jóhannes 14:26). Líkt og huggandi rödd ástríks foreldris getur róað grátandi barn, getur hin hljóða rödd andans róað og hrakið burtu ótta ykkar, áhyggjur lífsins og huggað í sorg ykkar. Heilagur andi getur fyllt ykkur ‚von og fullkominni elsku‘ og ‚kennt ykkur hina friðsælu hluti ríkisins‘ (Moróní 8:26; Kenning og sáttmálar 36:2)“ (Topics and Questions, „Holy Ghost,“ Gospel Library).

    Heilagur andi „vitnar um föðurinn og soninn“ (2. Nefí 31:18). Það er einungis fyrir kraft heilags anda sem við getum meðtekið sannan vitnisburð um Guð föðurinn og son hans Jesú Krist.

    „Heilagur andi ber vitni um sannleikann og það er í gegnum kraft hans að við getum ‚fengið að vita sannleiksgildi allra hluta‘ (Moróní 10:5)“ („The Holy Ghost Testifies of Truth,“ Liahona, mar. 2010, 14, 15).

    „Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.“ (Jóhannes 15:26).

  27. Sjá Jóhannes 14:6–7; 17:3.

  28. Þýðing Josephs Smith, Matteus 7:17 (KirkjaJesuKrists.is, Kirkjuefni > Námsefni og kennslugögn > Ritningar > Námshjálp).

  29. Russell M. Nelson, „Kom, fylg mér“,“ aðalráðstefna, apríl 2019.

  30. Sjá Markús 8:27–29.