Aðalráðstefna
Kærleikur talar hér
Aðalráðstefna október 2023


13:14

Kærleikur talar hér

Megi hvert okkar læra að tala og hlusta á kærleika hans hér, í hjörtum okkar og á heimilum okkar og í trúarköllunum okkar, viðburðum og þjónustu.

Börnin okkar í Barnafélaginu syngja: „Kærleikur talar hér.“1

Ég gaf eitt sinn systur Gong lítið hálsmen. Ég lét áletra það punktur-punktur, punktur-punktur, punktur-punktur-strik. Þeir sem þekkja morse-kóða kannast við stafina I, I, U. En ég lét annan kóða fylgja með. Á Mandarín-kínversku þýðir „ai“ „elskar.“ Svo, afkóðuð voru skilaboðin: „Ég elska þig.“ Elsku Susan: „I, ai (爱), U.“

Við tölum kærleika á mörgum tungumálum. Mér er sagt að mannkynsfjölskyldan tali 7.168 virk tungumál.2 Í kirkjunni tölum við 575 skjalfest aðalmál, með mörgum mállýskum. Við miðlum líka tilgangi, hrynjanda og tilfinningum með list, tónlist, dansi, rökvísum táknum og ytri og innri persónulegri tjáningu.3

Í dag skulum við tala um þrjú trúarleg tungumál kærleikans: Tungumál hlýju og lotningar, tungumál þjónustu og fórnar og tungumál sáttmálans.

Í fyrsta lagi er það hið trúarlega tungumál hlýju og lotningar.

Með hlýju og lotningu spyr systir Gong börn og ungmenni: „Hvernig vitið þið að foreldrar ykkar og fjölskylda elska ykkur?“

Í Gvatemala segja börnin: „Foreldrar mínir leggja hart að sér við að brauðfæða fjölskyldu okkar.“ Í Norður-Ameríku segja börnin: „Foreldrar mínir lesa fyrir mig sögur og setja mig í rúmið á kvöldin. Í Landinu helga segja börnin: „Foreldrar mínir vernda mig.“ Í Gana í Vestur-Afríku segja börnin: „Foreldrar mínir hjálpa mér með barna- og unglingamarkmiðin mín.“

Eitt barnið sagði: „Þótt mamma sé mjög þreytt eftir að hafa unnið allan daginn, kemur hún út til að leika við mig.“ Móðir hennar grét þegar hún heyrði að daglegar fórnir hennar skiptu máli. Stúlka nokkur sagði: „Þótt ég og mamma séum stundum ósammála, treysti ég mömmu minni.“ Móðir hennar tárfelldi líka.

Stundum þurfum við að vita að kærleikurinn sem talaður er hér sé heyrður og metin.

Með hlýju og lotningu leggur sakramenti okkar og aðrar samkomur áherslu á Jesú Krist. Við tölum af lotningu um friðþægingu Jesú Krists, persónulega og raunverulega, ekki aðeins um friðþægingu á óhlutbundnu máli. Við köllum hina endurreistu kirkju Jesú Krists hans nafni: Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við notum lotningarfullt bænamál þegar við ávörpum himneskan föður og kærleiksríka virðingu þegar við tölum við hvert annað. Þegar við berum kennsl á að Jesús Kristur er hjarta musterissáttmála okkar, vísum við síður til þess að við „förum í musterið“ og meira til þess „að við komum til Jesú Krists í húsi Drottins.“ Hver sáttmáli hvíslar: „Kærleikur talar hér.“

Nýir meðlimir segja að oft þurfi að afkóða orðaforða kirkjunnar. Við hlæjum við tilhugsunina um að „stake house [stikuhús]“ gæti þýtt góður nautakjötskvöldverður; „ward building [deildabygging]“ gæti vísað til sjúkrahúss; „opening exercises [upphafsæfingar]“ gætu falið í sér að gera höfuð, herðar, hné og tær á bílastæði kirkjunnar. Við skulum þó vera skilningsrík og góð þegar við lærum saman hið nýja tungumál kærleikans. Nýjum trúskiptingi í kirkjunni var sagt að pilsið hennar væri of stutt. Í stað þess að móðgast svaraði hún í raun: „Hjarta mitt snerist til trúar; sýndu þolinmæði þar til pilsið hefur náð því.“4

Orðin sem við notum geta dregið okkur nær eða fjarlægt okkur frá öðrum kristnum mönnum og vinum. Stundum tölum við um trúboðstarf, musterisstarf, mannúðar- og velferðarstarf á þann hátt að aðrir gætu haldið að við teldum okkur vinna þetta sjálf. Við skulum alltaf tala með hlýju og lotningarfullu þakklæti fyrir verk Guðs og dýrð og verðleika, miskunn og náð Jesú Krists og friðþægingarfórn hans.5

Í öðru lagi er það tungumál fagnaðarerindisins varðandi þjónustu og fórn.

Þegar við komum aftur saman í hverri viku til að heiðra og fagna fagnaðarerindi Jesú Krists og hvíldardeginum, getum við í sakramentissáttmála okkar tjáð skuldbindingu okkar við Jesú Krist og hvert annað gegnum kirkjukallanir okkar, vináttu, félagslíf og þjónustu.

Þegar ég spyr kirkjuleiðtoga heimasvæða um áhyggjumál þeirra, segja bæði bræður og systur: „Sumir meðlimir okkar vilja ekki taka á móti kirkjuköllunum.“ Köllun til að þjóna Drottni og hvert öðru í kirkju hans veitir tækifæri til aukinnar samúðar, hæfni og auðmýktar. Þegar við erum sett í embætti, getum við hlotið innblástur Drottins til að lyfta og styrkja aðra og okkur sjálf. Auðvitað geta breyttar aðstæður og árstíðir í lífi okkar haft áhrif á getu okkar til að þjóna, en vonandi aldrei þrá okkar. Við segjum með Benjamín konungi: „Ætti ég eitthvað til, þá mundi ég gefa“6 og bjóða allt sem við getum.

Stiku- og deildarleiðtogar, við skulum leggja okkar af mörkum. Þegar við köllum (og leysum af) bræður og systur til að þjóna í kirkju Drottins, skulum við gera það með virðingu og innblæstri. Hjálpið hverjum og einum að finnast hann metinn og að hann geti náð árangri. Vinsamlega ráðfærið ykkur við og hlustið á systurleiðtoga. Megum við hafa hugfast, eins og J. Reuben Clark forseti kenndi, í kirkju Drottins þjónum við þar sem við erum kölluð, „sem við hvorki sækjumst eftir né höfnum.“7

Þegar ég og systir Gong giftum okkur, ráðlagði öldungur David B. Haight okkur: „Hafið alltaf köllun í kirkjunni. Einkum þegar lífið er annasamt,“ sagði hann, „því þið þurfið að finna kærleika Drottins til þeirra sem þið þjónið og til ykkar sjálfra þegar þið þjónið.“ Ég lofa að kærleikur mun talaður hér, þar og alls staðar, þegar við svörum kirkjuleiðtogum með jái um að þjóna Drottni í kirkju hans með anda hans og fyrir sáttmála okkar.

Hin endurreista kirkja Drottins getur verið uppeldisstöð fyrir Síonarsamfélag. Þegar við tilbiðjum, þjónum, njótum og lærum kærleika hans saman, rótfestum við hvert annað í fagnaðarerindi hans. Við erum kannski ósammála um stjórnmálaleg eða samfélagsleg málefni en finnum samhug þegar við syngjum saman í deilarkórnum. Við hlúum að samböndum og berjumst gegn einangrun, þar sem við þjónum reglubundið af kærleika á heimilum hvers annars og í samfélaginu.

Í heimsóknum með stikuforsetum til meðlima skynja ég djúpa elsku þeirra til meðlima í öllum aðstæðum. Þegar við ókum framhjá heimilum meðlima í stikunni hans, benti einn stikuforsetinn á að hvort sem við búum á heimili með sundlaug eða heimili með moldargólfi, þá er kirkjuþjónusta forréttindi sem oft felur í sér fórn. Hann sagði þó viturlega að þegar við þjónum og fórnum saman í fagnaðarerindinu, verða aðfinnslurnar færri og friðurinn meiri. Þegar við leyfum það, mun Jesús Kristur hjálpa okkur að láta kærleika tala hér.

Í sumar hitti fjölskylda okkar dásamlega kirkjumeðlimi og vini í Loughborough og Oxford á Englandi. Þeir innihaldsríku samfundir minntu mig á hvernig félags- og þjónustustarf deilda getur byggt upp ný og varanleg trúarbönd. Um nokkurt skeið hef ég fundið að víða í kirkjunni gætu nokkrir fleiri deildarviðburðir, sem auðvitað væru skipulagðir og útfærðir í trúarlegum tilgangi, tengt okkur saman með enn meiri aðildartilfinningu og einingu.

Einn innblásinn viðburðastjóri deildar endurnærir einstaklinga og samfélag heilagra. Vel skipulagðir viðburðir þeirra stuðla að því að öllum finnst þeir tilheyra og vera metnir er þeim er boðið að gegna mikilvægu hlutverki. Slíkir viðburðir brúa aldur og bakgrunn, skapa varanlegar minningar og hægt er að framkvæma þá með litlum sem engum tilkostnaði. Ánægjulegir trúarviðburðir fela líka í sér að nágrönnum og vinum er boðið.

Félagslíf og þjónusta fara oft saman. Ungt fullorðið fólk veit að ef manni langar virkilega til að kynnast einhverjum, þá málar maður standandi saman í stiga í þjónustuverkefni.

Ung fólk málandi í þjónustuverkefni.

Auðvitað er enginn einstaklingur og engin fjölskylda fullkomin. Við þurfum öll hjálp til að láta kærleika tala betur hér. „Fullkomin elska rekur út óttann.“8 Trú, þjónusta og fórn halda okkur fjarri okkur sjálfum og nær frelsara okkar. Því samúðarfyllri, trúfastari og óeigingjarnari sem þjónusta okkar og fórn eru í honum, því betur fáum við skilið hina óendanlegu og eilífu friðþægjandi samúð og náð sem Jesús Kristur hefur fyrir okkur.

Og það leiðir okkur að tungumáli fagnaðarerindisins um sáttmálsaðild.

Við lifum í sjálfmiðuðum heimi. Það er svo mikið um: „Ég vel mig.“ Það er eins og við teljum að við vitum best um eigin hagsmuni og hvernig á að ávinna sér þá.

En endanlega er það ekki satt. Jesús Kristur persónugerir þennan áhrifamikla sígilda sannleika:

„Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það.

Hvað stoðar það manninn [eða konuna] að eignast allan heiminn og glata sálu sinni?“9

Jesús Kristur býður upp á betri leið – sambönd byggð á guðlegum sáttmála, sterkari en strengir dauðans. Sáttmálsaðild með Guði og hvert öðru getur læknað og helgað okkar kærustu sambönd. Í raun þá þekkir hann okkur betur og elskar okkur meira en við þekkjum og elskum okkur sjálf. Í raun getum við orðið meira en við erum þegar við gerum sáttmála um alla okkar tilveru. Kraftur og viska Guðs geta blessað okkur með sérhverri góðri gjöf, á hans tíma og á hans hátt.

Gervigreind (AI) hefur tekið miklum framförum í tungumálaþýðingum. Þeir dagar eru að baki þegar tölva þýddi kannski hið venjubundna orðatak „andinn er fús, en holdið er veikt“ í „vínið er gott, en kjötið er spillt.“ Athyglisvert er að yfirgripsmikil og endurtekin dæmi úr tungumáli kenna tölvu tungumál á skilvirkari hátt en að kenna tölvu málfræðireglur.

Á sama hátt geta okkar eigin endurteknu persónulegu upplifanir verið besta andlega leiðin til að læra tungumál fagnaðarerindisins hlýju og lotningu, þjónustu og fórnfýsi og sáttmálsaðild.

Svo hvar og hvernig talar Jesús Kristur til okkar af kærleika?

Hvar og hvernig heyrum við að kærleikur hans er talaður hér?

Megi hvert okkar læra að tala og hlusta á kærleika hans hér, í hjörtum okkar og á heimilum okkar og í trúarköllunum okkar, viðburðum og þjónustu.

Í áætlun Guðs mun hvert okkar einhvern daginn fara úr þessu lífi yfir í það næsta. Þegar við sjáum Drottin, sé ég fyrir mér að hann segi leiðbeinandi og lofandi: „Kærleikur minn er talaður hér.“ Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.