Hversu mikil skal gleði yðar verða
Ég býð ykkur nú að hafa með ykkur kunnáttu ykkar, ásamt hinum varðveitta vitnisburði ykkar, og fara í trúboð.
Kæru bræður og systur, hugsanir mínar í dag snúast um samansöfnun Ísraels, það sem Russell M. Nelson forseti sagði vera „það mikilvægasta sem gerist á jörðinni í dag. Ekkert annað er sambærilegt að umfangi, ekkert annað er sambærilegt að mikilvægi og ekkert annað er sambærilegt að mikilfengleika“.1
Samansöfnunin er fullkomin viðurkenning á því að „verðmæti sálna er mikið í augum Guðs“.2 Svo einfalt er það. Við erum að safna saman börnum Guðs á þessum síðustu dögum til að þau geti notið „mikilla blessana“3 og fyrirheita um „auðæfi eilífðarinnar“.4 Af því leiðir að til að safna safna saman Ísrael þurfum við trúboða – mun fleiri en nú eru að þjóna.5 Í dag tala ég til hinna mörgu eldri borgara í kirkjunni sem gætu þjónað sem trúboðar. Drottinn þarfnast ykkar. Við þörfnumst ykkar í New York og Chicago, Ástralíu og Afríku, Tælandi og Mexíkó og alls staðar þar á milli.
Leyfið mér að fara með ykkur aftur til ársins 2015. Ég var nýkallaður meðlimur Tólfpostulasveitarinnar. Ein af þeim dásamlegu skyldum sem við berum sem postular er að úthluta trúboðum starfsakri þeirra. Ég hafði tekið þátt í ferlinu sem einn af hinum Sjötíu,6 en núna, sem postuli, fann ég fyrir öllum þunga verkefnisins. Í bænaranda hóf ég að senda fjölda ungra öldunga og systra, hvert af öðru, í trúboð um allan heim. Ég sneri mér síðan að eldri hjónunum. Tíu voru á listanum. Ekki mjög mörg. Ég var hissa og spurði félaga minn í trúboðsdeildinni: „Hvað þurfum við marga í þessari viku til að uppfylla beiðnirnar?“
Hann svaraði: „300.“
Þessi alvarlega stund hefur fylgt mér síðan: 10 hjón til að fylla 300 beiðnir.
Russell M. Nelson forseti hefur hvatt hjón til að „[krjúpa] saman og [spyrja] himneskan föður hvort þetta sé rétti tíminn til að þjóna saman í trúboði“.7 Af öllum hæfniskröfum, sagði hann að þráin til að þjóna gæti verið þeim mikilvægust“.8
Eins og ritningarnar segja: „Ef þér þráið þess vegna að þjóna Guði, eruð þér kallaðir til verksins.“9 Það verk snýst að öllu leyti um lögmál uppskeru. Við lesum í Jóhannesi: „Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker.“10
Ég hef séð lögmál uppskeru uppfyllast í minni eigin fjölskyldu.
Fyrir nokkrum árum var ég í heimsókn hjá fjölskyldu þegar biskupinn bað mig að ljúka sakramentissamkomunni.11 Þegar ég var á leið niður af pallinum kom kona til mín með sjö börn sín og kynnti sig sem systur Rebeccu Guzman.
Hún spurði: „Öldungur Rasband, þekkir þú Rulon og Verdu Rasband?“
Ég ljómaði og svaraði: „Þau eru foreldrar mínir.“
Þið getið séð hvert þetta stefnir. Með leyfi Rebeccu, sem er hér með fjölskyldu sinni í Ráðstefnuhöllinni, segi ég sögu fjölskyldu hennar.12
Foreldrar mínir, öldungur Rulon og systir Verda Rasband, þjónuðu sem eldri hjón í Fort Lauderdale-trúboðinu í Flórída.13 Þau voru í trúboði og að guðlegri leiðsögn knúðu þau að dyrum á heimili Rebeccu. Hún var bara unglingur og elskaði að hlusta á tónlist Osmond fjölskyldunnar, sérstaklega vinar míns Donnys – sem er meðal okkar hér í dag.14 Hún hafði hlustað á fjölmiðlaviðtöl þeirra og komist að því að þau væru meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Henni fannst eitthvað vera öðruvísi við þau og taldi það geta verið trú þeirra og Rebecca varði tveimur árum við að rannsaka trú kirkjunnar á skólabókasafninu. Þegar síðan góðlátleg hjón knúðu dyra hjá fjölskyldu hennar og kynntu sig sem Síðari daga heilaga trúboða, rifjaðist það upp fyrir henni.
„Móðir mín sagði mér að losa mig við þau,“ skrifaði Rebecca síðar, „en hjarta mitt sagði ,nei‘. Ég horfði á andlit þeirra og fann fyrir svo mikilli hlýju og elsku. Minningin vekur enn tár í augu og djúpar tilfinningar í hjartanu.“15
Rebecca bauð þeim inn og trúboðsforeldrar mínir miðluðu henni boðskap og tveimur yngri systrum hennar og móður hennar, þrátt fyrir andmæli hennar.
Rebecca lýsti fyrir mér: „Báðir foreldrar þínir útskýrðu dásamlega allar spurningar sem við höfðum. Ég sé enn andlit þeirra eins og það væri ljós í kringum þau. Við föðmuðum móður þína alltaf þegar hún fór og hún lagði sig alltaf fram við að hjálpa móður minni að líða vel og sýndi henni virðingu. Faðir þinn var alltaf með ljóma í augum þegar hann var að kenna okkur um Jesú Krist. Hann reyndi að fá föður minn með í umræður og hafði sigur að lokum. Faðir minn var kokkur í sveitaklúbbi á staðnum og tók að elda kvöldverð fyrir foreldra þína, þar með talið að búa til uppáhaldsböku föður þíns, sítrónuböku.“16
Þegar öldungur og systir Rasband báðu Rebeccu og fjölskyldu hennar að lesa Mormónsbók, lauk Rebecca henni á fimm dögum. Hún vildi þegar í stað láta skírast, en hinir í fjölskyldunni voru ekki tilbúnir. Eftir fjóra mánuði krafðist Rebecca að hún yrði skírð og gengi í hina sönnu kirkju. Hún minntist þessa: „Sérhver fruma sálar minnar vissi að þetta var sannleikur.“17 Þann 5. apríl 1979 skírðu trúboðar hina 19 ára gömlu Rebeccu, móður hennar og tvær systur. Faðir minn var vottur við skírnina.
Þegar ég hitti Rebeccu og fjölskyldu hennar í kirkjunni tókum við mynd af fjölskyldu hennar með mér. Ég fór með hana heim til aldraðrar móður minnar og hún hélt henni við hjartastað. Hún sagði síðan við mig: „Ronnie, þetta er einn hamingjusamasti dagur lífs míns.“
Svar móður minnar vekur upp spurninguna fyrir eldra fólk: „Hvað eruð þið að gera á þessu stigi lífs ykkar?“ Það er svo margt sem eldri trúboðar geta gert sem enginn annar getur gert. Þið eruð undravert afl til góðs, reynd í kirkjunni og undir það búin að hvetja og bjarga börnum Guðs.
Sum ykkar gætu verið að hugsa: „En hvað með að yfirgefa barnabörnin? Við myndum missa af fjölskylduáföngum, afmælisdögum, sakna vina og jafnvel gæludýranna okkar.“ Ef ég hefði spurt móður mína hvers vegna hún og pabbi fóru í trúboð, þá veit ég að hún hefði sagt: „Ég á barnabörn. Ég vil að þau viti að ég og faðir þinn þjónuðum á trúboðsakrinum og við vildum vera fordæmi fyrir afkomendur okkar og við vorum blessuð, svo blessuð.“
Í heimsóknum mínum á trúboðssvæði um allan heim, hef ég séð undraverða þjónustu hersveitar okkar eldri trúboða. Það er ljóst að þau gleðjast yfir að gera „vilja Drottins“ og „ganga … erinda Drottins“.18
Fyrir suma, og við vonum að það eigi við um þúsundir ykkar, mun þjónusta í fastatrúboði í öðrum heimshluta vera rétti staðurinn.19 Fyrir aðra gæti verið æskilegra að þjóna í kirkjuþjónustu nærri eigin heimili. Vegna heilsufarsvanda og annarra aðstæðna, eru líka þau sem geta ekki þjónað. Við skiljum þessar aðstæður og það er von mín að þið gætuð fundið leiðir til að styðja þá sem þjóna. Fylgið leiðsögn spámannsins og biðjið um að vita hvað Drottinn vill að þið gerið.
Trúboðsakrar um allan heim þurfa nauðsynlega hjálp ykkar. Nelson forseti sagði um okkar eldri trúboða: „Þau eru ung í anda, vitur og fús til að starfa.“20
Úti á akrinum býðst ykkur hlaðborð af tækifærum: Þið getið þjónað á trúboðsskrifstofum eða í musterum, styrkt unga trúboða, styrkt litlar greinar, starfað í ættarsögumiðstöðvum eða í sögumiðstöðvum, kennt trúarskólann, veitt mannúðarþjónustu, starfað með ungu fólki, aðstoðað á atvinnumiðlunum eða á kirkjubóndabýlum. Upplýsingar um leiðir til að þjóna, hvað ykkur hentar best, hvar þörf er fyrir ykkur og hvernig þið getið búið ykkur undir að fara, má finna á vefsíðunni „Senior Missionary [Eldri trúboðar]“.21 Þið getið líka talað við biskup ykkar eða greinarforseta.
Ég hef kallað mörg hjón til að þjóna og horft á hvernig ljós Krists hefur fyllt ásjónu þeirra.22 Þegar þau snúa aftur, hafa þau sagt sig hafa komist nær Drottni og hvert öðru, fundið anda Drottins úthellt yfir sig og vitað að þau væru að gera gæfumun.23 Hver myndi ekki vilja það?
Trúboð gæti verið dásamlegasti kaflinn í lífi hjóna. Góður titill hans gæti verið: „Drottinn minn mun þurfa á mér að halda.“24 Þið gætuð verið í ókunnugu landi, en kraftur andans mun láta ykkur líða eins og þið væruð heima.
Foreldrar mínir og tugþúsundir heimkominna trúboðshjóna hafa borið vitni um gleðina sem þau upplifðu í trúboðsstarfinu. Drottinn hefur sagt í síðari daga ritningu: „Og fari svo, að þér erfiðið alla yðar daga við að boða þessu fólki iðrun og leiðið, þó ekki sé nema eina sál til mín, hversu mikil skal þá gleði yðar verða með henni í ríki föður míns!“25
Jesaja gaf okkur ljóðræna lýsingu á því hvað það þýðir að þjóna á trúboðs-„akrinum“. Ritningarnar segja okkur að „akurinn sé heimurinn“.26 Þessi forni spámaður ritaði: „Já, þér skuluð fara burt fagnandi og örugg verðið þér leidd af stað. Fjöll og hæðir ljósta upp fagnaðarópi frammi fyrir yður og öll tré á sléttunni klappa saman lófum.“27 Hægt er að líkja fjöllunum, hæðunum, ökrunum og trjánum við trúboðsforseta, biskupa, umdæmisleiðtoga, meðlimi og þá sem leita sannleikans en „vita ekki hvar hann er að finna“.28 Þau geta borið vitni um að eldri trúboðar breyti sjálfu landslaginu með vitnisburði sínum um frelsara okkar og lausnara, Jesú Krist.
Sem postuli Drottins Jesú Krists, bið ég ykkur að þjóna sem trúboðar við samansöfnun Ísraels og ef til vill að þjóna aftur. Við þurfum á ykkur að halda – við þörfnumst ykkar. Við erum þakklát fyrir ykkur eldra fólkið, fyrir lífið sem þið hafið lifað og fyrirmyndirnar sem þið hafið verið á heimilum ykkar og í deildum og stikum. Ég býð ykkur nú að hafa með ykkur kunnáttu ykkar, ásamt hinum varðveitta vitnisburði ykkar, og fara í trúboð. Ég bið þess að næst þegar ég sest niður til að úthluta eldri hjónum verkefnum, þá verði hundruð ykkar sem bíða spennt eftir kallinu.
Ég lofa líka að þegar þið þjónið, munuð þið finna kærleika Drottins í lífi ykkar, þið munuð þekkja hann, hann mun þekkja ykkur og „hversu mikil skal þá gleði yðar verða“.29 Trúföst þjónusta ykkar við Jesú Krist mun hvetja og blessa fjölskyldu ykkar, barnabörn ykkar og barnabarnabörn. „Friður og kærleiki [mun margfaldast]“30 í lífi þeirra um ókomin ár. Ég lofa þessu. Í nafni Jesú Krists, amen.