Minningar eldri trúboðshjóna
Ein besta leiðin fyrir eldri hjón til að skapa góðar minningar, er að fara saman í trúboð.
Þegar þeim vinum okkar, sem eru 60 eða 70 ára gamlir, verður á að gleyma einhverju, þá segjum við oft í góðlátlegu gríni að minnistapið sé „ellistund.“ Ég ætla þó að ræða aðrar stundir – sem eru svo stórkostlegar að þær hverfa aldrei úr huga okkar. Það eru stundirnar þegar eldri hjónum verður ljóst að þau eru að gera nákvæmlega það sem Drottinn vill að þau geri. Á slíkum dýrmætum stundum verður þeim ljóst að:
-
Þau geta miðlað langri lífsreynslu, hæfileikum og kunnáttu og blessað aðra með þekkingu sinni á fagnaðarerindinu.
-
Fordæmi þeirra er bæði börnum þeirra og barnabörnum mikil blessun.
-
Þau mynda varanlega vináttu með þjónustu sinni.
-
Hjónaband þeirra styrkist með hverjum degi.
-
Þjónusta í hans nafni er ljúf.
Dýrmætar stundir
Kæru eldri hjón, mörg ykkar ættuð nú þegar að vera að upplifa slíkar stundir. Hugleiðið frásögn öldungs Jeffreys R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, um það sem eldri hjón gerðu í Chíle. Einn af yngri öldungunum átti foreldri sem andaðist. Trúboðsforsetinn var svo fjarri að hann komst ekki samstundis til trúboðans.
„Það voru hins vegar ljúf eldri trúboðshjón sem þjónuðu á svæðinu,“ sagði öldungur Holland. „Þau komu, dvöldu hjá trúboðanum og önnuðust hann og hugguðu, þar til trúboðsforsetinn kom og tók við. Í trúboðinu okkar voru dásamlegir yngri trúboðar, en enginn þeirra hefði getað gert það sem þessi hjón gátu gert.“1
Í þessu tilviki var hlutverk þeirra einfaldlega að sýna samúð á neyðarstundu. Þau þurftu enga tungumálakunnáttu til þess, heldur aðeins að sýna kristilegan kærleika. Þau höfðu ekki áhyggjur af því að komast ekki í afmæli eða blessun einhvers barnabarnsins, þótt það séu mikilvægir viðburðir. Þau létu sig skipta að vera þar sem Drottinn vildi að þau væru, til að blessa eitt barna hans. Þar sem þau voru fús til þess, þá gat hann leyft þeim að koma fram fyrir sína hönd.
Þjónusta er sjaldnast þægileg
Sannleikurinn er sá, að engum eldri trúboða finnst þægilegt að fara að heiman. Það átti líka við um Joseph Smith, Brigham Young, John Taylor og Wilford Woodruff. Þeir áttu líka börn og barnabörn og þeir elskuðu fjölskyldu sína, alveg eins og við gerum. Þeir elskuðu hins vegar líka Drottin og þráðu að þjóna honum. Einhvern tíma hittum við kannski þessa dyggu menn, sem hjálpuðu til við innleiðingu þessarar ráðstöfunar. Þegar við gerum það, þá munum við gleðjast yfir að hafa ekki dregið af okkur þegar okkur bar að þjóna.
Sumir kjósa að þjóna og dvelja á heimili sínu. Eftir að Aase Schumacher Nelson (ekki skyldmenni) fékk heilablóðfall, varð hún bundin hjólastól og óttaðist að geta ekki farið í trúboð með eiginmanni sínum, Don, eins og þrá þeirra hafði alltaf staðið til. Þá ræddi nágranni við þau um hið kirkjulega trúboð sem hann starfaði við í forðabúri biskups. Þau höfðu áhuga og ræddu við yfirmann á staðnum, útfylltu umsókn sína og voru kölluð til að þjóna tvo daga í viku í forðabúrinu nærri heimili sínu.
„Það er auðvelt að halla sér aftur og hugsa: ‚Ó, það hefur engin þörf fyrir mig lengur,‘“ sagði Aase Nelson. „Nú finn ég að það er þörf fyrir mig. Það hefur verið mér vitnisburður.“
Það er sannlega þörf fyrir mann.
Ef þið freistist til að hugsa að það sé ekki þörf fyrir ykkar, þá fullvissa ég ykkur um hið gagnstæða. Hver trúboðsforseti í kirkjunni, tæki því feginshendi að fá fleiri hjón til að þjóna í trúboði hans. Eldri hjón eru styrkur fyrir yngri öldunga og systur. Þau veita stuðning sem hvetur aðra til að þjóna betur í skylduverkum sínum. Getið þið ímyndað ykkur hversu mikilvægt það er fyrir leiðtoga sem aðeins hefur verið meðlimur í fáein ár að hafa aðgang að eldri og reyndari kirkjumeðlimum? Eldri hjón eru oft bókstafleg bænarsvör biskupa og greinarforseta.
Við hvetjum trúboðsforseta til að leita hjóna sem gætu uppfyllt þarfir í trúboði þeirra. Biskupar ættu að leita hjóna sem geta þjónað. Á vefnum LDS.org eru margar síður um tækifæri eldri hjóna til þjónustu. Mikilvægast er þó að hjón krjúpi saman og spyrji himneskan föður hvort þetta sé rétti tíminn til að þjóna saman í trúboði. Af öllu því sem gerir okkur hæf, þá gæti þrá til að þjóna verið mikilvægust (sjá K&S 4:3).
Þótt ég dásami þjónustu eldri trúboða, þá er mér ljóst að það eru margir sem hefðu viljað þjóna en geta það ekki. Huga þarf vel að annmörkum og heilsufari vegna aldurs og mikilvægum þörfum fjölskyldumeðlima. Ef þráin er sterk, þá gætu aðrir ljáð ykkur hendur og fætur, þrátt fyrir slíka annmarka, og þið fjármagnað það.
Eldri hjón, hver og hvar sem þið eruð, biðjist fyrir sökum þessa tækifæris, um að geta skapað saman dýrmætar trúboðsminningar. Himneskur faðir mun hjálpa ykkur að vita hvað þið getið gert.