2016
Andlegur stöðugleiki: Smíða ósökkvandi skip
April 2016


Andlegur stöðugleiki: Smíða ósökkvandi skip

Ræða flutt 16. september 2014 á helgistund í Brigham Young háskóla. Hér má lesa alla ræðuna á ensku: speeches.byu.edu.

Við þurfum að búa yfir nægum andlegum stöðugleika til að ferð okkar um jarðlífið verði farsæl og við fáum snúið örugg til okkar himnesku heimkynna.

carpenter and tools

Merki og ljósmyndir af skipi © lublubachka/Thinkstock, MicheleBolero/Thinkstock, David Harding/Thinkstock

Snemma á sautjándu öld skipaði Gústaf II Adolf Svíakonungur smíði á herskipi sem átti að fá nafnið Vasa. Skipið var vel útbúið og tiltölulega dýrt í smíðum, einkum var eikin dýr sem var smíðaefni skipsins. Gústaf Adolf fylgdist náið með smíðinni og reyndi að ganga úr skugga um að Vasa stæði algjörlega undir væntingum hans.

Eftir að smíðin hófst, skipaði Gústaf Adolf svo fyrir að skipið Vasa yrði lengt. Þar sem þverbjálkarnir höfðu þegar verið smíðaðir úr dýrindis eikinni, þá bauð konungur skipasmiðum sínum að lengja skipið án þess að það yrði breikkað í sama hlutfalli. Þótt skipasmiðirnir hafi vitað að þessi gjörningur myndi veikja sjóhæfni Vasa, þá hikuðu þeir við að upplýsa konunginn um það sem hann vildi ekki heyra. Þeir fóru að skipun hans. Gústaf Adolf fór líka fram á að skipið hefði ekki aðeins eitt fallbyssuþilfar, eins og venjan var, heldur þrjú fallbyssuþilför, með þyngstu fallbyssurnar á efsta þilfari. Skipasmiðirnir fóru að fyrirmælum hans, gegn betri vitund.

Hinn 10. ágúst 1628 fór Vasa í jómfrúarferð sína. Eftir að Vasa hélt úr höfn, þandi sterkur vindur seglin og skipið varð óstöðugt og tók að halla. Áður en leið að löngu, „snérist skipið á hliðina og sjórinn streymdi inn um fallbyssulúgurnar, þar til það sökk hægt á fullum seglum, með fána og öllu.“1 Jómfrúarferð skipsins Vasa var um 1280 metra löng.

Löngun Gústafs Adolfs eftir óhóflega glæsilegu stöðutákni, eyðilagði hönnun skipsins, sem hefði orðið glæsilegasta og máttugasta herskip síns tíma. Skipasmiðirnir voru tregir til að andmæla — af ótta við vanþóknun konungs — svo konungur naut ekki þekkingar þeirra og innsýnis. Allir sem komu að málum misstu sjónar á markmiðum framtaksins, sem var að vernda Svíþjóð og efla hagsmuni þess á erlendri grundu. Skip sem ekki samræmist lögmálum eðlisfræðinnar, er einfaldlega skip sem ekki flýtur.

Ef við eigum að komast klakklaust í gegnum jarðlífsferð okkar, þá þurfum við nægan andlegan stöðugleika til að takast á við storma og strauma, leiðrétta stefnu og komast örugg til okkar himnesku heimkynna. Við getum gert ýmislegt til að auka okkar andlega stöðugleika. Ég ætla að benda á fjögur atriði.

Hlýða boðorðum Guðs

Í fyrsta lagi þá þurfum við að hlýða boðorðum Guðs. Á sama hátt og Vasa var háð lögmálum eðlisfræðinnar, þá erum við öll háð andlegum lögmálum. Enginn er þar undanskilinn. Við þurfum að hlíta þessum andlegu lögmálum, sem við vísum til sem boðorða Guðs.

Gústaf Adolf kann að hafa fundist það hamlandi við skipasmíðina að þurfa að taka lögmál eðlisfræðinnar með í reikninginn, en Vasa hefði ekki sokkið áður en ferð þess hófst, ef reiknað hefði verið með þeim við smíðina. Hefði sú verið raunin, hefði það búið yfir nægu svigrúmi og sveigjanleika til að takast áætlunarverk sitt.

Hlýðni við boðorð Guðs varðveitir á sama hátt frelsi okkar, sveigjanleika og hæfni til að ná möguleikum okkar. Boðorðunum er ekki ætlað að vera hamlandi. Hlýðni við þau leiðir til andlegs stöðugleika og varanlegrar hamingju.

Hlýðni er valkostur fyrir okkur. Jesús sagði: „Sjá, ég hef gefið yður boðorðin. Haldið þess vegna boðorð mín“ (3 Ne 15:10). Þetta er ekki flóknara en það. Sættist á þetta. Ákveðið núna að vera algjörlega hlýðin. Ekkert er öflugra til aukningar andlegs stöðugleika. Ekkert annað veitir okkur meira frelsi til að ná fram okkar lífsins ætlunarverki.

Hlíta leiðsögn og verða lærisveinar fyrir lífstíð

carpenter’s tools

í öðru lagi þá þurfum við að hlíta og beina athyglinni að trúverðugum heimildum og einsetja okkur að verða lærisveinar fyrir lífstíð.

Eitt af því sem kemur í veg fyrir þekkingaröflun er drambið sem sýnir sig í því að við teljum okkur vita svo mikið að það sér ekkert meira að læra. Þetta höfum við öll séð í einstaklingum sem ofmeta eigin gáfur. Það er illmögulegt að kenna alvisku.

Henry B. Eyring forseti, og fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sem hafði þetta í huga og þráir að læra alla sína ævi, sagði: „Ég er enn barn sem á margt ólært. Flestir geta aukið við þekkingu mína.“2 Þegar Eyring forseti veitti mér köllun mína sem aðalvaldhafi, kenndi hann mér mikilvæga lexíu. Hann sagðist spyrja sjálfan sig, þegar hann hlýðir á einhvern segja sögu sem hann hefur áður heyrt eða nota ritningarvers sem honum er vel kunnugt: „Hvað er Drottinn að benda mér á?“ eða „Hvað get ég lært meira af þessari sögu eða ritningarversi?“ Ef við óskum að efla okkar andlega stöðugleika, þá verðum við að vera fús til að læra og nægilega auðmjúk til að taka leiðsögn, óháð aldri og reynslu.

Þetta er í raun valbundið. Við getum hlustað á og farið eftir leiðsögn kirkjuleiðtoga, einkum þeirra sem við styðjum sem spámenn, sjáendur og opinberara, en líka foreldra og trúverðugra vina — eða ekki. Við getum verið lærisveinar fyrir lífstíð — eða ekki. Við getum aukið okkar andlega stöðugleika — eða ekki. Ef okkur tekst ekki að auka okkar andlega stöðugleika, verður líkt á komið fyrir okkur og Vasa — skipi sem ekki gat flotið.

Þjóna öðrum

Í þriðja lagi þá eykur það okkar andlega stöðugleika að beina athyglinni að öðrum, láta sér annt um aðra og þjóna öðrum.

Eilífðin verður skýrari þegar við beinum athyglinni að öðrum og reynum að liðsinna börnum himnesks föður. Mér hefur reynst mun auðveldar að öðlast innblástur þegar ég biðst fyrir til að komast að því hvernig ég get hjálpað öðrum, fremur en að þegar ég bið aðeins fyrir sjálfum mér.

Við gætum talið okkur trú um að við verðum betur í stakk búin til að hjálpa síðar á ævinni. Í raun þá er nútíðin besti tíminn til að gera það. Við látum blekkjast, ef við höldum að það verði þægilegra að þjóna öðrum þegar við höfum meiri tíma eða meiri peninga eða meira af einhverju öðru. Valið er okkar, hverjar sem aðstæður okkar eru. Ætlum við að hjálpa öðrum eða ekki? Við föllum á mikilvægu prófi jarðlífsins, ef við kjósum að hjálpa ekki hinum nauðstöddu. Ef við hins vegar hjálpum, aukum við okkar andlega stöðugleika.

Hafa Jesú Krist sem undirstöðu

the ship Vasa

Merki og ljósmyndir af skipi © lublubachka/Thinkstock, MicheleBolero/Thinkstock, David Harding/Thinkstock

Í fjórða lagi þá er mikilvægast fyrir okkur að hafa Jesú Krist sem undirstöðu og okkar andlegi stöðugleiki mun aukast í réttu hlutfalli við staðfestu okkar við hann.

Án Krists erum við lík skipi sem lætur stjórnast af öldum sjávar. Við erum kraftlaus, því seglin vantar. Stöðugleikann og festuna vantar, því akkerið er ekki fyrir hendi. Stefnuna og tilganginn vantar, því stýrið er ekki fyrir hendi. Við verðum að hafa Krist sem undirstöðu.

Ef við viljum takast á við og standast storma og strauma lífsins, þá verðum við að halda boðorð Guðs, verða auðmjúkir og fúsir lærisveinar fyrir lífstíð, þjóna öðrum og hafa Jesú Krist sem undirstöðu lífs okkar. Ef við gerum þetta, aukum við okkar andlega stöðugleika. Andstætt Vasa, þá munum við komast í örugga höfn, eftir að hafa uppfyllt tilgang okkar.

Heimildir

  1. Bréf frá sænsku ráðgafanefnd konungsdæmis Gústafs II Adolfs; vitnað í þýðingu Richards O. Mason, „The Vasa Capsizes,“ virtualschool.edu/mon/CaseStudies/Vasa/vasa.html. Margar frásagnir um Vasa eru til; sjá t.d. vasamuseet.se/en og fleiri hlekki.

  2. Henry B. Eyring, í Robert I. Eaton and Henry J. Eyring, I Will Lead You Along: The Life of Henry B. Eyring (2013), 409.