Sígildar trúarsögur
Prestdæmið: Öruggt akkeri
Þessi grein var skrifuð af öldungi L. Tom Perry, 28. maí 2015, tveimur dögum fyrir lát hans, fyrir unga prestdæmishafa.
Mesti styrkur lífs míns hefur verið prestdæmi Guðs. Ég trúi að það verði ykkur, ungu mönnunum, líka öruggt akkeri. Þið þurfið að skilja og nota það, til að það geti orðið ykkur lífsins styrkur.
Prestdæmið og upplifanir æskuáranna
Ég ólst upp í þægilegu umhverfi í Logan, Utah. Á æskuárunum hafði ég ekki áhyggjur af því að hafa ekki mat eða húsaskjól eða menntun. Þar sem lífið var mér auðvelt, þurfti ég eitthvað haldfast akkeri.
Það akkeri fannst mér vera prestdæmi Guðs. Ég var í óvenjulegri stöðu á uppeldisárum mínum. Faðir minn var kallaður sem biskup þegar ég var ársgamall og var biskup minn í 19 ár. Hans föðurlega og andlega leiðsögn varð mér gríðarleg hjálp.
Ég held að það hafi verið megin ástæðan að ég hlakkaði til þess að hljóta Aronsprestdæmið á 12 ára afmælisdeginum mínum. Ég man eftir þeim sérstaka degi er ég fann fyrir höndum föður míns á höfði mér, er hann vígði mig. Eftir það fór ég í gegnum embættisferli Aronsprestdæmisins og hlaut kallanir sem ég hafði mikla unun af.
Að útdeila sakramentinu þótti mér afar sérstakt. Þegar fólk meðtók táknin um líkama hans og blóð, varð maður vitni að því að það einsetti sér að hlýða Drottni og halda boðorð hans.
Prestdæmið og aukinn skilningur
Þegar að því kom útskrifaðist ég úr grunnskóla og eftir eitt ár í framhaldsskóla var ég kallaður í trúboð. Ég naut hverrar mínútu trúboðsins og þótti vænt um félaga mína. Einn þeirra var mér til mikils stuðnings. Ég lærði heilmikið af honum, er við uppfylltum ábyrgð okkar.
Þar sem þjóðin átti í stríði þegar ég kom heim úr trúboði, þá gekk ég til liðs við sjóher Bandaríkjanna. Að stríði loknu, fór ég aftur í skólann, gifti mig og eignaðist börn. Sökum atvinnuflutnings fór ég víða um Bandaríkin, þar sem ég lærði heilmikið í þjónustu í mörgum prestdæmisköllunum. Loks endaði ég í Boston, Massachusetts, þar sem ég þjónaði sem stikuforseti. Þar var ég síðan kallaður sem aðstoðarmaður hinna Tólf og að 17 mánuðum liðnum sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar.
Lærðar lexíur sem postuli
Hvað hefur mér lærst sem meðlimur í Tólfpostulasveitinni?
Mér hefur lærst að prestdæmið er leiðarvísir, akkeri og verndandi kraftur.
Prestdæmið hefur alltaf verið til. Adam hafði prestdæmið áður en hann kom til jarðar. Þegar afkomendur Adams dreifðust með prestdæmið, varð nauðsynlegt að koma skipulagi á stjórnun prestdæmisins. Það gerði Drottinn með því að kalla Abraham til að vera í forsæti prestdæmishafa sinna afkomenda. Því fyrirkomulagi var viðhaldið hjá Ísak og Jakob, sem síðar hlaut nafnið Ísrael.
Öldum síðar voru Ísraelsmenn síðan herleiddir. Drottinn sendi Móse til að frelsa þá og í því ferli reyndust þeir ekki undir það búnir að hljóta Melkísedeksprestdæmið. Þeir urðu því að láta sér nægja Aronsprestdæmið þar til tími frelsarans kom.
Mér finnst mjög athyglisvert hvernig frelsarinn hóf þjónustu sína. Hann byrjaði á því að skipuleggja Melkísedeksprestdæmið. Hann kallaði tólf postula og kenndi þeim lögmálið og reglu prestdæmisins. Hann kallaði Pétur sem höfuðpostula og kom á valdalínu í kirkju sinni. Á þeim tíma og þessum, er það Jesús Kristur sem velur höfuðpostula sinn til að vera í forsæti kirkjunnar og frelsarinn leiðir hann í prestdæmisábyrgð hans.
Valdalínu prestdæmisins má því rekja beint frá Drottni okkar og frelsara til höfuðpostula hans og hinna postulanna og frá þeim til annarra prestdæmishafa í kirkjunni. Postulunum er falið lykla valdsumboðs, og svo framarlega sem þeir lyklar eru á jörðunni, mun Drottinn sjálfur leiða okkur. Þessi guðlega handleiðsla verndar okkur og tryggir að kirkjan breyti ekki út af sannleikanum. Hún mun halda áfram að vera samkvæm sjálfri sér, því henni er ekki stjórnað af jarðneskum mætti. Henni er stjórnað af Drottni.
Lærið kenninguna um prestdæmið
Mín mikilvægasta leiðsögn til ykkar, ungu menn, er að þið lærið kenningu prestdæmisins, skiljið þann kraft sem þið hafið til að iðka prestdæmið og lærið hvernig það getur blessað líf ykkar sjálfra og annarra.
Ég lofa ykkur, ef þið lærið kenningu prestdæmisins og uppfyllið prestdæmisábyrgð ykkar, að prestdæmið verði ykkur öruggt akkeri og andleg vernd og mun veita ykkur mikla gleði. Verið trúfastir í prestdæmissveit ykkar. Hafið áhrif á vini ykkar og leiðið þá í sveit ykkar. Stuðlið að bræðralagi í sveit ykkar, sem verður varanleg undirstaða lífs ykkar.