Frá Síðari daga heilögum
Annað tækifæri
Kaylee Baldwin, Arisóna, Bandaríkjunum
Þegar ég hitti hann í fyrsta skiptið, hélt ég á fiðlunni minni.
Hann elti mig þegar ég gekk inn í matsalinn og fiðlutaskan, slengdist utan í fótlegg minn.
„Fiðla,“ sagði hann, er hann kom nær mér.
„Já,“ svaraði ég.
Ég hafði í raun aldrei átt samræður við einhvern með fötlun, svo ég vissi ekki hvað annað ég gæti sagt. Hann elti mig að borðinu mínu, settist við hlið mér og benti á fiðlutöskuna.
„Fiðla,“ sagði hann aftur.
Ég opnaði töskuna og augu hans ljómuðu. Hann tók of harkalega í strengina. Hjartað tók kipp þegar mér varð hugsað til þess að strengur gæti slitnað, svo ég lokaði töskunni varlega. Hann faðmaði mig að sér áður en hann fór.
Ég sá hann oft eftir þetta.
Alltaf þegar hann sá mig, tók hann utan um mig og kyssti mig á hvirfilinn.
Það sem eftir var grunnskólans reyndi ég alltaf að forðast hann, þegar ég sá hann koma. Þegar hann komst að mér og faðmaði mig að sér með sínum blauta kossi, umbar ég það með þvinguðu brosi í fáeinar sekúndur og gekk síðan í burtu án þess að segja orð.
„Ó, nei,“ umlaði ég þegar ég sá hann á mínum síðustu hljómleikum í unglingadeild grunnskóla. Að tónleikum loknum, koma hann aðvífandi þar sem ég stóð með vinum mínum fyrir utan hljómleikahöllina.
Vinir mínir stigu til hliðar þegar hann kom að mér skælbrosandi, með faðminn opinn.
„William!“
Ég snéri mér við og sá konu koma skokkandi í átt til okkur.
„Afsakaðu,“ sagði hún og krækti arm sinn í hans. „William elskar fiðluna. Hann sárbað mig að fara með sig á þessa kvöldtónleika. Komdu nú, elskan.“
Mér varð ljóst að fram til þessa hafði ég ekki þekkt hann með nafni. Ég hafði hitt William tveimur árum áður en lagt svo mikið á mig við að forðast hann að ég hafði í raun aldrei gefið mér tíma til að kynnast honum. Þegar ég horfði á eftir William og móður hans, fylltist ég skömm.
Árum síðar, eftir að ég giftist, fæddi ég fallegan lítinn dreng með Downs heilkenni, sem fékk nafnið Spencer. Mér varð oft hugsað um Williams er ég horfði á son minn og velti fyrir mér hvort Spencer ætti eftir að upplifa eitthvað álíka. Ætti fólk eftir að forðast hann, því hann kyssti og faðmaði of mikið? Ættu jafnaldrar hans eftir að eiga erfitt með að umgangast hann sökum fötlunar hans?
Þegar Spencer var fjögurra mánaða, fór ég með hann á heilsugæslu til skoðunar. Þegar ég tók hann úr bílnum, sá ég tvær manneskjur koma út úr sjúkrahúsinu. Ég trúði vart eigin augum, er ég sá að það voru William og móðir hans.
„William!“ Hrópaði ég, þegar við nálguðumst, og hjartað sló hraðar.
„Hæ!“ Hann vappaði skælbrosandi yfir bílastæðið. Hann rétti út hendina og tók í mína með innilegu handabandi.
„Hvernig hefur þú það?“ spurði ég hann.
„Fiðla,“ sagði hann og augun ljómuðu.
Fiðla. Hann mundi líka eftir mér. „Já,“ sagði ég tárvot og hlæjandi, „ég lék á fiðlu.“
Þegar við ræddum saman, var hjarta mitt fullt af þakklæti fyrir hina ljúfu miskunn míns kærleiksríka himneska föður, sem vissi hve heitt ég hafði þráð að hitta William aftur. Ég er þakklát fyrir að Guð beindi sjónum sínum að mér — ungri baslandi móður, sem hafði miklar áhyggjur af heilsu og framtíð sonar síns — og sá mér fyrir reynslu, sem sýndi mér að hann þekkir okkur.