Staðráðin í því að hætta
Höfundurinn býr í New York, Bandaríkjunum.
Þótt ég hefði æft mig árum saman á píanóið, tók ég engum framförum. Foreldrar mínir sögðu að ég gæti hætt að einu skilyrði uppfylltu. Ég varð að læra 50 sálma.
Ég rauk inn í húsið, með augun full af tárum, eftir enn einn misheppnaðan píanótíma. Ég var á fjórða ári í píanóleik og átti í erfiðleikum með að komast í gegnum: „Twinkle, Twinkle, Little Star.“ Kennarinn minn hafði reynt að segja eitthvað jákvætt um hinn ömurlega píanóleik minn, en það fékk mig aðeins til að líða enn verr. Foreldrar mínir báru kostnað af píanókennslu minni, sem ég hvorki vildi, né hafði beðið um.
Ég vildi fá að hætta með samþykki foreldra minna. „Gerið það,“ sárbað ég. „Ég skal gera hvað sem er. Hvað þarf ég að gera?“
Eftir að þau ræddu saman, sögðu þau: „Þú mátt hætta eftir að þú hefur lært 50 sálma.“
Ég tók þegar í stað að æfa mig. Mig langaði svo innilega að hætta, að ég var fús til að verja auknum tíma við píanóið. Það tók mig næstum mánuð að ná tökum á fyrsta sálminum, sem var: „Vorn spámann vér þökkum þér, Drottinn“ (Sálmar, nr. 7). Ég var enn staðráðin í því að hætta, svo ég hélt áfram að æfa mig.
Þá gerðist nokkuð athyglisvert: Mér reyndist auðveldar að ná tökum á sálmunum. Ég var glaðari alla þá viku. Ég stóð mig að því að raula sálma á daginn og syngja hærra á sakramentissamkomu.
Að því kom, að ég hætti að hugsa um hve marga sálma ég hafði náð tökum á. Með aukinni píanóleikni, varð mér ljóst að ég gat náð tökum á nýjum sálmi næstum óaðfinnanlega á innan við 30 mínútum.
Þegar ég taldi sálmafjöldann sem ég hafði náð tökum á, komst ég að því að þeir voru mun fleiri en 50. Þegar hér var komið, vildi ég alls ekki hætta píanóleiknum. Ég var nú mun sjálfsöruggari við píanóið og hafði upplifað mátt sálmana í daglegu lífi.
Sálmar eru eins og ritningar: Þeir geyma sannleikann. Þegar ég spila sálmana, finnst mér það líkt og að ígrunda ritningarnar. Að læra að spila sálmana, hefur auðveldað mér að styrkja vitnisburð minn og læra sannleikann. Ég hugsa oft um texta hinna ýmsu sálma, til að auðvelda mér að komast í gegnum dagana. Píanóleikurinn hefur styrkt vitnisburð minn og lokið dyrum upp fyrir mér, hvert sem ég fer.