Þjóna í kirkjunni
Þakka þér fyrir þjónustu þína
Þú ert ímynd þeirra kvenna sem allt frá tíma Nauvoo hafa þjónað öðrum með ástúð og innblásinni heimsóknarkennslu.
Ég þekki ekki nafn þitt, aldur eða nokkuð annað sem þér viðkemur. Ég veit aðeins að þú ert heimsóknarkennari Jóhönnu og ég er innilega þakklát fyrir umhyggjusama þjónustu þína.
Ég veit líka að það er ekki auðvelt að heimsækja lítt virka systur, líkt og Jóhönnu (nafni breytt), tengdadóttur mína, sér í lagi þar sem hún er ekki mjög móttækileg. Ég efast um að hún hafi í raun viljað fá þig í fyrstu. Jóhanna hefur samt sagt mér frá því að þú hafir verið henni afar góð vinkona með því að taka henni eins og hún er og koma við hjá henni til að sjá hvernig henni gangi.
Á þeim 19 árum sem Jóhanna hefur verið gift syni mínum er þetta í fyrsta sinn sem hún minnist á að hafa heimsóknarkennara. Nýlega sagði hún mér frá því hve reglubundið þú kemur í heimsókn og hve umhyggjusöm og ljúf þú alltaf ert. Hún sagði þig hafa hjálpað sér nokkrum sinnum í veikindum hennar og jafnvel boðist til að taka sonardóttur mína með þér í Stúlknafélagið.
Undanfarin 10 ár hafa hún, sonur minn og börnin þeirra búið í hundruði kílómetra fjarlægð frá mér. Ég hef beðið þess að aðrir elski þau og beri jafn mikla umhyggju fyrir þeim og ég geri og sárbeðið himneskan föður um að láta aðra gæta þeirra, líkt og ég hefði gert, ef ég byggi þar nærri. Eftir því sem Jóhanna lýsir þér, þá ert þú mín bænheyrsla.
Þótt Jóhanna og sonur minn lifi ekki eftir Vísdómsorðinu og fari ekki í kirkju, þá eru þau gott fólk og elska börnin sín. Einhvern vegin lést þú ekki vindlingareyk Jóhönnu byrgja augu þín. Þú lést það ekki aftra þér að hún færi ekki í kirkju. Þú kynntist henni og sást að hún er ástúðleg móðir, sem vill að dóttir hennar fari í kirkju og öðlist vitnisburð. Þegar Jóhanna þurfti síðan að fara í skurðaðgerð, komst þú með kvöldmatinn, í stað þess að velta fyrir þér hvort hún hefði sjálf kallað yfir sig slæma heilsu.
Hve þakklát ég er fyrir að þú ert barnabarni mínu slík fyrirmynd. Hún getur litið upp til þín og séð að þú lætur þig aðra skipta og leggur á þig auka míluna til að sýna ástúð og umhyggju. Hún sagði mér að dag einn, er þú varst bíllaus, hefðir þú farið gangandi tvo kílómetra með ung börn þín til að færa henni smákökur.
„Ég var að hugsa um þig og móður þína og vildi gera eitthvað sem kæmi sér vel fyrir ykkur,“ sagðir þú við hana.
Ég vildi að ég gæti sagt þér hve innilega þakklát ég er fyrir hve trú þú ert köllun þinni sem heimsóknarkennari. Þú ert ímynd þeirra kvenna sem allt frá tíma Nauvoo hafa þjónað öðrum með ástúð og innblásinni heimsóknarkennslu. Þú hefur sýnt slíka þjónustu og elsku þegar þú hefur af umhyggju heimsótt mína lítt virku tengdadóttur.
Þakka þér fyrir.