Eldri trúboðar: Ómissandi, blessuð og elskuð
Að þjóna sem trúboðshjón er frjálslegra, ódýrara og ánægjulegra en þið teljið.
„Getið þið komið til hjálpar?“
Þessari spurningu höfðu Gerald og Lorna Malmrose frá Washington, Bandaríkjunum, svarað áður. Þau samþykktu þegar fyrrverandi biskup þeirra, sem þá var trúboðsforseti, spurði hvort þau gætu þjónað með honum í Vestur-Indíum. Þau samþykktu aftur þegar stikuforseti þeirra kallaði þau til trúboðsþjónustu við aðalstöðvar kirkjunnar í Salt Lake City, Utah, Bandaríkjunum, við tölvu- og mannauðsstarf.
Þegar fyrrverandi biskup þeirra, Reid Robison, hringdi í þau aftur, nú sem forseti trúboðsskólans í Accra, Gana, bað hann Malmroses-hjónin aftur um að koma til hjálpar.
„Við vissum að við gætum sett traust okkar á Drottinn,“ sagði öldungur Malmrose, „og við ákváðum að setja traust okkar á hann aftur.“ Þau samþykktu, fylltu út umsóknarblöðin, voru kölluð og brátt komin til Gana.
Þjóna sem hjón
Reynsla Malmrose-hjónanna er lýsandi fyrir reglur trúboðsþjónustu eldri hjóna, sem algengt er að fólk hafi ranghugmyndir um.
-
Trúboðsþjónusta er af tvennum toga. (1) Forseti kirkjunnar kallar eldri hjón til að þjóna frá eigin heimili eða fjarri eigin heimili. (2) Stikuforseti kallar hjón til kirkjulegrar trúboðsþjónustu, til að vinna hlutastarf, sem er 8 til 32 klukkustundir á viku, að ákveðnum verkefnum sem þörf er á á svæðinu. Yfirleitt búa þau og þjóna á eigin svæði, en stundum fjarri heimili sínu.
-
Trúboðsforsetar eru hvattir til að finna hjón sem geta komið að liði í trúboði þeirra og hjónum er heimilt að tilgreina óskir sínar. „Við erum ekki að segja að hjón geti valið og hafnað hvar og hvernig þau þjóna,“ útskýrði öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni. „Köllun er ennþá köllun. … [En] við ræðum við eldri hjónin um hvað þau kjósa helst og allt er gert til að hægt sé að taka tillit til óska þeirra um hvar og hvernig þau vilja þjóna.“1
-
Trúboðsforsetar ráðgast við hjónin um hvernig best sé að nýta kunnáttu þeirra og hæfileika. „Til þess að reynsla eldri hjóna verði sem innihaldsríkust, sagði Robison forseti, þá þurfa þau að eiga kost á að starfa á þeim svæðum sem þau hafa áhuga á og líka að nýta hæfileika sína, svo þeim finnist þau hafa eitthvað fram að færa.“
Robison forseti vissi t.d. að öldungur Malmrose talaði frönsku, sem kom að góðum notum, því margir Afríkubúar tala frönsku. „Ég sá hann fyrir mér starfa við skipulag ferða og öflun vegabréfsáritana,“ sagði Robison forseti. „Þegar hann svo kom hingað, varð mér ljóst að þetta var ekki það sem hann hafði mestan áhuga á. Ég bauð honum því að nýta tölvukunnáttu sína. Hann hefur sparað okkur margar vinnustundir.“ Öldungur Malmrose hjálpar líka trúboðum, einkum frönskumælandi trúboðum, að undirbúa nöfn og gera musterisverk fyrir ættmenni sín. Systir Malmrose er lærður sjúkraliði og henni var falið að starfa með lækni og hjúkrunarkonu trúboðsins.
Hann býr okkur leið
Önnur hjón, líkt og Malmrose-hjónin, uppgötva að þegar þau setja traust sitt á Drottin, þá býr hann þeim leið. Þannig var það í tilviki Alvin og Corazon Rieta frá Kawit, Cavite, á Filippseyjum.
„Tveimur árum áður en við ákváðum að þjóna, tókum við að gera ráðstafanir varðandi fjölskyldufyrirtækið,“ sagði öldungur Rieta. „Sonur okkar og dóttir höfðu útskrifast úr háskóla og gátu tekið við af okkur, en við höfum áhyggjur af hver gæti fundið lausnir á rekstrarvanda og hvernig viðskiptavinirnir tækju ráðstöfun okkar.“
Systir Rieta hafði líka áhyggjur af því að yfirgefa aldraða móður sína. „Ég óttaðist að hún dæi meðan við værum í burtu,“ sagði hún. „Mér fannst ég líka ekki nógu hæf til að kenna fagnaðarerindið.“
Þau ráðguðust við biskupinn og hjón sem nýlega höfðu þjónað í Davao. „Öll báru þau máttugan vitnisburð um að Drottinn myndi veita öllum hjónum handleiðslu um hvernig best væri að takast á við málefnin heima fyrir, huga að fjölskyldunni og fjármögnun trúboðsins,“ sagði systir Rieta.
„Þegar við leituðum leiðsagnar,“ sagði öldungur Rieta, „leystist úr áhyggjumálum okkar — fyrirtækið gekk vel, þrátt fyrir vandamálin, viðskiptavinir okkar voru ánægðir og sýndu stuðning og fjölskyldan varð nánari við umönnun veikrar móður okkar. „Okkur varð ljóst að Drottinn myndi sannlega hjálpa okkur.“
Rietas-hjónin þjóna nú við meðlima- og leiðtogaaðstoð í Cagayan de Oro trúboðinu á Filippseyjum.
Fjölmargt sem þið getið gert
Sum hjón hafa áhyggjur af líkamlegum höftum, en ekki Keith og Jennilyn Mauerman frá Utah, Bandaríkjunum. Fyrir mörgum árum, fjórum mánuðum eftir að þau giftu sig í Los Angeles musterinu í Californiu, fékk Keith herkvaðningu og var sendur á átakasvæði. Hann var foringi fallhlífasveitar og fór fyrir öðrum hermönnum þegar jarðsprengja sprakk. Hann missti báða fætur. Þegar hann kom heim tók Jennilyn sér strax stöðu við hlið hans eins og klettur.
„Ég vissi að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur,“ sagði Keith, „því hjónabandið okkar er eilíft.“ Eiginkona mín hefur alltaf staðið við bakið á mér. Hún gerir það enn alla daga.“
Þegar systir Mauerman hætti að vinna, einsettu þau sér að þjóna í trúboði. Átti fótaleysi öldungs Mauermans eftir að setja strik í reikninginn? „Það er margt sem ég get ekki gert,“ sagði hann, „en það er líka heilmargt sem ég get gert og því vissum við að við gætum þjónað einhversstaðar.
Þegar hann fyllti út umsóknarblöðin, merkti hann í reit sem tilgreindi að hann hefði verið í herþjónustu. Brátt var hringt í þau frá deild hermanntengsla kirkjunnar. „Ég hafði aðgangskort að herstöðvum, svo við vorum spurð að því hvort við gætum þjónað í trúboði við hermannatengsl.“
Mauerman-hjónin voru kölluð til að þjóna í herstöð í Norður-Karolínu, Bandaríkjunum. Öldungur Mauerman sagði: „Á skiltinu við hliðið stóð: ‚Fort Bragg, heimastöð fallhlífahermanna.‘ Þegar verðirnir heilsuðu okkur með kjörorðum fallhlífahermanna ‚alla leið!‘ hafði ég ekki heyrt þau í mörg ár. Mér fannst ég vera kominn heim, jafnvel þótt ég hefði aldrei komið til Fort Bragg. Mér varð ljóst að trúboðsköllunin hentaði okkur fullkomlega og að Drottinn bæri hag minn fyrir brjósti.“
„Við kenndum hvernig verða á sjálfbjarga og þolgóður og hvernig styrkja má hjónabandið,“ sagði systir Mauerman. „Til að byrja með vildum við ekki segja sögu okkar, en komumst svo að því að það gerði gæfumuninn að segja hana. Hermenn og makar þeirra litu á okkur og sögðu: ‚Ef þið getið þetta, þá getum við það líka.‘“
Dvöl Mauermans-hjónanna í Norður-Karolínu var svo jákvæð að þau báðu um að fá að þjóna aftur. Í dag aka þau tvisvar í viku um 65 kílómetra leið frá heimili sínu í Orem til Salt Lake City, til að þjóna í skrifstofu hermannatengsla á vegum kirkjunnar. Þau kenna líka eldri hjónum í trúboðsskólanum í Provo, þar sem þau sjá að í næstum öllum hópum er einhver sem hefur þurft að sigrast á erfiðleikum til að geta þjónað.
Alheimstungumál
Randy og Lou Ellen Romrell frá Utah urðu áhyggjufull þegar þau voru kölluð til að þjóna í Cuiabá trúboðinu í Brasilíu. Þótt öldungur Romrell hefði þjónað í trúboði í Brasilíu þegar hann var ungur maður, hafði portúgalskan horfið úr minni hans. Systir Romrell talaði ekki portúgölsku. Þau lögðu hart að sér við að læra portúgölsku, málið rifjast smám saman upp fyrir öldungi Romrell og systir Romrell náði framförum. Þau tóku líka með sér smágítarinn.
„Ég ætlaði í raun ekki að taka hann með,“ sagði systir Romrell, „en öldungur Romrell fékk hugboð um að taka hann með og hann hefur komið mörgu dásamlegu til leiðar. Þegar við kennum trúarnemum og vinnum að því að virkja og stuðla að vináttu, þá er skemmtilegt að spila á hann til að fá fólk til að taka þátt í sálmasöng. Við lærum tungumálið og andi sálmanna er áhrifaríkur.
Þótt portúgalskan lærist jafnt og þétt, þá er tónlistarkunnátta hennar þegar mjög góð. „Tónlist sameinar fólk,“ sagði hún. „Þótt ég skilji ekki allt sem fólkið segir í heimsóknum okkar, þá náum við saman þegar sungið er.“ Romrell-hjónunum var boðið að kynna þakkargjörðardag Bandaríkjamanna í skólum og við það tækifæri sungu þau þakkargjörðarsálma — og spiluðu á smágítarinn. Systir Romrell spilar líka á hefðbundnara hljóðfæri, píanóið, við sálmasöng í kirkju.
Hvað með portúgölskuna? „Þótt maður sé ekki altalandi, þá auðveldar það að læra fáein orð,“ sagði hún. „Að geta einfaldlega heilsað og kvatt gerir heilmikið. Látið fólkið finna að þið eruð að læra. Einfaldið hlutina og treystið andanum.“ Mál andans er auðvitað þess eðlis að allir fá skilið það.
Þjóna heima fyrir
Paul og Mar Jean Lewis frá Utah höfðu þegar þjónað í þremur trúboðum saman (Palmyra musterinu í New York; Hong Kong musterinu í Kína; og Trúarskólanum í Króatíu, Serbíu og Slóveníu). Þau voru að búa sig undir að þjóna í enn öðru trúboði, þegar stikuforseti þeirra spurði: „Mynduð þið vilja þjóna hér í stikunni ykkar, með því að styðja við trúboðið okkar?“
„Við erum ný hérna, svo þetta var dásamlegt tækifæri,“ sagði systir Lewis. „Við þjónum með yngri öldungunum og systrunum, erum í nánu sambandi við trúboðsforsetann, förum á svæðisfundi og eigum samvinnu við deildartrúboðsleiðtoga.“ Þau heimsækja líka trúarnema og lítt virka meðlimi.
„Við höfum kynnst dásamlegu fólki, sem við hefðum ekki gert að öðrum kosti,“ sagði systir Lewis, „þar á meðal þeim sem hafa villst frá. Að sjá þá koma aftur, taka á móti helgiathöfnum og fara í musterið, er dásamleg blessun.“
„Þegar mörg hjón íhuga að fara í trúboð, hafa þau oft áhyggjur af fjarveru frá fjölskyldunni eða hvað gera skuli við húsið og bílinn,“ sagði öldungur Lewis. „Við getum búið í eigin húsi og ekið eigin bíl. Við erum hvött til að taka þátt í fjölskylduviðburðum, svo framarlega sem þeir stangast ekki á við trúboðsskyldurnar. Við vorum meira að segja hér líka þegar eitt barnabarnið fæddist.“
Fjölskyldublessanir
Jill og Kent Sorensen, sem eru frá sömu stiku, hafa aðra reynslu og segja ekkert hafa styrkt fjölskylduna meira en þjónusta þeirra fjarri heimilinu. Systir Sorensen sagði: „Algengustu ástæður þess að eldri hjón vilja ekki fara í trúboð eru barnabörnin, gift börn sem eiga í erfiðleikum, dætur sem eiga von á barni, aldraðir foreldrar — allt mögulegt af þessum toga.“ Fjölskyldan er í fyrirrúmi og maður saknar hennar dag hvern. Sé farið í trúboð, sendir það áhrifarík skilaboð um að trúboðsstarfið sé líka mikilvægt.“
Öldungur Sorensen sagði: „Það er líka svo auðvelt að vera í sambandi nú til dags. Það er hægt að tékka á hlutunum hvenær sem er.“
Trúboðsferð Sorensen-hjónanna hófst fyrir þremur árum, þegar biskup þeirra bað þau að hýsa mánaðarlegar kvöldvökur fyrir hjón sem höfðu áhuga á trúboðsþjónustu. „Eftir að hafa rætt stöðugt um trúboðsþjónustu,“ sagði systir Sorensen, „urðum við sjálf að fara!“ Þau voru kölluð til að þjóna á Cook-eyjum, þar sem afi og amma Jill þjónuðu fyrir 50 árum.
Í dag hafa þau m.a. verið beðin að kenna biblíufræði í skólum.
„Við tölum um Krist sem bjargið,“ sagði öldungur Sorensen. „Við látum nemendur fá lítinn stein og hvetjum þá til að vera bjargfasta í Kristi.“ Þegar fólk hittir okkur núna, kallar það okkur „Hin bjargföstu!“
Komið til hjálpar
Ef þið veltið fyrir ykkur að fara í fastatrúboð eða kirkjulegt þjónustutrúboð, þá myndu öll þessi hjón spyrja ykkur sömu spurningar og Robison forseti spurði Gerald og Lorna Malmrose: „Getið þið komið til hjálpar?“ Þau munu líka segja ykkur að hvert sem starf ykkar verður, þá lofum við þessu: Það er þörf fyrir ykkur, þið getið lagt hönd á plóg og þið verðið blessuð og elskuð.