Spurningar og svör
„Það er gert grín að mér í skóla fyrir að vera SDH. Ég veit að ég þarf að standa á eigin sannfæringu en það er afar erfitt! Hvernig hlýt ég nægilegt hugrekki til þess?“
Þú þarft vissulega hugrekki til að takast á við þessar aðstæður. Jesús hefur boðið okkur: „Rísið og látið ljós yðar skína, svo að það verði þjóðunum tákn“ (K&S 115:5). Að hafa hugrekki til þess að láta ljós sitt skína, getur falist bæði í því að mæla móti þeim sem hæðast að ykkur og líka að gera það ekki.
Í hvoru tilviki, getið þið nýtt þá andstöðu sem hvatningu til að verða betri manneskja. Þegar þið keppið að því að styrkja vitnisburð ykkar, getið þið þróað það sem kalla má þögult hugrekki, sem auðveldar ykkur að mæla fram eða einfaldlega halda áfram að gera það sem rétt er, þrátt fyrir hæðni annarra.
Sífelld stríðni getur verið þreytandi, en minnist þess að þið getið beðist fyrir til að fyllast kærleika, svo aðrir skynji elsku Krists í ykkur (sjá Moró 7:48). Þar sem allar aðstæður eru sérstakar, þá ættuð þið að leita andans, til að vita hvernig bregðast á kristilega við í öllum tilvikum.
Best gæti verið að ræða einslega við þann sem hæðst hefur að ykkur, sem þó er háð aðstæðum, eða jafnvel leiða hjá sér hina óvinsamlegu hæðni og láta sem ekkert hafði í skorist. Ef aðrir hafa ekki áhuga á að hlusta á ykkur, gæti fordæmi ykkar um góðvild, fyrirgefningu og einlægni verið áhrifaríkasta leiðin.
Sýnið sanna hugdirfsku
Þeir sem hæðast að ykkur láta kannski ekki af þeirri iðju einungis vegna þess að þið eruð nægilega hugrökk til að biðja þau að hætta slíku. Þegar þið hins vegar lifið hugrökk eftir trú ykkar — sem Síðari daga heilagir — gætu þeir séð að sér. Áður en þið vitið af, mun ljómi og velþóknun himnesks föður falla yfir ykkur, svo þeir fái hugsanlega séð hið endurreista fagnaðarerindi í lífi ykkar.
Bright U., 17 ára, Imo fylki, Nígeríu
Finnið styrk í undirstöðuatriðunum
Bæn og fasta eru mikilvægir þættir í því að takast á við hæðni og áreiti í skólanum, á sama hátt og Jesú tókst á við stöðuga hæðni þegar hann var á jörðunni. Bæn og fasta mun hjálpa ykkur að þróa aukna elsku og þolinmæði gagnvart öðrum.
Walter C., 15 ára, Jaén, Perú
Bænahandleiðsla
Í langan tíma var ég eini kirkjumeðlimurinn í skólanum mínum. Bestu vinir mínir virtust skilja mig, en aðrir skólafélagar gerðu gys að mér. Dag einn baðst ég fyrir og fann þörf á að ræða við forsprakkann. Ég útskýrði að ég væri honum ekki reiður en bað hann að sýna mér þá virðingu sem hann kysi sjálfum sér. Eftir að hafa heyrt samtal okkar, reyndi einn kennarinn alltaf að koma mér til varnar þegar hann sá að eitthvað var í bígerð. Ég veit að Drottinn mun vera með ykkur er þið ræðið við þá sem þannig breyta.
Shanela S., 14 ára, Pangasinan, Filippseyjum
Styrkið vitnisburð ykkar
Öðlist fyrst vitnisburð um þann sannleika sem þið viljið miðla öðrum. Elskið síðan þá sem hæðast að ykkur og látið ekki leiðast út í þrætur, því Guð hefur aldrei velþóknun á þrætum (sjá 3 Ne 11:29). Mikilvægast er þó að keppa að því að hafa andann ætíð með sér. Andinn mun hjálpa ykkur að efla elsku ykkar og hugrekki og gera orð ykkar áhrifaríkari.
Julia F., 19 ára, Hesse, Þýskalandi
Elskið óvini ykkar
Ég hef upplifað álíka aðstæður. Ef þið sýnið trú og auðmýkt, munið þið blessuð með styrk og trú til að „[elska] óvini yðar, og [biðja] fyrir þeim, sem ofsækja [ykkur]“ (Matt 5:44). Ég hvet ykkur til að rannsaka ritningarnar til að skilja hvernig hægt er að sýna styrk í þessum aðstæðum. Biðjist fyrir þegar þið upplifið ykkur ein í trúnni. Róm 8:31 segir: „Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“ Guð er ykkar megin! Allt er mögulegt.
Regan T., 15 ára, Utah, Bandaríkjunum
Óttist ekki
Ræðið oftar um trú ykkar eða gerið eitthvað sem leiðir til þess að hún kemur til tals. Ég var í álíka aðstæðum og ritaði á skólatöskuna mína: „Ég elska að vera SDH.“ Með þessu opnaði ég dyr fyrir trúboð og sýndi fólki að ég hræddist ekki að láta það vita að ég væri SDH. Hvað sem þið takið til ráðs, verið þá viss um að þeim takist ekki að draga ykkur niður. Biðjið fyrir þeim og ykkur sjálfum. Þið munuð brátt komast að því, ef þið reynið að færa öðrum hjálpræði, að þið óttist síður að segja þeim frá sannleika fagnaðarerindis föður okkar.
Savanna P., 14 ára, Texas, Bandaríkjunum
Hugrekki og sannfæring
„Oft er erfitt að vera öðruvísi og standa einn upp úr í mannfjölda. Það er eðlilegt að hafa áhyggjur af því hvað aðrir kunna að hugsa eða segja. Þessi orð í Sálmunum eru hughreystandi: ‚Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?‘ [Sálm 27:1]. Þegar við höfum Krist að miðpunkti lífs okkar, mun hugrekki og sannfæring koma í stað ótta.“
Thomas S. Monson forseti, „Be an Example and a Light,“ Liahona, nóv. 2015, 88.
Næsta spurning
„Hvernig veit ég hvort Guð hlustar á bænir mínar?“
Sendið svör ykkar, og ef þið viljið, ljósmynd í hárri upplausn, fyrir 1. maí 2016, á liahona.lds.org, með tölvupósti til liahona@ldschurch.org eða með hefðbundnum pósti (sjá póstfang á síðu 3).
Eftirfarandi upplýsingar og heimild verða að fylgja í bréfi ykkar eða tölvupósti: (1) fullt nafn, (2) fæðingardagur, (3) deild eða grein, (4) stika eða umdæmi, (5) skriflegt leyfi ykkar, eða foreldra ykkar, ef þið eruð undir 18 ára aldri, (tölvupóstur er viðunandi), til að birta svar ykkar og ljósmynd af ykkur.
Svartexti kann að verða styttur eða lagaður til.