Friður í hjarta
Þegar ég var átta ára, sá ég spámanninn, David O. McKay forseta (1873–1970). Hann kom til að vígja nýja kirkjubyggingu í Palmyra, New York, Bandaríkjunum. Fjölskylda mín fór á vígsluathöfnina. Fjöldi fólks var þar saman kominn. Við hlökkuðum öll til að sjá spámanninn!
Ég var nokkuð ung, svo mér reyndist erfitt að sjá fyrir mannfjöldanum. Ég skynjaði samt elsku McKays forseta. Ég sá honum rétt bregða fyrir, hvíthærðum með ljúfan svip. Ég hugsaði með mér: „Svo þannig lítur spámaður Guðs út.“ Ég hafði lesið um spámenn í ritningunum, en þetta var í fyrsta sinn sem ég sá spámann eða einhvern aðalvaldhafa í eigin persónu. Mér varð ljóst að spámenn eru venjulegir menn. Þeir elska okkur! Ég gleymi aldrei þeim kærleika og friði sem ég upplifði þennan dag.
Þegar ég var 11 ára upplifði ég aðra reynslu þar sem ég fann frið í hjarta mínu. Stikuráðstefna var fyrir höndum og ég fékk að syngja í stikukórnum. Ég hlakkaði mikið til þess! Ég var í fallegri hvítri skyrtu og mér fannst ég afar sérstök. Í söngtextanum voru orð úr Jóhannes 14:27: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“
Þessi orð höfðu mikil áhrif á mig og ég hef æ síðan minnst þeirra. Þegar ég söng þessi orð, vissi ég að þau væru sönn. Ég fann heilagan anda segja að við finnum frið með því að fylgja Jesú Kristi. Upp frá þessu, kemur þetta ritningarvers í huga minn þegar ég á erfitt og veitir mér frið. Sá sannleikur sem ég lærði sem barn, hefur blessað mig alla ævi.