2016
Öldungur Ronald A. Rasband: Hæfur leiðtogi, tryggur faðir
April 2016


Öldungur Ronald A. Rasband: Hæfur leiðtogi, tryggur faðir

Ljósmynd
Elder Rasband

Ljósmyndir birtar með leyfi Rasband-fjölskyldunnar, nema annað sé tekið fram

Ron Rasband var aldrei í vafa um að þjóna í fastatrúboði. Þegar hann opnaði trúboðsköllunar-bréfið 19 ára gamall, hugsaði hann aðeins um það hvert hann yrði sendur.

„Faðir minn fór í trúboð til Þýskalands. Eldri bróðir minn fór í trúboð til Þýskalands. Tilvonandi mágur minn fór í trúboð til Þýskalands,“ rifjaði hann upp. „Ég hélt að ég yrði líka sendur til Þýskalands.“

Drottinn hafi þó annað í huga. Ron var þess í stað kallaður í trúboðið í austurríkjunum, sem hefur höfuðstöðvar í New York borg, Bandaríkjunum. Hann varð fyrir vonbrigðum, fór inn í svefnherbergið sitt, kraup við rúmið, flutti bæn, opnaði ritningarnar af handahófi og tók að lesa:

„Sjá og tak eftir, ég á marga á þessum slóðum, í nærliggjandi héruðum, og áhrifamiklar dyr munu opnast á nálægum svæðum hér í austurhluta landsins.

Þess vegna hef ég, Drottinn, látið yður koma til þessa staðar, því að það var mér æskilegt til hjálpræðis sálunum“ (K&S 100:3-4; skáletrað hér).

Heilagur andi staðfesti um leið fyrir Ron að köllun hans til trúboðsins í austurríkjunum væri ekki mistök.

„Vonbrigði mín hurfu og ég hlaut minn fyrsta innblástur af mörgum, um að þetta væri sá staður sem Drottinn vildi að ég færi á,“ sagði hann. „Þetta var mér mikilvæg andlega reynsla.“

Trúboð hans í austurhluta Bandaríkjanna, var fyrsta köllun hans af mörgum, sem leiddu hann til staða sem hann hafði aldrei vænst að fara á. Í hverri köllun – sem kennari, biskup, háráðsmaður, trúboðsforseti, einn af hinum Sjötíu og postuli Drottins Jesú Krists – hefur öldungur Rasband beygt sig undir vilja Drottins og stöðugt reitt sig á anda Guðs, er hann hefur þjónað börnum hans.

Af góðum foreldrum kominn

Í sinni fyrstu ræðu sem postuli Jesú Krists, þá færði öldungur Rasband innilegar þakkir fyrir áa sína. „Ég [er] af góðum og trúuðum foreldrum kominn,“ sagði hann, „og þau eiga góða foreldra í sex ættliði.“1

Ljósmynd
young Elder Rasband with parents

Móðir hans, Verda Anderson Rasband, var ástúðlegur leiðtogi, sem innrætti Ron ást á ritningunum. Faðir hans, Rulon Hawkins Rasband, var trúfastur prestdæmishafi og mikill vinnuþjarkur.

Ronald A. (Anderson) Rasband fæddist í Salt Lake City, Utah, Bandaríkjunum, hinn 6. febrúar 1951, og var eina barnið sem foreldrar hans áttu saman. Bæði höfðu áður gifst og skilið og Ron naut aukinnar umönnunar tveggja eldri bræðra og eldri systur.

„Hann var ávöxtur beggja foreldra okkar og var okkur því afar kær,“ sagði systir hans, Nancy Schindler. „Ron leyfði aldrei að mamma eða pabbi stæðu eða sætu saman án þess að hann væri á milli þeirra.“

Ron var yfirleitt góður drengur, en hann viðurkennir þó að hafa átt sínar hrekkjóttu hliðar.

Að hans sögn, þá fóru „Barnafélagskennarar hans til móður [hans], Barnafélagsforseta stikunnar, og sögðu: ‚Þessi Ronnie Rasband er erfiður krakki.‘ Þær gáfust hins vegar aldrei upp á mér. Þær sýndu mér mikla ástúð og buðu mér alltaf aftur í námsbekkinn.“2

Bernska Rons snérist um kirkjuna – fundi, gleðskap, málsverði og íþróttalið deildarinnar. Ef hann var ekki önnum kafinn við eitthvað í samkomuhúsi Fyrstu CottonWood deildarinnar, var hann í hlutastarfi, skátastarfi eða með vinum sínum. Heima snérist tími fjölskyldunnar um ritningarnar, leiki eða heimilishaldið.

„Faðir minn kenndi mér vinnusemi með eigin fordæmi,“ sagði hann. „Móðir mín kenndi mér að vinna með því að fela mér verkefni.“

Faðir Rons ók sendiferðabifreið í brauðdreifingu og þurfti því að vakna klukkan fjögur að morgni og kom svo seint heim að kvöldi. Móðir hans var heima til að ala upp börnin og drýgði tekjur heimilisins með því að búa til og selja postulínsdúkkur.

Ron ávann sér ungur hæfni til að leiða, fela öðrum verkefni og koma mörgu til leiðar – sem kom sér vel fyrir hann í atvinnu og kirkjulegri ábyrgð.

„Ron fékk það verk að slá blettinn,“ sagði systir hans. Ron, líkt og Tom Sawyer í sögu Mark Twains, hafði hins vegar, lag á að fá vini sína sér til hjálpar.

„Þegar mér varð litið út, þá sá ég að besti vinur hans var að slá blettinn fyrir hann,“ sagði Nancy. „Vikunni á eftir sló annar vinur hans blettinn fyrir hann. Hann sat bara á veröndinni og hló og spaugaði með þeim, meðan þeir unnu verkið hans.“

Foreldrar Rons áttu erfitt fjárhagslega, en fjölskyldan hafði fagnaðarerindið. „Við áttum aldrei mikið af peningum,“ sagði Ron, „en það dró ekki úr gleði minni.“

Traustir vinir og leiðtogar

Ron naut þeirrar blessunar að eiga góða vini og trausta prestdæmisleiðtoga, þar með talið stikuforsta æskuára sinna til 14 ára – James E. Faust (1920-2007), sem síðar þjónaði í Tólfpostulasveitinni og Æðsta forsætisráðinu. Fjölskylda Rons naut náins sambands við Faust forseta og fjölskyldu hans. „Hann sagði mig alltaf vera einn af Cottonwood piltunum sínum, því hann átti sinn þátt í uppeldi mínu,“ sagði hann.

Ron hafði engan tíma fyrir skólaíþróttir í efrideildum grunnskóla, því hann var alltaf í vinnu, en hann gaf sér tíma til að rækta trygga og varanlega vináttu.

„Ég hef alltaf dáðst að Ron fyrir þann mann sem hann hefur að geyma, ,en hann var ekki fullkominn,,“ sagði æskuvinur hans, Kraig McCleary. Hann bætti við brosandi: „Ég hef sagt honum að ef hann kemst til himna, þá mun ég líka gera það, því við höguðum okkur eins á uppeldisárum okkar.“

Ron fór í trúboð snemma á áttunda áratugi tuttugustu aldarinnar, en Kraig hafði hugsað sér að fresta trúboði sínu fram að lokum haust-veiðitímabilsins. Ron hringdi þá í hann frá trúboði sínu.

„Ég veit ekki hvernig hann fékk leyfi til að hringja, en hann lét mig heyra það fyrir að hafa ekki meiri áhuga á að fara eins fljótt og auðið var í trúboð,“ sagði bróðir McCleary. „Auðvitað frestaði ég því þá ekki.“

Ron sagði trúboðið sitt hafa verið „frábæra“ reynslu. „Drottinn blessaði mig með mörgum trúarstyrkjandi upplifunum,“ sagði hann. „Trúboðið var gríðarlega mikilvægt fyrir mitt andlega líf.“

Ron varði hluta trúboðsins á Bermúdaeyjum. Trúboðsforseti hans, Harold Nephi Wilkinson, sendi aðeins „strangheiðarlega trúboða“ þangað, því hann hafði aðeins tök á að heimsækja þá annað veifið.

„Við þurftum að reiða okkur algjörlega á okkur sjálfa, en forsetinn þurfti ekki að hafa áhyggjur af okkur,“ sagði Ron. „Við gerðum það sem okkur bar.“

„Draumastúlkan“ í Delta Phi

Þegar Ron hafði lokið trúboði sínu árið 1972, fékk hann sér vinnu, skráði sig í Utah háskólann um haustið og gekk í Delta Phi Kappa, sem var félagsskapur fyrrverandi trúboða. Á skemmtun í þessum félagsskap komst hann ekki hjá því að veita athygli fallegri ungri konu sem hét Melanie Twitchell. Melanie var ein af útvöldum „draumastúlkum“ Delta Phi, sem aðstoðuðuvið þjónustuathafnir félagsins.

Líkt og Ron, þá var Melanie frá virkri fjölskyldu Síðari daga heilagra. Faðir hennar, embættismaður í hernum, og móðir leyfðu aldrei að stöðugir flutningar kæmu í veg fyrir að þau færu í kirkju.

Melanie var hrifin af vingjarnleika og háttvísi Rons og þekkingu hans á fagnaðarerindinu. „Ég sagði við sjálfa mig: ‚Hann er svo dásamlegur maður að engu skiptir hvort hann færi með mig á stefnumót. Ég vil bara vera besti vinur hans.‘“

Þegar samband þeirra þróaðist, staðfesti andinn hugsanir hennar um Ron og skuldbindingu hans við Drottin. Brátt þróaðist vinátta þeirra yfir í það sem Melanie sagði vera „sögubókar-ástarævintýri.“

Öldungur Rasband sagði þau hafa smollið algjörlega saman. „Melanie stóð mér fyllilega á sporði í tryggð og skuldbindingu við fagnaðarerindið. Við urðum bestu vinir og þá bað ég hana að giftast mér.“

Ljósmynd
Rasbands wedding day

Þau giftust í Salt Lake musterinu, 4. september 1973. „Í gegnum árin,“ sagði hann, „hefur minn óeigingjarni eilífi lífsförunautur … átt sinn þátt í að móta mig, eins og leir leirkerasmiðsins, í fágaðri lærisvein Krists. Ást hennar og stuðningur, sem og barna okkar fimm, maka þeirra og 24 barnabarna veitir mér þrótt.“3

„Komum okkur af stað“

Þegar Ron þjónaði sem öldungasveitarforseti í deild sinni fyrir gifta nemendur, kynntist hann Jon Huntsman eldri, sem var háráðsráðgjafi. Jon varð fljótt hrifinn af því hvernig Ron leiddi sveitina.

„Hann bjó yfir miklum leiðtoga- og skipulagshæfileikum,“ sagði öldungur Huntsman, sem þjónaði sem svæðishafi Sjötíu frá 1996 til 2011. „Mér fannst óvenjulegt að ungur maður, sem enn var í háskóla, gæti leitt sveit á slíkan hátt.“

Í nokkra mánuði fylgdist Jon með Ron útfæra hugmyndir, er hann framfylgdi prestdæmisskyldum sínum. Þegar yfirmannsstaða í markaðssetningardeildinni losnaði í fyrirtæki Jons – sem síðar varð Huntsman Chemical Corporation – komst hann að þeirri niðurstöðu að Ron hefði þá hæfni sem hann sóttist eftir og bauð honum stöðuna. Hann þurfti að hefja störf í vikunni þar á eftir í Ohio, Bandaríkjunum.

„Ég sagði við Melanie: ‚Ég ætla ekki að hætta í skóla og flytja,‘“ sagði Ron. „Ég hef unnið að alla ævi að því að útskrifast úr háskóla og sé nú loks fyrir endann á því.“

Melanie minnti Ron á að hann væri í skóla til að verða sér úti um gott starf.

„Af hverju hefurðu áhyggjur?“ spurði hún. „Ég hef áður pakkað saman og flutt. Ég hef gert það alla ævi. Ég leyfi þér að hringja í móður þína á hverju kvöldi. Komum okkur af stað.“

Ljósmynd
Elder Rasband with Jon Huntsman Sr

Ron stóð undir því trausti sem Jon hafði vænst af honum. Ron lærði af Jon og fékk fljótt stöðuhækkanir í hinu vaxandi fyrirtæki, varð forseti þess og aðalframkvæmdastjóri árið 1986. Hann ferðaðist mikið fyrir fyrirtækið – bæði innan og utanlands. Þrátt fyrir sína þéttskipuðu dagskrá, þá reyndi Ron að vera heima um helgar. Þegar hann ferðaðist, hafði hann stundum fjölskyldumeðlimi með sér.

„Þegar hann var heima, lét hann börnunum finnast þau sérstök og elskuð,“ sagði Melanie. Alltaf þegar hægt var að koma því við, mætti hann á athafnir og íþróttaviðburði barnanna. Jenessa MacPherson, ein af fjórum dætrum hjónanna, sagði hinar kirkjulegu skyldur föður síns á sunnudögum oft hafa komið í veg fyrir að hann gæti setið hjá fjölskyldu sinni á kirkjusamkomum.

„Við þráttuðum yfir hvert okkar fengi að sitja hjá honum í kirkju, því það var svo sérstakt að fá að hafa hann við hlið okkar,“ sagði hún. „Ég minnist þess að hafa sett hönd mína í hans og hugsað með mér: ‚Ef ég aðeins gæti lært að líkjast honum, þá væri ég á réttri leið og líktist meira frelsaranum.‘ „Hann var alltaf hetjan mín.“

Ljósmynd
Rasband family

Christian, sonur hjónanna, rifjaði upp kærar minningar um „feðgastundir.“ Vinir komu og fóru, því fjölskyldan flutti oft, sagði hann, „en faðir minn var alltaf minn besti vinur“ – þótt hann hefði líka verið samkeppnisaðili.

Hvort sem Ron lék körfubolta við Christian, borðsspil við dæturnar eða veiddi fisk með fjölskyldunni, þá hafði hann unun af því að sigra.

„Á uppeldisárum okkar þá leyfði hann aldrei neinum að sigra,“ sagði Christian. „Við þurftum að verðskulda það og það jók hæfni okkar. Þeim sið viðheldur hann meðal sinna ástkæru barnabarna.“

Eftir því sem árin liðu, þá komst fjölskylda Rons ekki hjá því að taka eftir því hvernig þjónusta hans í leiðtogastöðum kirkjunnar jók getu hans til að sýna kærleika og samúð, tjá andans tilfinningar og innblása aðra til að gera sitt besta. Eftir að Paxton, barnabarn Rons og Melanie, fæddist, reiddi fjölskyldan sig algjörlega á andlegan styrk og stuðning Rons.

Paxton fæddist með sjaldgæfa erfðaröskun og var afar heilsulaus, sem reyndi mjög á fjölskyldu hans, bæði líkamlega, tilfinningalega og andlega. Öldungur Rasband sagði reynsluna í kjölfar fæðingar Paxtons hafa verið „þolraun og sérstaka lexíu um eilífðina.“4

Ljósmynd
Elder and Sister Rasband with grandson

Á hinu stutta þriggja ára æviskeiði Paxtons á jörðunni – þegar spurningar voru margar en svörin fá – var öldungur Rasband andlegur stólpi, sem leiddi fjölskyldu sína til þess að virkja kraft friðþægingar Jesú Krists.

Þegar tilkynnt var um hina nýju köllun hans, kom það mörgum fjölskyldumeðlimum og vinum ekki á óvart. „Þau okkar sem þekktu hann best,“ sagði Christian, „réttu hönd hæst á loft þegar hann var studdur sem postuli.“

„Ég fer þangað sem vilt að ég þjóni“

Árið 1996, er Ron var 45 ára og athyglin beindist að starfsframanum, fékk hann boð um að þjóna sem trúboðsforseti í Norður New York trúboðinu. Líkt og postularnir til forna, þá „[yfirgaf hann netin sín þegar í stað]“ (Matt 4:20).

„Það tók mig aðeins brot úr sekúndu að samþykkja köllunina,“ sagði öldungur Rasband. Hann sagði við Drottin: „Ég fer þangað sem vilt að ég þjóni.“

Ron bjó yfir mikilvægri lexíu sem honum hafði lærst í starfi: „Fólk er öllu mikilvægara.“5 Með þessa þekkingu og góða leiðtogahæfni, var hann undir það búinn að helga sig eingöngu þjónustu í ríki Drottins.

Ljósmynd
Elder Rasband as mission president in New York

Ron og Melanie fannst trúboðsstarfið í New York borg bæði krefjandi og lærdómsríkt. Ron var fljótur að úthluta trúboðunum verkefnum – höfða til hollustu þeirra, fræða þá, uppörva og efla á sama tíma.

Árið 2000, aðeins átta mánuðum eftir að Ron og Melanie höfðu lokið trúboði sínu, var Ron kallaður sem einn hinna Sjötíu, þar sem starf hans, reynsla og hæfileikar hafa blessað kirkjuna. Sem einn hinna Sjötíu, þjónaði hann sem ráðgjafi í forsætisráði Mið-Evrópusvæðisins og hafði umsjón með starfinu í 39 löndum. Þótt hann hefði hætt í framhaldsskóla fyrir rúmum 40 árum, þá tók hann lærdóminn alvarlega með því að læra af sínum eldri bræðrum, er hann hafði umsjón með vestur- og norðvesturhluta Norður-Ameríku og þremur svæðum í Utah; þjónaði sem framkvæmdastjóri musterisdeildarinnar; og í forsætisráði hinn Sjötíu, í nánu samstarfi við hina Tólf.

Nýlega sagði öldungur Rasband: „Hve dásamlegur heiður og forréttindi það er fyrir mig að vera hinn minnsti meðal hinna Tólf og læra af þeim á allan hátt og við öll tækifæri.“6

„Ég veit það sem þeir vissu“

Ljósmynd
two paintings

Efst til vinstri: Ljósmynd eftir Wendy Keeler; hægri: Mormónaprédikarar, Fyrstu trúboðar Danmerkur, eftir Arnold Friberg (byggt á málverki eftir Christen Dalsgaard, 1856); Dan Jones Awakens Wales, eftir Clark Kelley Price

Tvö málverk prýða veggi skrifstofu öldungs Rasbands. Annað er af mormónatrúboðum að kenna fjölskyldu í Danmörku á sjöttaáratug átjándu aldar. Hitt er af Dan Jones, trúboða á árum áður, standandi á brunni við að prédika á Bretlandseyjum. Myndirnar (að ofan til hægri) minna öldung Rasband á eigin forfeður.

Hann hefur vitnað: „Þessir fyrrum brautryðjendur gáfu allt sem þeir áttu til að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists og skilja eftir arfleifð sem niðjar þeirra geta fylgt.“7 Það sem knúði áa öldungs Rasbands til að sækja áfram í öllu mótlætinu og ofsóknunum, er það sem gerir hann hæfan fyrir hina nýju köllun: Þekking og öruggur vitnisburður um Drottin og verk hans.

„Ég á svo margt ólært í minni nýju köllun,“ sagði hann. „Ég finn til mikillar auðmýktar yfir því. Það er eitt sem tilheyrir köllun minni sem ég get þó gert. Ég get borið ‚vitni [nafni] Krists um allan heim‘ (K&S 107:23). Hann lifir!“8

Hann sagði líka, sem barnabarnabarn brautryðjenda: „Ég finn það sem þeir fundu. Ég veit það sem þeir vissu.“9

Með lífi sínu, kennslu og þjónustu, þá stendur öldungur Ronald A. Rasband fyllilega undir þeim væntingum sem forfeður hans gerðu til niðja sinna. Öldungur Rasband fylgir fordæmi þeirra og heiðrar arfleifð þeirra, er hann sækir áfram sem eitt af hinum sérstöku vitnum Drottins.

Heimildir

  1. Ronald A. Rasband, „I Stand All Amazed,“ Liahona, nóv. 2015, 89.

  2. Ronald A. Rasband, „Friend to Friend: Golden Nuggets,“ Friend, okt. 2002, 8.

  3. Ronald A. Rasband, „I Stand All Amazed,“ 89.

  4. Ronald A. Rasband, „Special Lessons,“ Liahona, maí 2012, 80.

  5. Ronald A. Rasband, fréttaráðstefna, 3. okt 2015.

  6. Ronald A. Rasband, vitnisburður, trúarræða Prestdæmis- og fjölskyldudeildar, 1. des. 2015.

  7. Ronald A. Rasband, „I Stand All Amazed,“ 89.

  8. Ronald A. Rasband, vitnisburður.

  9. Ronald A. Rasband, ræða flutt á Brautryðjandadegi, Laufskálinn, Salt Lake City, 24. júlí 2007.

Prenta