2016
Er hann biskupinn?
April 2016


Er hann biskupinn?

Höfundur býr í Illinois, Bandaríkjunum.

Meðlimur sem þekkti mig á árum áður átti erfitt með að trúa að ég hefði verið kallaður sem biskup, því ég hafði verið lítt virkur.

Ljósmynd
the bishop

Teikning eftir Mark Smith © 2016

Á framkvæmdafundi prestdæmisins greindu trúboðarnir frá því að þeir hefðu hitt meðlim sem ekki væri á skrá deildarinnar. Ég þekkti nafnið þegar og sagði að við hefðum verið í sömu deild fyrir mörgum árum síðan.

Annar trúboðanna sagði: „Já, biskup, hún sagði frá því og virtist furða sig á því að þú værir biskup.“

Ég spurði þá: „Hvað sagði hún?“

Þeir sögðu að hún hefði verið afar undrandi og sagt: „Er hann biskupinn?“

Ég hló og útskýrði að þessi systir hefði þekkt mig sem allt annan mann fyrir 30 árum.

Þegar ég hugsaði síðar um þetta atvik, varð mér ljóst hve miklum breytingum líf mitt hefði tekið á síðustu 30 árum, sem ég og fjölskylda mín höfðum verið meðlimir. Ég hef þekkt marga meðlimi deildar minnar í 20 ár og þjónað sem greinarforseti og biskup, en enginn þeirra þekkti mig fyrir 30 árum. Þótt ég hafi endrum og eins sagt frá atvikum sem gerst hafa í lífi mínu til að kenna um iðrun og friðþægingu Jesú Krists, þá vita fæstir í deildinni hve ótrúleg lífsferð mín í kirkjunni hefur verið.

Mér og fjölskyldu minni var sagt frá kirkjunni í maí 1979 og mér varð þegar ljóst að hún væri okkar staður. Við vorum skírð í júní og vorum öll virk í fyrstu, en það leið ekki á löngu áður en ég hætti að mæta og snéri mér að gömlum ávönum. Ég efaðist í raun aldrei um sannleiksgildi fagnaðarerindisins og endurreisnarinnar, en taldi mig ekki hafa það sem þurfti til að verða góður meðlimur.

Árið 1982 sótti eiginkona mín um skilnað sökum áfengisneyslu minnar, en hún hafði aldrei látið af trúnni. Á þessum tíma bjó fjölskylda mín í Oklahoma, Bandaríkjunum, en ég hafði snúið aftur til Illinois, á uppeldisstöðvar mínar. Ég var kominn að þeim mörkum að missa það eina sem sannlega skipti mig máli: Fjölskylduna mína.

Ég tók að biðja krjúpandi, bæði kvölds og morgna,til Guðs sem ég var ekki lengur viss um að væri til eða, ef hann væri til, að hann hefði þá fyrir löngu gleymt mér. Ég baðst staðfastlega fyrir í þrjá mánuði. Árla morgun einn, meðan ég var í innilegri bænagjörð, upplifði ég mikinn frið og ég vissi að Guð lifði og elskaði mig. Ég vissi líka að ég myndi aldrei framar drekka dropa af áfengi.

Að kvöldi sama dags hringdi eiginkona mín í mig, til að láta mig vita að hún hyggðist senda mér skilnaðarskjölin til undirritunar. Er við ræddum saman, sagði hún skyndilega: „Þú ert afar ólíkur sjálfum þér. Ég held að þú eigir aldrei aftur eftir að neyta áfengis, svo ég ætla að rífa pappírana.“ Við sameinuðumst aftur og tveimur árum síðar fæddi hún okkar þriðja son.

Sumir hefðu nú ætlað að ég hefði snúið til fullrar virkni í kirkjunni, en ég er afar þrjóskur maður. Ég snéri aftur um tíma og hlaut jafnvel köllun sem kennari í öldungasveitinni. Mér fannst brátt að ég ætti erfitt með að kenna og varð aftur óvirkur.

Árið 1991 fluttum við í fámenna grein. Nokkrum mánuðum fyrir átta ára afmæli yngsta sonar okkar, spurði eiginkona mín, Barnafélagsforsetinn, hann að því hvern hann vildi að framkvæmdi skírnina hans. Auðvitað vildi hann að faðir sinn framkvæmdi helgiathöfnina. Eiginkona mín sagði honum að líklega yrði það ekki niðurstaðan. Hann sætti sig ekki við þetta svar og lagði fyrir sig að virkja föður sinn. Hann hélt ótrauður áfram og áður en ég vissi af var ég þjónandi sem skátaforingi og síðar skírði ég og staðfesti son minn.

Þeir átta mánuðir sem fylgdu í kjölfar endurvirkjunar minnar voru viðburðarríkir. Við vorum innsigluð sem fjölskylda í Chicago musterinu í Illinois og ég var aftur kallaður sem kennari í öldungasveitinni og í þetta sinn hélt ég því til streitu. Ég var síðan kallaður sem ráðgjafi í forsætisráði greinarinnar og fimm mánuðum síðar var ég kallaður sem greinarforseti. Ég minnist þess að hafa hugsað með mér, um mánuði eftir köllun mína: „Ég er greinarforsetinn?“

Á liðnum árum hef ég sagt mörgum heilögum sem átt hafa erfitt, að þar sem ég náði árangri í fagnaðarerindinu, ættu allir að geta gert það. Það snýst bara um að skilja hinn raunverulega mátt frelsarans og friðþægingar hans og að taka skrefin í átt að honum.

Ég verð eiginkonu minni og börnum ævinlega þakklátur og öllum hinum trúföstu heimiliskennurum, sveitarleiðtogum, biskupum og öðrum trúföstum heilögum, sem hafa verið mér svo dásamlegar fyrirmyndir. Það hafa verið mér forréttindi að þjóna Drottni og hinum heilögu síðastliðin 20 ár. Líf mitt hefur verið blessað umfram allt sem ég fékk ímyndað mér.

Prenta