2016
Þegar klám hefur sýkt heimilið – þurfa bæði hjónin að leita sér lækningar
April 2016


Þegar klám hefur sýkt heimilið – þurfa bæði hjónin að leita sér lækningar

Frá fyrstu hendi hef ég séð mátt frelsarans til að lækna bæði eiginkonur og eiginmenn, er eiginmenn hafa átt í erfiðleikum með klámfíkn.

Ljósmynd
husband, wife, and Christ

Ljósmynd er uppstilling

Á fyrstu sex mánuðum mínum sem biskup, komu til mín nokkur hjón í deildinni og trúðu mér fyrir því að eiginmaðurinn ætti í erfiðleikum með klámfíkn. Í nokkrum tilvikum var eiginkonan í áfalli yfir að hafa rétt áður komist að þessu átakanlega leyndarmáli og í öðrum tilvikum höfðu þær vitað það í mánuði eða ár.

Ég hef fundið til samúðar með öllum þessum hjónum og upplifað endurleysandi mátt frelsarans, er ég hef reglubundið veitt bræðrunum handleiðslu, til að hjálpa þeim að „[hrista af sér] hlekki þess, sem vill fjötra [þá] fasta“ (2 Ne 9:45).

Úthelling andans hefur þó kannski verið einna mest, þegar ég hef átt viðtal við eiginkonurnar. Ég hef komist að því, hvort sem særindin eru ný til komin eða hafa staðið yfir árum saman, að allar þessar systur upplifa mikinn andlegan sársauka, sem stafar af sjálfásakandi spurningum, líkt og: „Hvað hef ég gert til þess að hann laðist ekki að mér?“ eða „Af hverju kýs hann að ímynda sér að hann sé með einhverri annarri en mér?“

Þar sem það er eiginmaðurinn sem hefur brotið af sér, er biskupi tamt að halda að það sé eiginmaðurinn sem hafi mesta þörf fyrir lyklana sem ljúka upp lækningarmætti frelsarans, en mér hefur lærst að eiginkonan hafi ekki síður þörf á að læknast af sársauka og áfalli en eiginmaðurinn af synd og þrálátri fíkn.

Þegar spámaðurinn Jakob prédikaði fyrir Nefítum, þá fordæmdi hann karlmennina fyrir að vera ótrúir eiginkonum sínum, „sem [flestar] hafa mjög viðkvæmar, hreinar og ljúfar tilfinningar til Guðs, sem Guði er einmitt mjög þóknanlegt“ (Jakob 2:7). Hann hélt áfram: „Þér hafið sært hjörtu blíðlyndra eiginkvenna yðar … vegna þess slæma fordæmis, sem þér hafið sýnt þeim. Og andvörp hjartna þeirra stíga upp til Guðs og tala gegn yður“ (Jakob 2:35). Ég hef sjálfur orðið vitni að slíkri sorg. Oft á hún ekki bara rætur í þeirri ótryggð sem eiginkonan upplifir svo sterklega vegna klámfíknar eiginmannsins, heldur á hún líka rætur í vanvirðandi orðum og stöðugum önugleika eiginmannsins, sem stafar af hans innri baráttu. Í raun er það ekki óalgengt að sá maður sem upp hefur komist um, varpi sök á eiginkonu sínu fyrir eigin breytni, með því að vísa í eitthvað sem hún hefur gert eða látið hjá líða að gera. Því miður er heldur ekki óalgengt að eiginkonan verði meðvirk í þessu og fari jafnvel að leggja trú á ásakanirnar.

Ein slík hjón sátu í skrifstofu minni, aðeins fáeinum dögum eftir að eiginmaðurinn hafði greint frá klámfíkn sem hafði plagað hann allt frá unglingsárum. Eftir að eiginkonan hafði hlustað á kennslu í Líknarfélaginu, sem byggðist á aðalráðstefnuræðu systur Lindu S. Reeves, frá apríl 2014, sem heitir „Vernd frá klámi — Kristur sem þungamiðja heimilisins,“ fór hún að sjá í gagnrýnandi viðhorfi eiginmanns hennar gagnvart henni, ýmsar þær hneigðir sem kennarinn fjallaði um. Að lexíu lokinni, lagði hún að eiginmanni sínum að segja sér sannleikann og hann játaði það sem hann hafði svo lengi haldið leyndu. Sjálfsmat hennar hafði þegar skaðast og nú bættist við mikil gremja og reiði. Á fyrsta fundinum með mér, áttu þau í erfiðleikum með að sjá hvernig þau gætu viðhaldið hjónabandinu. Ég fullvissaði þau um að vonin væri fyrir hendi, veitti þeim fyrstu leiðsögn og bauð þeim síðan að koma aftur til að hitta mig hvort fyrir sig.

Ásamt því að biðjast fyrir heitt og innilega, til að búa mig undir slíka fundi, þá ígrundaði ég líka þær ábendingar sem fram koma í Ministering Resources á LDS.org, einkum þar sem greint er frá því hvernig styðja á maka þeirra sem haldnir eru klámfíkn, en þar er ritað: „Tjáðu henni persónulega elsku og umhyggju, ekki síður en maka hennar. Útskýrðu að hún beri ekki ábyrgð á klámfíkn maka síns eða slæmri breytni og þess sé ekki vænst að hún líði misbjóðandi hegðun.“

Á fundi mínum með þessari systur, veitti ég henni þessa leiðsögn og bætti við að breytni eiginmanns hennar ætti sér enga sök hjá henni, að hún tengdist engu sem hún hefði gert eða ekki gert, heldur snérist þetta aðeins um hans innri baráttu. Ég fann mikinn létti og huggun koma yfir hana, er hún meðtók þessi orð, og fann að andinn staðfesti að þau væru vissulega sönn. Í lok viðtalsins bað hún mig um að veita sér prestdæmisblessun. Mér varð ljóst að ég var sá eini sem hún gat leitað til eftir slíkri blessun, því hún kaus að segja ekki vinum og fjölskyldu frá þessum vanda.

Ég bauð eiginmanninum að sækja batafundi fyrir Síðari daga heilaga fíkla og hvatti eiginkonu hans til að sækja samsvarandi fund fyrir maka og fjölskyldumeðlimi. Hún sagði mér frá hughreystingunni sem hún hafði upplifað frá öðrum systrum, sem skildu þjáningar hennar og voninni sem hún hlaut við að sjá hjón, sem höfðu glímt við sama vanda og tekist að sigrast á honum í sameiningu.

Nokkrir mánuðir hafa nú liðið frá fyrsta fundi mínum með þessum hjónum og kærleikur minn og umhyggja fyrir þeim hefur vaxið sem afleiðing af þeim fjölda funda sem við höfum átt saman. Þótt mér sé ljóst að ferð þeirra eigi ekki eftir að verða neinn dans á rósum, þá finn ég gleði fyrir hvern liðinn mánuð sem að eiginmaðurinn hefur ekki gefið sig að losta og klámfíkn og einnig í því að sjálfsmat og sjálfsöryggi eiginkonunnar séu að styrkjast, sem er augljóst.

Á fundum sem ég hef nýlega haft með þeim, er oft brosað og jafnvel hlegið, í stað tára og angistar á okkar fyrstu fundum. Kannski hefur besti árangurinn verið vonin — vonin um að þau geti ekki aðeins viðhaldið hjónabandi sínu, heldur að það geti jafnvel orðið fagurt og upphefjandi.

Því miður er mér líka ljóst að öll hjón ná ekki slíkum árangri. Sum hjónabönd geta farið út um þúfur, ef klámfíkillinn hafnar úrræðum til framfara. Burt séð frá því hvað eiginmaðurinn ákveður að gera, þá hef ég samt komist að því að það er innblásin ráðgjöf að veita eiginkonunum handleiðslu. Ég vona að engin systir í aðstæðum sem þessum, muni finna að hún sé vanrækt, dæmd ranglega eða misskilin af biskupi sínum. Handleiðsla biskupsins er lykilþáttur í því hvernig frelsarinn opinberar mátt sinn til að græða að fullu hvert hjarta — jafnvel þeirra sem eru „níst djúpum sárum“ (Jakob 2:35).

Ljósmynd
family studying scriptures

Að neðan: Kerri varð niðurbrotin þegar hún komst að því að eiginmaður hennar átti í erfiðleikum með klámfíkn, en fann von og lækningu í Jesú Kristi og friðþægingu hans.

Prenta