Bera vitni um Jesú Krist í orði og verki
Þegar við keppum að því að lifa lífi okkar í samhljómi við fagnaðarerindi Jesú Krists, mun hegðun okkar vera lifandi vitnisburður um lausnara okkar.
Við skírnina er eitt þeirra loforða sem við gefum að við séum fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists. Tilgangur minn hér í dag er að minna okkur á að við getum sýnt Guði að við tökum á okkur nafn sonar hans með því að gefa vitnisburð í orði og verki, eins oft og við getum, að Jesús er Kristur.
Þegar frelsarinn þjónaði og kenndi fólkinu í Ameríku eftir upprisu sína, sagði hann:
„Hafa þeir ekki lesið ritningarnar, sem segja, að þér verðið að taka á yður nafn Krists, sem er mitt nafn? Því að með því nafni verðið þér kallaðir á efsta degi –
Og hver, sem tekur á sig mitt nafn og stendur stöðugur allt til enda, mun hólpinn á efsta degi.“1
Russell M. Nelson forseti hefur kennt okkur: „Að taka nafn frelsarans á okkur, felur í sér yfirlýsingu og vitnisburð til fólks – með verkum okkar og orðum – um að Jesús er Kristur.“2
Sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er það blessun okkar og forréttindi að standa sem vitni um Drottin og nafn hans hvar sem við erum.3 Þegar við keppum að því að lifa lífi okkar í samhljómi við fagnaðarerindi Jesú Krists, mun hegðun okkar vera lifandi vitnisburður um lausnara okkar og nafn hans. Enn fremur vitnum við um Krist með því að miðla öðrum því sem við trúum, finnum eða vitum um Jesú Krist.
Þegar við miðlum auðmjúk vitnisburði okkar um Drottin með orðum okkar eða verkum, staðfestir heilagur andi4 fyrir þeim sem hafa einbeittan huga, opið hjarta og viljugan huga að Jesús er sannlega Kristur.5
Ég vil segja frá tveimur nýlegum og hvetjandi dæmum um meðlimi sem sýndu Guði að þeir tækju á sig nafn Jesú Krists með því að tala um hann og bera einlægt vitni um Drottin á kirkjusamkomum.
Fyrsta dæmið: Þegar ég og eiginkona mín Elaine fórum til Spánar árið 2022, sóttum við sunnudagssamkomur í lítilli einingu kirkjunnar á staðnum. Þar sem ég sat á pallinum og eiginkonan mín meðal safnaðarins, tók ég eftir að hún sat við hlið eldri konu. Þegar sakramentissamkomunni lauk, gekk ég til Elaine og bað hana um að kynna mig fyrir nýju vinkonu sinni. Hún gerði það og benti á að þessi kona, sem ekki væri meðlimur kirkjunnar, hefði sótt kirkjuna í um tvö ár. Þegar ég frétti þetta, spurði ég þessa guðhræddu konu hvað það væri sem fengi hana til að koma aftur og sækja samkomur í svona langan tíma. Konan svaraði ástúðlega: „Mér líkar að koma hingað því þið talið um Jesú Krist á samkomum ykkar.“
Meðlimir í þessari einingu kirkjunnar á Spáni töluðu greinilega, kenndu og vitnuðu um Krist á samkomum sínum.
Annað dæmið: Eftir að hafa þjónað á Brasilíusvæðinu, fékk ég nýtt verkefni til að þjóna í höfuðstöðvum kirkjunnar. Þegar við fluttum til Salt Lake City undir lok júlímánaðar á þessu ári, sóttum við sunnudagssamkomur í nýju og dásamlegu deildinni okkar. Ein af þessum samkomum var föstu- og vitnisburðarsamkoma. Eftir að hafa meðtekið lotningarfullir sakramentið, stóðu meðlimirnir upp og gáfu innilega vitnisburði um frelsarann, einn af öðrum. Samkoman hafði Jesú Krist sem miðpunkt og við fundum greinilega fyrir andanum. Okkur var lyft upp og trú okkar efldist. Ef vinir kirkjunnar sem leituðu sannleikans af alvöru hefðu verið á þessari samkomu, hefðu þeir borið kennsl á að þetta væri kirkja Jesú Krists.
Hvílík blessun að sjá að kirkjusamkomur okkar veita okkur fyrsta flokks tækifæri til að vitna um Krist og gefa Guði merki um að við gleðjumst yfir því að taka nafn sonar hans á okkur.
Lof mér nú að minnast á kraftmikið dæmi um að taka á sig nafn Jesú Krists með því að gefa vitnisburð um hann í verki.
Síðastliðinn ágúst fylgdi ég öldungi Jonathan S. Schmitt í opið hús Feather River-musterisins í Yuba City, Kaliforníu. Þar hlaust mér sú blessun að leiðbeina hópum á skoðunarferð þeirra um musterið. Í einum af þessum hópum voru meðlimur kirkjunnar, Virgil Atkinson, og sjö vinir sem voru annarar trúar. Undir lok heimsóknarinnar, í innsiglunarherbergi musterisins, varð bróðir Atkinson meyr þegar hann tjáði vinum sínum elsku sína, sem höfðu komið í musterið þann daginn. Nánast um leið og hann hafði gert það, stóð kona í hópnum á fætur og sagði: „Við elskum öll Virgil. Hann hefur aldrei þröngvað trú sinni upp á okkur. En hann er heldur ekki feiminn varðandi hana. Hann lifir einfaldlega eftir því sem hann trúir.“
Kristilegt líf bróður Atkinson í gegnum árin virkaði sem kraftmikill vitnisburður á vini hans. Fordæmi hans er sterkt vitni um að hann hafi tekið á sig nafn Krists.
Lof mér að lokum að miðla þeirri lexíu sem ég lærði um það hvernig taka skal á sig nafn Krists og vitna um hann með því að nota rétt nafn kirkjunnar.
Nelson forseti, lifandi spámaður Guðs, sagði í ráðstefnuræðu árið 2018, sem ber nafnið „Hið rétta nafn kirkjunnar“: „Þetta er … leiðrétting. Þetta er boð frá Drottni. Joseph Smith nefndi ekki hina endurreistu kirkju eftir sér; ekki heldur Mormón. Það var frelsarinn sjálfur sem sagði: ‚Því að svo mun kirkja mín nefnd á síðustu dögum, já, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu‘ [Kenning og sáttmálar 115:4].“6
Við yfirgáfum öll ráðstefnuna þann daginn skuldbundin og ákveðin í að fylgja spámanninum og nota opinberað nafn kirkjunnar upp frá því. Ég passaði mig virkilega, til að vera viss um að nota rétt nafn kirkjunnar. Í fyrstu nokkur skiptin þurfti ég að vera afar meðvitaður og forðast gamlar venjur. Eftir fyrstu nokkrar tilraunirnar, var ég öruggari við að nota opinberað nafn kirkjunnar. Ég viðurkenni að oft sagði ég nafn kirkjunnar hratt. Ég hafði áhyggjur af því að fólk myndi ekki veita fullu nafni kirkjunnar athygli og að því þætti það heldur langt.
Hvað sem því líður, þá áttaði ég mig síðar á því að ef ég sagði fullt nafn kirkjunnar með einbeitingu, þá gaf það mér dýrmætt tækifæri til að segja nafn Jesú Krists og gefa þannig vitnisburð um frelsarann með því að segja nafn hans í nafni kirkjunnar. Ég tók líka eftir því að þegar ég sagði rétt nafn kirkjunnar við aðra, minntist ég oftar Jesú Krists og fann áhrif hans í lífi mínu.
Með því að fylgja spámanninum, getum við öll lært að vitna oftar um Jesú Krist með því að nota rétt nafn kirkjunnar og taka með því móti betur á okkur nafn Drottins.
Á þessum hvíldardagsmorgni, vitna ég gleðilega að Nelson forseti er lifandi spámaður Guðs og að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er endurreist kirkja Krists. Ég vitna auðmjúklega um son Guðs og guðleika hans. Hann er frumburður Guðs og eingetinn sonur, frelsari okkar og lausnari, Immanúel.7 Í nafni Jesú Krists, amen.