Varðveita rödd sáttmálsþjóðarinnar í hinni upprennandi kynslóð
Ein okkar helgasta ábyrgð er að hjálpa börnum okkar að vita innilega og nákvæmlega að Jesús er Kristur.
Eitt hjartnæmasta augnablikið í Mormónsbók er þegar hinn upprisni Kristur vitjar fólksins við musterið í landinu Nægtarbrunni. Eftir dag kennslu, læknunar og trúareflingar, beindi Jesús athygli fólksins að hinni upprennandi kynslóð: „Hann bauð, að lítil börn þeirra skyldu leidd fyrir sig.“1 Hann bað fyrir þeim og blessaði þau, hvert af öðru. Upplifunin var svo áhrifamikil að sjálfur frelsarinn grét margoft.
Síðan, er hann talaði við fjöldann, sagði Jesús:
„Lítið á börn yðar:
Og þegar fólkið leit … sá [það] himnana opna og engla stíga niður af himni“ og þjóna börnum þeirra.2
Ég hef oft hugsað um þessa upplifun. Hún hlýtur að hafa brætt hjarta hvers og eins! Þau sáu frelsarann. Þau snertu hann. Þau þekktu hann. Hann kenndi þeim. Hann blessaði þau. Og hann elskaði þau. Það er ekki furða að eftir þennan helga atburð uxu þessi börn úr grasi og áttu þátt í að koma á fót samfélagi friðar, velsældar og kristilegrar elsku sem varði um kynslóðir.3
Væri ekki dásamlegt ef börnin okkar gætu átt upplifun sem þessa með Jesú Kristi – eitthvað sem bindur hjörtu þeirra við hann! Hann býður okkur, eins og hann bauð þessum foreldrum í Mormónsbók, að koma með börnin okkar til hans. Við getum hjálpað þeim að þekkja frelsara sinn og lausnara á sama hátt og þessi börn þekktu hann. Við getum sýnt þeim hvernig hægt er að finna frelsarann í ritningunum og byggja grundvöll á honum.4
Nýlega kenndi góðvinur mér nokkuð sem ég hafði ekki áður tekið eftir í dæmisögunni um vitra manninn, sem byggði hús sitt á bjargi. Samkvæmt frásögninni í Lúkasarguðspjalli, „gróf [vitri maðurinn] djúpt“ þegar hann lagði grunninn að húsi sínu.5 Þetta var ekki kæruleysisleg eða einföld tilraun – hún krafðist áreynslu!
Til að byggja líf okkar á bjargi lausnara okkar Jesú Kristi, þurfum við að grafa djúpt. Við fjarlægjum allt sem er sandborið eða yfirdrifið í lífi okkar. Við höldum áfram að grafa þar til við finnum hann. Og við kennum börnum okkar að bindast honum með helgiathöfnum og sáttmálum, svo að þegar stormar og flóð mótstreymis geysa, eins og þau munu sannarlega gera, munu þau hafa lítil áhrif á þau „vegna þess … [bjargs], sem [þau byggja] á“.6
Þess háttar styrkur gerist ekki af sjálfu sér. Hann gengur ekki til næstu kynslóðar eins og andlegur arfur. Hver einstaklingur þarf að grafa djúpt til að finna bjargið.
Við lærum þessa lexíu af annarri frásögn í Mormónsbók. Þegar Benjamín konungur ávarpaði þjóð sína í síðasta skipti, safnaðist hún saman sem fjölskyldur til að hlýða á orð hans.7 Benjamín konungur bar máttugt vitni um Jesú Krist og fólkið var djúpt snortið af vitnisburði hans. Það sagði:
„[Andinn] … hefur valdið svo mikilli breytingu á okkur, eða í hjörtum okkar. …
Og við erum fúsir að gjöra sáttmála við Guð okkar um að gjöra hans vilja … alla okkar ókomnu ævidaga.“8
Maður gæti búist við að lítil börn sem eiga svo trústerka foreldra myndu fyrr eða síðar snúast til trúar og gera sjálf sáttmála. En þrátt fyrir það, af einhverjum ástæðum sem ekki eru nefndar í heimildinni, hafði sáttmálinn sem foreldrar þeirra gerðu ekki aðdráttarafl hjá einhverjum barnanna. Sjö árum síðar „[gátu] margir af hinni upprennandi kynslóð … ekki skilið orð Benjamíns konungs, enda smábörn á þeim tíma, sem hann talaði til þegna sinna. Og þeir trúðu ekki erfikenningum feðra sinna.
Þeir trúðu ekki því, sem sagt hafði verið um upprisu dauðra, og trúðu ekki heldur á komu Krists. …
Og þeir vildu hvorki láta skírast né ganga í kirkjuna, og voru því aðskildir, hvað trúna varðar“.9
Hugsunin kemur manni niður á jörðina! Fyrir hina upprennandi kynslóð er ekki nóg að trúin á Jesú Krists sé „erfikenning feðra þeirra“. Hún þarf á eigin trú á Krist að halda. Hvernig getum við, sem sáttmálsþjóð Guðs, glætt hjörtu barna okkar með þrá til að gera og halda sáttmála við hann?
Við getum byrjað á því að fylgja fordæmi Nefís: „Vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“10 Orð Nefís gefa í skyn stöðugt, viðvarandi átak við að kenna börnum okkar um Krist. Við getum tryggt að rödd sáttmálsþjóðarinnar sé ekki þögul í eyrum hinnar upprennandi kynslóðar og að Jesús er ekki viðfangsefni eingöngu á sunnudögum.11
Rödd sáttmálsþjóðarinnar er að finna í orðum eigin vitnisburðar. Hana er að finna í orðum lifandi spámanna. Og hún er varðveitt á kraftmikinn hátt í ritningunum. Það er með henni sem börn okkar munu kynnast Jesú og finna svör við spurningum sínum. Það er með henni sem þau munu læra kenningu Krists. Það er með henni sem þau munu finna von. Þetta mun búa þau undir lífstíðarleit að sannleika og lífi á sáttmálsveginum.
Ég elska þessi ráð spámanns okkar, Russells M. Nelson forseta.
„Hvert getum við þá farið til að hlýða á hann?
Við getum snúið okkur að ritningunum. Þær kenna okkur um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, mikilvægi friðþægingar hans og hina miklu áætlun föður okkar um hamingju og endurlausn. Dagleg ígrundun orðs Guðs, er nauðsynleg til andlegrar afkomu, einkum á þessum tíma aukins umróts. Þegar við nærumst daglega á orðum Krists, munu þau segja okkur hvernig bregðast skuli við óvæntum og ófyrirséðum erfiðleikum.“12
Hvernig lítur það þá út, að nærast á orði Krists og að hlýða á hann? Nú, það lítur þannig út eins og það best hentar ykkur! Það gæti verið að safna fjölskyldu ykkar saman til að ræða þá hluti sem heilagur andi kenndi ykkur í ritningarnámi ykkur með Kom, fylg mér. Það gæti verið að safnast saman á hverjum degi með börnum ykkar til að lesa nokkur ritningarvers og leita að tækifærum til að ræða það sem þið lærðum, er þið verjið tíma saman. Finnið það sem hentar ykkur og fjölskyldu ykkar; og reynið síðan að bæta ykkur örlítið á hverjum degi.
Íhugið þennan skilning úr Kenna að hætti frelsarans: „Hvert fyrir sig kann eitt heimiliskvöld, ein ritningarnámsstund eða umræða um fagnaðarerindið ekki að afkasta miklu. Hins vegar geta nokkrar stundir samanlagt, endurteknar yfir tíma, verið kröftugri og meira styrkjandi en eitt afgerandi atvik eða tímamótakennslustund. … Gefist því ekki upp og hafið ekki áhyggjur af því að afkasta einhverju stórkostlegu í hvert sinn. Verið bara stöðug í framtaki ykkar.“13
Ein okkar helgasta ábyrgð er að hjálpa börnum okkar að vita innilega og nákvæmlega að Jesús er Kristur, sonur hins lifanda Guðs, persónulegur frelsari og lausnari þeirra, sem er við stjórnvölinn í kirkju sinni! Við megum ekki leyfa sáttmálsrödd okkar að dempast eða þagna þegar hann á í hlut.
Þið gætuð fundið til vanmáttar í þessu hlutverki, en ykkur ætti ekki að líða eins og þið séuð einsömul. Sem dæmi, þá er deildarráðum heimilt að skipuleggja kennararáðsfundi fyrir foreldra. Á þessum ársfjórðungslegu fundum geta foreldrar safnast saman til að læra af upplifunum hvers annars, rætt hvernig þeir styrkja fjölskyldu sína og lært lykilreglur kristilegrar kennslu. Þessi fundur ætti að vera haldinn á síðari klukkustund kirkjutímans.14 Deildarmeðlimur útvalinn af biskupi leiðir fundinn og fylgir forskrift hefðbundinna kennararáðsfunda, með Kenna að hætti frelsarans sem helsta úrræði.15 Biskupar, ef deild ykkar heldur sem stendur ekki kennararáðsfundi fyrir foreldra, vinnið þá með sunnudagaskólaforseta ykkar og deildarráði við að skipuleggja þá.16
Kæru vinir í Kristi, þið standið ykkur mikið betur en þið haldið. Haldið bara áfram að leggja ykkur fram. Börn ykkar horfa, hlusta og læra. Þegar þið kennið þeim, munið þið bera kennsl á raunverulegt eðli þeirra sem ástkæra syni og dætur Guðs. Þau gætu gleymt frelsaranum um tíma, en ég lofa ykkur að hann mun aldrei gleyma þeim! Þau augnablik þar sem heilagur andi talar til þeirra munu haldast í hjörtum þeirra og huga. Og einn daginn munu börn ykkar endurtaka vitnisburð Enosar: Ég veit að foreldrar mínir eru réttvísir, „því að [þeir kenndu] mér … og [fræddu] mig … um umhyggju og áminningar Drottins — og blessað sé nafn Guðs míns fyrir það.“17
Við skulum taka við boði frelsarans og koma með börnin okkar til hans. Þegar við gerum það, munu þau sjá hann. Þau munu finna fyrir honum. Þau munu þekkja hann. Hann mun kenna þeim. Hann mun blessa þau. Og, ó, hve hann mun elska þau. Og, ó, hve ég elska hann. Í hans heilaga nafni, Jesú Krists, amen.