Eilífur sannleikur
Þörf okkar fyrir að viðurkenna sannleikann hefur aldrei verið mikilvægari!
Bræður og systur, þakka ykkur fyrir hollustu ykkar við Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist, og þakka ykkur fyrir kærleika ykkar og þjónustu við hvert annað. Þið eruð sannlega undraverð!
Aðfaraorð
Eftir að ég og Anne, eiginkona mín, höfðum fengið símtal um að þjóna sem leiðtogar í fastatrúboði, ákvað fjölskyldan okkar að læra nafn hvers trúboða áður en við kæmum á akurinn. Við fengum myndir, bjuggum til minnismiða og tókum að skoða andlitin og leggja nöfnin á minnið.
Þegar við komum héldum við kynningarráðstefnur með trúboðunum. Þegar við komum saman, heyrði ég níu ára son okkar segja:
„Gaman að hitta þig, Sam!“
„Rachel, hvaðan ertu?“
„Vá, David, þú ert hávaxinn!“
Ég fór til sonar okkar með viðvörun og hvíslaði: „Hæ, mundu að ávarpa trúboðana sem öldung eða systur.“
Hann leit á mig spyrjandi og sagði: „Pabbi, ég hélt að við ættum að leggja nöfnin þeirra á minnið. Sonur okkar gerði það sem hann taldi rétt miðað við skilning sinn.
Hver er skilningur okkar á sannleikanum í heiminum í dag? Á okkur dynja stöðugt fullt af sterkum skoðunum, hlutdrægum skýrslum og ófullnægjandi gögnum. Samhliða verða heimildirnar fleiri og upplýsingaflæðið eykst hratt. Þörf okkar fyrir að viðurkenna sannleikann hefur aldrei verið mikilvægari!
Sannleikurinn er nauðsynlegur fyrir okkur til styrkja sambandið við Guð, finna frið og gleði og ná guðlegum möguleikum okkar. Við skulum hugleiða eftirfarandi spurningar í dag:
-
Hvað er sannleikur og hvers vegna er hann mikilvægur?
-
Hvernig finnum við sannleika?
-
Hvernig getum við miðlað sannleika þegar við höfum fundið hann?
Sannleikur er eilífur
Drottinn hefur kennt okkur að „sannleikurinn er þekking á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða“ (Kenning og sáttmálar 93:24). Hann var „[ekki skapaður eða gjörður]“ (Kenning og sáttmálar 93:29) og hefur „engan endi“ (Kenning og sáttmálar 88:66).1 Sannleikurinn er algjör, fastur og óumbreytanlegur. Með öðrum orðum, þá er sannleikur eilífur.2
Sannleikur hjálpar okkur að forðast blekkingar,3 greina gott frá illu,4 hljóta vernd5 og finna huggun og lækningu.6 Sannleikur getur líka verið leiðandi í breytni okkar,7 gert okkur frjáls,8 helgað okkur9 og leitt okkur til eilífs lífs.10
Guð opinberar eilífan sannleika
Guð opinberar okkur eilífan sannleika gegnum netkerfi opinberunarsambands þar sem hann sjálfur, Jesú Kristur, heilagur andi, spámenn og við sjálf eigum hlut að máli. Við skulum ræða hin aðskildu en samtengdu hlutverk sem hver þátttakandi gegnir í þessu ferli.
Fyrsta: Guð er uppspretta eilífs sannleika.11 Hann og sonur hans, Jesú Kristur, eru eitt12 hafa fullkominn skilningi á sannleika og breyta alltaf í samhljómi við sannar reglur og lögmál.13 Þessi kraftur gerir þeim mögulegt að skapa og ríkja yfir heimum14 og elska, leiða og næra hvert okkar fullkomlega.15 Þeir vilja að við skiljum og tileinkum okkur sannleika, svo við fáum notið blessananna sem þeir njóta.16 Þeir gætu miðlað sannleika í eigin persónu eða í gegnum boðbera eins og heilagan anda, engla eða lifandi spámenn.
Annað: Heilagur andi vitnar um allan sannleika.17 Hann opinberar okkur sannleika milliliðalaust og vitnar um sannleika sem aðrir kenna. Tilfinningar frá andanum koma venjulega sem hugsanir í huga okkar og tilfinningar í hjörtum okkar.18
Þriðja: Spámenn meðtaka sannleika frá Guði og miðla okkur þeim sannleika.19 Við lærum sannleikann af fyrri spámönnum í ritningunum20 og af lifandi spámönnum á aðalráðstefnu og gegnum aðrar almennar rásir.
Að lokum: Ég og þið gegnum mikilvægu hlutverki í þessu ferli. Guð væntir þess að við leitum, berum kennsl á og tileinkum okkur sannleika. Hæfni okkar til að meðtaka og tileinka okkur sannleika er háð styrkleika sambands okkar við föðurinn og soninn, viðbrögð okkar við áhrifum heilags anda og samstillingu okkar við spámenn síðari tíma.
Við þurfum að hafa í huga að Satan vinnur að því að halda okkur frá sannleika. Hann veit að án sannleika getum við ekki öðlast eilíft líf. Hann blandar saman sannleika og veraldlegri heimspeki til að rugla og afvegaleiða okkur frá því sem Guð miðlar.21
Leita, bera kennsl á og tileinka sér eilífan sannleika
Þegar við leitum eilífs sannleika22 geta eftirfarandi tvær spurningar hjálpað okkur að átta okkur á því hvort hugmynd kemur frá Guði eða á sér annan upprunna:
-
Er hugmyndin kennd stöðugt í ritningunum og í orðum lifandi spámanna?
-
Er hugmyndin staðfest með vitni heilags anda?
Guð opinberar eilífan sannleika með spámönnum sínum og heilagur andi staðfestir þann sannleika fyrir okkur og hjálpar okkur að tileinka okkur hann.23 Við verðum að leita og búa okkur undir að meðtaka slík andleg hughrif þegar þau berast.24 Við erum næmust fyrir vitni andans þegar við erum auðmjúk,25 biðjumst einlæglega fyrir, lærum orð Guðs26 og höldum boðorð hans.27
Þegar heilagur andi hefur staðfest ákveðinn sannleika fyrir okkur dýpkar skilningur okkar þegar við lifum eftir þeirri reglu. Þegar við lifum stöðugt eftir þeirri reglu, öðlumst við örugga þekkingu á þeim sannleika með tímanum.28
Ég hef til að mynda gert mistök og séð eftir miður góðum ákvörðunum. En með bæn, námi og trú á Jesú Krist, hlaut ég vitni um reglu iðrunar.29 Þegar ég hélt áfram að iðrast jókst skilningur minn á iðrun. Mér fannst ég vera nær Guði og syni hans. Ég veit núna að synd er hægt að fyrirgefa fyrir tilstilli Jesú Krists, því ég upplifi blessanir iðrunar á hverjum degi.30
Treysta Guði þegar sannleikur er ekki enn opinberaður
Hvað ber okkur þá að gera þegar við leitum í einlægni að sannleika sem enn hefur ekki verið opinberaður? Ég hef samúð með þeim okkar sem þrá svör sem virðast ekki koma.
Drottinn leiðbeindi Joseph Smith: „Ver rólegur þar til ég tel rétt að kunngjöra … allt … um þetta mál“ (Kenning og sáttmálar 10:37).
Hann útskýrði fyrir Emmu: „Kvarta ekki vegna þess, sem þú hefur ekki séð, því að um tíma er það hulið þér og heiminum, samkvæmt visku minni“ (Kenning og sáttmálar 25:4).
Ég hef líka leitað svara við hjartans spurningum. Mörg svör hafa borist og sum ekki.31 Þegar við höldum áfram – treystum visku og kærleika Guðs, höldum boðorð hans og treystum á það sem við þó vitum – hjálpar hann okkur að finna frið þar til hann opinberar sannleika allra hluta.32
Skilja kenningu og reglu
Þegar leitað er að sannleika, hjálpar það að skilja muninn á kenningu og reglu. Kenning vísar til eilífs sannleika, svo sem eðlis Guðdómsins, sáluhjálparáætlunarinnar og friðþægingarfórnar Jesú Krists. Regla er spámannleg beiting kenningar, byggð á núverandi aðstæðum. Reglur gera okkur mögulegt að stjórna kirkjunni á reglubundinn hátt.
Þótt kenningar breytist aldrei, breytist regla af og til. Drottinn starfar í gegnum spámenn sína að því að halda uppi kenningu sinni og breyta reglum kirkjunnar í samræmi við þarfir barna hans.
Því miður blöndum við stundum saman reglu og kenningu. Ef við skiljum ekki muninn, eigum við á hættu að verða vonsvikin þegar reglur breytast og gætum farið að efast um visku Guðs eða opinberunarhlutverk spámanna.33
Kenna eilífan sannleika
Þegar við hljótum sannleika frá Guði hvetur hann okkur til að miðla þeirri þekkingu með öðrum.34 Þetta gerum við þegar við kennum námsbekk, leiðbeinum barni eða ræðum við vin um sannleika fagnaðarerindisins.
Markmið okkar er að kenna sannleika á þann hátt sem býður upp á umbreytandi kraft heilags anda.35 Leyfið mér að miðla nokkrum einföldum boðum frá Drottni og spámönnum hans sem geta hjálpað.36
-
Einblínið á himneskan föður, Jesú Krist og grundvallarkenningu þeirra.37
-
Haldið ykkur fast við ritningarnar og kenningar síðari daga spámanna.38
-
Treystið á kenningu sem sett er fram með mörgum opinberum vitnum.39
-
Forðist vangaveltur, persónulegar skoðanir eða veraldlegar hugmyndir.40
-
Kennið kenningaratriði í samhengi við tengdan sannleika fagnaðarerindisins.41
-
Notið kennsluaðferðir sem stuðla að áhrifum andans.42
-
Eigið samskipti á skýran hátt til að forðast misskilning.43
Leita sannleika í kærleika
Hvernig við kennum sannleika skiptir miklu máli. Páll hvatt okkur til að mæla „sannleikann í kærleika“ (sjá Efesusbréfið 4:14–15). Sannleikur getur best blessað aðra þegar hann er fluttur af kristilegum kærleika.44
Sannleikur kenndur án kærleika, getur vakið tilfinningar dómhörku, vonbrigða og einmanaleika. Það leiðir oft til gremju og sundrungar – jafnvel átaka. Á hinn bóginn er kærleikur án sannleika holur og skortir fyrirheit um vöxt.
Bæði sannleikur og kærleikur eru nauðsynlegir fyrir andlega framþróun okkar.45 Sannleikurinn kemur fram með kenninguna, reglurnar og lögmálin fyrir eilíft líf, en kærleikurinn vekur þá hvatningu sem þarf til að taka á móti og bregðast við því sem er sannleikur.
Ég er ævinlega þakklátur þeim sem kenndu mér af þolinmæði eilífan sannleika með kærleika.
Lokaorð
Að lokum vil ég miðla eilífum sannleika sem hefur orðið akkeri sálar minnar. Ég hef komist til þekkingar á þessum sannleika með því að fylgja reglunum sem rætt er um í dag.
Ég veit að Guð er faðir okkar á himnum.46 Hann er alvitur,47 almáttugur48 og fullkomlega kærleiksríkur.49 Hann gerði áætlun fyrir okkur til að öðlast eilíft líf og verða eins og hann er.50
Hann sendi son sinn, Jesú Krist, okkur til hjálpar, sem hluta af áætlun sinni.51 Jesús kenndi okkur að gera vilja föðurins52 og elska hvert annað.53 Hann friðþægði fyrir syndir okkar54 og gaf líf sitt á krossinum.55 Hann reis upp að þremur dögum liðnum.56 Fyrir Krist og náð hans, munum við rísa upp,57 okkur getur verið fyrirgefið58 og við getum hlotið styrk gegnum þrengingar.59
Jesús Kristur stofnaði kirkju sína í sinni jarðneskri þjónustu.60 Í tímans rás var þeirri kirkju breytt og sannleikur glataðist.61 Jesús Kristur endurreisti kirkju sína og hinn einfalda og dýrmætan sannleika fagnaðarerindisins fyrir tilstilli spámannsins Josephs Smith.62 Kristur heldur áfram að leiða kirkju sína í dag með lifandi spámönnum og postulum.63
Ég veit að þegar við komum til Krists, getum við náð því marki að „[verða] fullkominn í Kristi“ (Moróní 10:32), öðlast „fylling gleði“ (Kenning og sáttmálar 93:33) og öðlast „allt, sem [faðirinn] á“ (Kenning og sáttmálar 84:38). Um þennan sannleika ber ég vitni, í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.