Meira en hetja
Jesús Kristur er ekki aðeins hetjan okkar, heldur Drottinn okkar og konungur, frelsari og lausnari heimsins.
Á árunum 1856 til 1860 fluttu þúsundir brautryðjenda Síðari daga heilagra eigur sínar í handvögnum meira en 1600 km leið er þeir ferðuðust til Saltvatnsdalsins. Fyrir 167 árum í þessari viku, þann 4.október árið 1856, kom það Brigham Young forseta á óvart er hann frétti að tveir handvagnahópar leiddir af Edward Martin og James Willie væru enn hundruð kílómetra frá Salt Lake og veturinn að nálgast hratt.1 Strax næsta dag, ekki fjarri fundarstað okkar í dag, stóð Young forseti frammi fyrir meðlimunum og sagði, „Margir bræðra okkar og systra eru á sléttunum með handvagna og það verður að flytja þau hingað. … Farið nú þegar og náið í þetta fólk á sléttunni.“2
Aðeins tveimur dögum síðar fóru fyrstu björgunarsveitirnar að leita að brautryðjendunum með handkerrurnar.
Einn úr Willie hópnum lýsti örvæntingarfullum aðstæðum áður en aðalbjörgunarsveitin kom. Hann sagði: „[Rétt] þegar allt virtist glatað, … og lítið eftir til þess að halda í lífið, þá, eins og þrumufleygur úr lofti, bænheyrði Guð okkur. Birtist þá björgunarsveit með mat og vistir. … Hve við þökkuðum Guði fyrir björgun okkar.“3
Þessir björgunarmenn voru hetjur í augum brautryðjendanna, sem settu líf sitt í hættu við erfiðar veðuraðstæður til að koma eins mörgum og hægt var örugglega heim. Ein slík hetja var Ephraim Hanks.
Um miðjan október, og án vitundar um handvagnafólkið var Hanks á heimleið til Salt Lake, þegar hann heyrði rödd um miðja nótt sem vakti hann með því að segja: „Handvagnafólkið á í vandræðum og þarfnast þín; viltu fara og hjálpa því?“
Með þá spurningu efst í huga, flýtti hann sér aftur til Saltvatnsborgar. Og þegar hann heyrði Heber C. Kimball óska eftir fleiri sjálfboðaliðum hélt hann strax einn af stað daginn eftir til björgunar. Hann fór hratt yfir og tók framúr öðrum björgunarmönnum, þar til hann fann Martin-hópinn. Hanks rifjaði upp: „Sú sjón sem blasti við mér er ég kom í búðirnar þeirra mun aldrei hverfa úr huga mér … [og] nægði til þess að snerta við hinu harðasta hjarta.4
Ephraim fór dögum saman á milli tjalda og blessaði hina sjúku. Hann sagði svo frá: „Í fjölmörgum tilfellum, þegar við þjónuðum hinum sjúku og höstuðum á sjúkdóma í nafni Jesú Krists, hresstust hinir þjáðu um leið; þau læknuðust nánast samstundis.“5 Ephraim Hanks mun alltaf verða hetja í augum þessara brautryðjenda handvagnanna.
Svipað þessari ótrúlegu björgun, eru atburðir sem hafa áhrif á líf okkar og jafnvel framvindu sögunnar oft afleiðing ákvarðana og afreka einstakra manna og kvenna – mikilla listamanna, vísindamanna, viðskiptaleiðtoga og stjórnmálamanna. Þessir einstöku einstaklingar eru oft hylltir sem „hetjur“ með minnisvörðum til að minnast hetjudáða þeirra.
Þegar ég var ungur drengur voru íþróttamenn fyrstu hetjurnar mínar. Mínar fyrstu minningar eru söfnun hafnaboltaspjalda með myndum og tölfræði um leikmenn í Meistaradeildinni í hafnabolta. „Hetjudýrkun“ barnsins getur verið skemmtileg og saklaus, eins og þegar börn klæða sig upp sem eftirlætis ofurhetjan sín á hrekkjavöku. Þó við dáumst að og virðum marga hæfileikaríka og merka karla og konur, fyrir getu þeirra og framlag, þá getur „dýrkun“ þeirra, ef hún fer út í öfgar, orðið jafngildi gullkálfsdýrkunar Ísraelsmanna í Sínaí eyðimörkinni.
Það sem eitt sinn var saklaus skemmtun barnsins, getur á fullorðinsárum orðið að hrösunarhellu þegar „hetjudýrkun“ á stjórnmálamönnum, bloggurum, áhrifavöldum, íþróttafólki eða tónlistarfólki verður til þess að við horfum „framhjá markinu“6 og missum sjónar á því sem er í raun mikilvægt.
Það var ekki gullið sem Ísraelsmenn höfðu með sér á ferð sinni til fyrirheitna landsins sem var eldraun þeirra, heldur það sem þeir leyfðu gullinu að verða: átrúnaðargoð sem þeir svo tilbáðu og beindi athygli þeirra frá Jehóva sem klauf Rauðahafið og frelsaði þá úr ánauð. Að vera með alla athyglina á kálfinum hafði áhrif á getu þeirra til að tilbiðja hinn sanna Guð
Hetjan okkar, nú og alltaf er Jesús Kristur og hver eða hvaðeina sem dregur athyglina frá kenningum hans, eins og heyra má í ritningunum og í orðum lifandi spámanna, getur haft neikvæð áhrif á framþróun okkar á sáttmálsveginum. Fyrir sköpun þessa heims, þegar áætlunin sem faðirinn á himnum lagði fram, sem fól í sér tækifæri til framþróunar og að verða eins og hann, var véfengd, litum við til Jesú Krists.
Jesús Kristur var ekki aðeins leiðtogi þeirra sem vörðu áætlun föður okkar, heldur átti hann að gegna meginhlutverkinu í útfærslu hennar. Hann svaraði föðurnum og bauð sig sjálfviljugan fram sem „lausnargjald fyrir alla“8 , til að gjalda fyrir skuld sem hvert og eitt okkar myndi stofna til með syndum okkar og gæti ekki greitt af sjálfsdáðum.
Dallin H Oaks forseti hefur kennt: „[Jesús Kristur] hefur gert allt sem nauðsynlegt er fyrir ferð okkar í gegnum jarðneskt líf í áttina að þeim örlögum sem útlistuð eru í áætlun himnesks föður.“9
Þegar frelsarinn stóð frammi fyrir svo yfirþyrmandi verkefni í Getsemanegarðinum, sagði hann hugrakkur: „Ekki minn vilji, heldur þinn“ og hélt áfram því verki að taka á sig allan sársauka, sjúkdóma og þjáningar vegna synda allra þeirra sem einhvern tíma myndu lifa.10 Af fullkominni hlýðni og skuldbindingu lauk Jesú Kristur hinni æðstu hetjudáð allrar sköpunar sem náði hámarki með dýrðlegri upprisu hans.
Á síðustu aðalráðstefnu minnti Russell M. Nelson forseti okkur á: „Hvaða spurningar eða vandamál sem þið hafið, þá er svarið alltaf að finna í lífi og kenningum Jesú Krists. Lærið meira um friðþægingu hans, kærleika hans, miskunn hans, kenningu hans og hið endurreista fagnaðarerindi hans til lækningar og framþróunar. Komið til hans! Fylgið honum!“11 Og ég bæti við „Veljið hann.“
Í okkar flókna heimi getur verið freistandi að gefa sig að hetjum samfélagsins til að finna skýrleika í lífinu þegar það virðist ruglingslegt eða yfirþyrmandi. Við kaupum fötin sem þær auglýsa, samþykkjum stjórnmálin sem þær aðhyllast og fylgjum ráðum þeirra á samfélagsmiðlum. Þetta gæti verið ágætt til að gleyma sér tímabundið, en við verðum að gæta þess vandlega að þessar hetjur verði ekki gullkálfurinn okkar. Að velja „rétta“ hetju hefur eilífar afleiðingar.
Þegar fjölskyldan okkar kom til Spánar til að hefja þjónustu okkar sem trúboðsleiðtogar, fundum við innrömmuð ummæli öldungs Neals A. Maxwell sem hafa tengingu við hetjurnar sem við veljum að fylgja. Hann sagði „Ef þið hafið ekki valið Guðs ríki frá upphafi, mun það að endingu engu skipta hvað þið hafið valið í staðinn.“12 Bræður og systur, það er með því að kjósa Jesú Krist, konung konunganna sem við veljum Guðs ríki. Allir aðrir valkostir eru jafngildi því að velja arm holdsins, eða gullkálfinn, og það mun að lokum bregðast okkur.
Í Gamla testamentinu í Bók Daníels lesum við um Sadrak, Mesak og Abed-Negó sem vissu hvaða hetju skyldi velja … og það var enginn af guðum Nebúkadnesar konungs. Þeir sögðu einarðlega:
„Vilji Guð okkar, sá sem við dýrkum, frelsa okkur getur hann frelsað okkur jafnt úr glóandi eldsofni. …
Og þótt hann láti það ógert skaltu samt vita að við munum hvorki dýrka þína guði, konungur, né tilbiðja gulllíkneskið.“13
Eins og Páll Postuli kenndi: „Það eru margir guðir“14 og má ég bæta við, margar svo kallaðar hetjur sem okkur er boðið að beygja okkur fyrir og dýrka og dásama. En eins og þessir þrír vinir Daníels vissu, það er aðeins einn sem mun örugglega skila af sér, því hann hefur þegar gert það og mun alltaf gera það.
Á ferð okkar aftur í návist Guðs, til fyrirheitna lands okkar, er það ekki stjórnmálamaðurinn, tónlistarmaðurinn, íþróttamaðurinn eða myndbandsbloggarinn sem er vandamálið, heldur það að leyfa að þeir verði okkar megin viðfangsefni og áhersla og yfirtaki hlutverk frelsara okkar og lausnara.
Við veljum hann, Jesú Krist, þegar við veljum að heiðra daginn hans hvort sem við erum heima eða á ferðalagi. Við veljum hann þegar við veljum orð Guðs, … í ritningunum og kenningum lifandi spámanna. Við veljum hann þegar við veljum að hafa musterismeðmæli og lifa verðuglega til að nota þau. Við veljum hann þegar við erum friðflytjendur og neitum að vera þrætugjörn „einkum þegar við erum á annarri skoðun.“15
Enginn leiðtogi hefur sýnt meira hugrekki, enginn mannvinur meiri gæsku, enginn læknir læknað fleiri sjúkdóma og enginn listamaður verið jafn skapandi og Jesús Kristur.
Í heimi hetja, með minnisvörðum og söfnum tileinkuðum hetjudáðum dauðlegra karla og kvenna, er aðeins einn sem ber höfuð og herðar yfir alla aðra. Ég ber vitni um að Jesús Kristur er ekki aðeins hetjan okkar, heldur Drottinn okkar og konungur, frelsari og lausnari heimsins. Í nafni Jesú Krists, amen.