Vér tölum um Krist
Hann mun kynnast vanmætti þess
Gisèle, eiginkonan mín, greindist með krabbamein í maga nokkrum árum eftir að við snerum heim frá því að hafa verið í forsæti fyrir Suva-trúboðinu á Fidjieyjum. Sú þrautaganga leiddi til þriggja erfiðra skurðaðgerða og fylgikvilla í kjölfar þess að magi hennar var algjörlega fjarlægður. Þegar þjáningar eiginkonu minnar voru hvað mestar fór ég að skilja betur friðþægingarfórn Jesú Krists.
Ég man hve yfirþyrmandi tilfinningar mínar voru vegna þess sem Gisèle mátti þola. Hvað hafði hún gert til að verðskulda slíka þjáningu? Hafði hún ekki þjónað Drottni af trúfestu? Hafði hún ekki lifað samkvæmt Vísdómsorðinu? Af hverju gat hann ekki komið í veg fyrir þennan sjúkdóm? Af hverju?
Eitt kvöldið lauk ég upp hjarta mínu og huga í bæn og greindi Drottni frá tilfinningum mínum og vanmætti. „Ég get ekki lengur horft á kæra eiginkonu mína þola slíkan sársauka!“ sagði ég við hann. Síðan ákvað ég að snúa mér að ritningunum. Þessi huggunarríku vers um Jesú Krist fann ég í Alma 7:11–12:
„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.
Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.“
Ég hafði ekki íhugað allt það sem hin dásamlega friðþægingarfórn frelsarans felur í sér fyrr en á þessu augnabliki. Ég hafði í raun ekki gert mér ljóst að Jesús Kristur mundi taka á sig þjáningar Gisèle – eða mínar þjáningar. Sársauki minn og ótti færðist yfir á hann sem tekur á sig „sársauka og sjúkdóma fólks síns.“ Þegar mér varð þetta ljóst fannst mér sem þungri byrði væri af mér létt!
Gisèle líður vel í dag, eins og hún hefði aldrei fengið krabbamein. Læknir hennar segir að hún sé „kraftaverk“ þegar hún fer í sína reglubundnu læknisskoðun. Ég er svo þakklátur fyrir líkamlega lækningu hennar, en ég er einnig þakklátur fyrir þá lækningu sem égupplifði – lækningu hjartans. Sú huggun sem einungis frelsarinn getur veitt færði mér friðsama fullvissu um að allt yrði í lagi.
Í hvert skipti sem ég tekst nú á við mótlæti leita hugsanir mínar til þessarar kraftmiklu lexíu og til þess sem Drottinn sagði við spámanninn Joseph Smith: „Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?“ (K&S 122:8). Að minnast fórnar Jesú Krists veitir mér undantekningarlaust huggun.
Ég er eilíflega þakklátur fyrir að frelsarinn var fús til að þola þær þjáningar sem hann leið. Ég vitna um ást hans, miskunn hans og að hann annast börn sín af umhyggju. Hann er frelsari okkar og ég elska hann.