Áskrifendum verður sendur uppfærður musterisbæklingur
Áskrifendur að tímaritunum Líahóna og Ensign munu fá sendan uppfærðan bækling, Musteri Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, í staðinn fyrir hefðbundið októberhefti 2010.
Bæklingur þessi er uppfærð útgáfa af riti sem prentað hefur verið í rúm 50 ár. Ritið hóf göngu sína árið 1955 sem Improvement Era, tímarit kirkjunnar. Síðar varð það sjálfstæður bæklingur sem hefur verið uppfærður átta sinnum. Nýjasta útgáfan, sem verður gefin út á 45 tungumálum, mun innihalda fréttagreinar og ljósmyndir.
Síðari daga spámenn, þar á meðal Thomas S. Monson forseti, hafa sífellt hvatt kirkjuþegna til að meðtaka helgiathafnir musterisins sjálfum sér til handa og snúa síðan aftur í musterið til þess að vinna verk fyrir áa sína.
Bæklingi þessum er ætlað að kenna kenningar og reglur musterisþjónustu. Kirkjuþegnar eru hvattir til þess að hafa að minnsta kosti eitt eintak af bæklingnum á heimili sínu til þess að foreldrar geti notað hann á fjölskyldukvöldum eða við aðrar aðstæður þegar þeir fræða fjölskyldur sínar um musterið.
Í bæklingnum er efni sem hæfir öllum aldurshópum. Meðal nýju greinanna í þessari útgáfu bæklingsins eru „Blessanir musterisins,“ eftir Thomas S. Monson forseta og „Undirbúningur að blessunum musterisins,“ eftir öldung Russell M. Nelson í Tólfpostulasveitinni. Bæklingurinn hefur einnig að geyma grein fyrir unglinga sem ber titilinn „Gerið musterið að hluta lífs ykkar,“ og börn geta lært um musteri í grein sem heitir „Leið ykkar til musterisins.“ Allir lesendur munu njóta þess að horfa á ljósmyndir af musterum víða um heim. Bæklingurinn hefur einnig að geyma svör við algengum spurningum til hjálpar þeim kirkjuþegnum sem búa sig undir musterisför í fyrsta sinn.
Kirkjuþegnar eru hvattir til þess að deila þessum bæklingi með fjölskyldu sinni og vinum annarrar trúar. Fleiri eintök af bæklingnum verða tiltæk í Dreifingarmiðstöðvum kirkjunnar og á vefsetrinu LDScatalog.com.
Stikuforsetar, biskupar og kennarar í musterisundirbúningsbekk geta valið að nota efnið í bæklingnum sem viðbótar kennsluefni með kennslubókinni Endowed from on High og bæklingnum Búa sig undir að fara í hið heilaga musteri.
Prestdæmisleiðtogar geta, eins og við á, gefið kirkjuþegnum, sem nú þegar hafa hlotið musterisgjöf sína, bæklinginn til að hjálpa þeim að muna musteris upplifun sína. Einnig gæti bæklingurinn nýst til þess að búa kirkjuþegna, sem nýlega hafa orðið virkir í kirkjunni aftur, undir að innsiglast í musterinu.
„Bæklingur þessi getur verið dásamleg hjálparlind fyrir alla kirkjuþegna,“ sagði öldungur Yoshihiko Kikuchi af hinum Sjötíu. „Hann minnir á hina helgu upplifun í musterinu, sáttmálana og blessanir sem því tengjast og þær skyldur hvers einstaks kirkjuþegns að vinna ættfræðistörf til að nafngreina ættfeður sína og mæður og veita þeim nauðsynlegar musterishelgiathafnir með því að þjóna í musterinu.“